Valur : FH 2 - 0 Umfjöllun

Valur - FH   2 - 0 (0-0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 3. umferð.  Vodafone-völlurinn að Hlíðarenda,  sunnudaginn 17. maí 2015, kl. 19:15.

Aðstæður:  Góðar, 10°c hiti . 7-9 m/sek., norðanátt.  Áhorfendur:  Rúmlega 1200.

Dómari: Gunnar Jarl Jónsson. Aðstoðardómarar: Birkir Sigurðarson og Bryngeir Valdimarsson. Eftirlitsmaður: Jóhann Gunnarsson.

 

Væntingar okkar Valsmanna fyrir þennan leik voru hófstilltar. FH-ingar höfðu byrjað mótið mun betur, unnið tvo fyrstu leikina og af mörgum taldir líklegir meistarakandídatar. Valsmenn voru aftur á móti án sigurs eftir að hafa tapað illa heima fyrir Leikni í fyrsta leiknum og gert síðan jafntefli  á útivelli gegn Víkingum.

Vallargestir sáu fljótt að Valsliðið var mætt í þennan leik af fullri einurð, staðráðið í að halda sínum hlut. Þeir léku af krafti og ákefð og eftir sem á leið fór Valur að breiða betur út vængjunum, sveif um Hlíðarendann í seinni hálfleik og áttu FH-ingar fá svör við þessum besta leik Vals í langan tíma.

Ólafur stillti upp sama byrjunarliði og gegn Víkingum. Ingvar í markinu. Bjarni Ólafur, vinstra megin, og Baldvin, hægra megin, í bakvarðastöðunum. Orri og Tommy Guldborg miðverðir,  Haukur Páll fyrirliði og Andri Fannar á miðjunni. Andri Adolphs úti á vinstri vængnum og Sigurður Egill á þeim hægri. Kristinn Freyr, kominn aftur til leiks, var í holunni fyrir aftan danska miðherjann Patrick Pedersen.

 FH-ingar áttu fyrsta færið á upphafsmínútum þegar Atli Guðnason skallaði góða sendingu hátt yfir markið. En Valsmenn svöruðu í sömu mynt og sköpuðu sér ágæt færi. Andri Adolphsson var ágengur á vinstri vængnum og naut góðrar aðstoðar Bjarna Ólafs sem tók virkan þátt í sóknarleiknum. Kristinn Freyr var greinilega í essinu sínu og sköpuðu góðar sendingar hans oft usla í vörn FH.

Eftir sem leið á hálfleikinn urðu sóknaraðgerðir  Valsmanna æ harðskeyttari. Haukur Páll átti hörkuskalla yfir markið eftir góða aukaspyrnu Kristins Freys. Hættulegta færið skapaðist eftir vel tímasett  hlaup Sigurðar Egils inn í vítateig FH; hann fékk frábæa stungusendingu, sendi fyrir markið á óvaldaðan Patrick Pedersen en varnarmaður náði á síðasta augnabliki að komast fyrir og bjarga í horn. Fyrri hálfleikur var markalaus en Valsmenn gátu svo sannarlega vel við unað, voru sterkari aðilinn lengst af.        

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleik mun betur . Upp úr aukaspyrnu fékk Baldvin Surluson sendingu á auðan sjó, komst í ákjósanlegt færi hægra megin í vítateig FH-inga en fast skot hans hafnaði í hliðarnetinu. Stúkan fagnaði  ógurlega, flestir héldu að hann hefði skorað! Skömmu seinna prjónaði Bjarni Ólafur sig í gegn vinstra megin og gaf hættulegan bolta fyrir markið en FH-ingar náðu að bjarga í horn.

Eitthvað hlaut að láta undan hjá FH. Valsliðið náði æ betri tökum á leiknum og á 59. mínútu kom fyrra markið. Andri Adolphs fékk sendingu út til vinstri, fór laglega upp kantinn og sendi góðan bolta fyrir. Sigurður Egill, með eitt af sínum vel tímasettu hlaupum, mætti sendingu Andra á hárréttu augnabliki og skallaði knöttinn af öryggi fram hjá Róberti, góðum markverði FH-inga. Sjö mínútum seinna var Sigurður aftur á ferðinni. Patrick Pedersen fékk sendingu á miðjum vallarhelmingi  FH, náði að framlengja hana á Sigurð sem sneri laglega af sér varnarmann við vítateigslínunna og skauti góðu skoti í hægra hornið, 2 -0!

Valsliðið var virkilega komið í gang. Allir sem einn, frá markverði til fremsta manns. Liðið var þétt, varnarlínan örugg, Tommy Guldborg Christiansen veitir henni festu og ró og Orri öðlast meiri öryggi með hverjum leik. Bjarni Ólafur átti stórleik, sem og Kristinn Freyr og kantmennirnir báðir Andri og Sigurður Egill. Miðherjinn Patrick er gífurlega vinnusamur og var óheppinn að skora ekki þriðja markið þegar hörkugott skot hans lenti í slánni. Sigurður Egill var sérlega öflugur í seinni hálfleik og uppskar tvö góð mörk.

Tómas Óli kom inn á um miðjan seinni hálfleik fyrir Andra Adolphs og gaf sig allan í verkefnið, eins Ian Williamson sem leysti Baldvin af  hólmi síðustu mínúturnar. Eftir sem á leið varð ákefðin í leik Vals meiri. Haukur Páll fyrirliði og Andri Fannar gáfu FH-ingum aldrei frið, áttu miðjuna lengst af. Allir stigu upp, komu fram og  pressuðu, unnu boltann og létu hann ganga, sköpuðu.

Allt liðið lék vel, þetta var sigur liðsheildar. Næst er það erfiður útileikur gegn Breiðabliki, við eigum þar harma að hefna. Ég vona að liðið nái upp svipaðri stemningu og í þessum leik. Áhuginn og ákefðin geislaði af leikmönnum í kvöld, haldist slíkt hugarfar sem fram kom í kvöld þurfum við engu að kvíða, því getan og hæfileikarnir eru til staðar, það sáu allir í kvöld.