Valur gegn FH pistill

Ritarinn er vanur því að fara flestra sinna ferða á tveimur jafnfljótum.  En hún var óvenjulega seinfær leiðin milli heimilis og Hlíðarenda að þessu sinni.  Þar sem ég klofaði skaflana dúðaður lambhúshettu muldraði ég Þorraþrælinn fyrir mér.  Ég var kominn langt inn í þriðja erindið í "kuldaklónum slær og kalt við hlær" en vissi varla hvar ég var þar sem kafaldsbylurinn lamdi éljunum í andlitið á mér.  Það var hreinlega eins og ég væri kominn langt norður fyrir hníf og gaffal.  Var ég hreinlega á leiðinni á ísbjarnaslóðir en ekki á handboltaleik.  Þessar fáránlegu hugleiðingar þvældust með mér í gegnum skaflana þegar ég sá að ég var loksins kominn á móts við fjósið og hlöðuna á Hlíðarenda.

Kosturinn við það að arka með hríðina í fangið er sá að maður er vel vaknaður þegar maður kemur á leiðarenda.

En því miður voru ekki allir vaknaðir þegar leikur hófst.  Að minnsta kosti virtist Valsliðið ansi dapurlegt í rúman hálfleik í leiknum.  Þessi leikur virtist ætla að spilast eins og síðustu 20 mínútur sömu liða sem voru í Kaplakrika fyrir helgina.  Hvaða eymdar örlaganorn paraði þessi lið strax í leik í þriðju lotu Íslandsmótsins?  Taplið sem átti fínar síðustu 20 mínútur vill vitaskuld koma fram hefndum og Gaflararnir virtust líklegir til þess.

Fyrri hálfleikur var afar slappur hjá okkur Valsmönnum en við máttum þakka fyrir að vera bara einu marki undir í hálfleik.  En þá var staðan 14 - 15 fyrir FH. 

Seinni hálfleikur vakti nokkra von því við náðum að jafna eftir þrjár mínútur en þá svöruðu Hafnfirðingar með þremur mörkum í röð og enn tók að syrta í álinn.  Þegar 20 mínútur lifðu af leiknum var útlitið orðið verulega dökkt.  Við vorum fjórum mörkum undir og ekkert benti til þess að við værum að leggja andstæðingana.  En þá gjörbreyttist leikur Valsliðsins.  Allt gekk skyndilega upp í sókninni hjá okkur og Stephan kom aftur inn á en hann varði ekki einn bolta á fyrsta korteri leiksins.  Á þessum kafla skoraði Valsliðið 9 mörk í röð og var komið í bílstjórasætið.  Staðan þá 27 - 22 fyrir okkur. Í lokin náðu FH-ingar að laga stöðuna og minnkuðu þeir muninn í þrjú mörk.  Leiknum lauk því 31 - 28 fyrir okkur.

Við erum búnir að spila gegn FH í tvo klukkutíma á fimm dögum.  Einn klukkutími var góður en hinn afleitur.  En við megum vel við una að hafa unnið báða leikina.  Við virðumst vera með mestu breiddina og það hjálpar okkur í forföllum lykilmanna.

Að þessu sinni hvíldu þeir Guðmundur Hólmar og Elvar en þeir urðu báðir fyrir hnjaski í fyrri leik liðanna.  Við reiknum með þeim báðum í bikarhelgina.

FH-ingar reyndu hvað þeir gátu að halda aftur af Geir og mættu honum mjög framarlega. Engu að síður skoraði hann þrjú mörk.

Alexander Örn Júlíusson átti afbragðsleik og skoraði 10 mörk, flest eftir uppstökk langt fyrir utan teig.  Sennilega hans besti meistaraflokksleikur.  En Alexander er lykilmaður með 2. flokki sem er á toppnum í 1. deild. Það mæðir því mikið á honum þessa dagana þar sem er skammt á milli leikja.

Kári og Vignir buðu okkur upp á skemmtilegan sirkus undir lokin.  Þá kom Kári út af línunni og fékk boltann, blikkaði Vigni í horninu sem sveif hátt inn í teiginn og greip þar bakhandarsendingu frá Kára og smellti boltanum í netið.  Virkilega smart hjá Eyjapeyjunum.

Helstu tölur:  Stephan varði 10 skot (öll á síðustu 20 mínútum seinni hálfleiks), Hlynur varði 5.  Mörkin skoruðu: Alexander Örn 10, Kári 8, Finnur Ingi 4, Vignir 3, Geir 3, Atli Már 2 og Ómar Ingi 1.

Næsti leikur Valsstráka er gegn HK í Digranesi. Leikurinn er á fimmtudaginn 19. febrúar og hefst kl. 19:30.  Látið ykkur ekki koma til hugar að það verði auðveld viðureign.  Við erum betri á pappírunum en HK hefur verið að bæta sig og við verðum að spila almennilega til að leggja þá að velli.

 

16. febrúar 2015 

Sigurður Ásbjörnsson