Fréttir af stjórn Barna- og unglingasviðs

Á aðalfundi Vals 8. maí 2014 var samþykkt að Barna- og unglingasvið (BUS) yrði sér svið innan Vals og hafi þar með aðskilin fjárhag. Guðmundur Breiðfjörð er for­­maður BUS og situr í aðalstjórn Vals. Á líðandi ári hefur, sex manna stjórn foreldra í Val ásamt Viðari Bjarnasyni íþróttafulltrúa Vals, unnið að því að því að bæta fjárhag sviðsins og móta gæðahandbók sem á að koma til framkvæmda haustið 2015. Um leið og handbókin tekur gildi verða fundir haldnir með þjálfurum og foreldrum/forráðamönnum.

Það er von okkar að gæðahandbókin auki enn frekar gæði starfsins á Hlíðarenda og verði leiðandi vinnuplagg fyrir starfsmenn Vals; íþróttafulltrúa, yfirþjálfara, þjálfara og aðstoðarfólk þjálfara. Í gæðahandbókinni eru vinnureglur útfærðar (hlutverk starfsmanna, framkvæmd uppskeruhátíða o.s.frv), þar er að finna gátlista til gæðamats, auk þess eru þar siðareglur Vals.

Vorhappdrættið 2014 gekk vel og bætti fjárhagsstöðu sviðsins verulega, vonum við að happdrættið 2015 komi til með að gera enn betur. Stjórnin leggur áherslu á að halda í góða þjálfara og auka frekar tekjur sviðsins sé þess þörf. Afmælis­mót Vals í körfubolta var haldið 9. maí og stefnt er á að endurtaka það árlega, bæta handboltamóti við árið 2016 og kattspyrnumóti að loknum framkvæmdum.

Frá maí 2015 kemur stjórn Barna- og unglingasviðs að ráðningu þjálfara ásamt íþrótta­full­trúa og yfirþjálfara þeirra greinar sem við á.

Á aðalfundi 9. maí 2015 gengu Jón Sigfús Sigur­jónsson og Svala G. Þor­móðs­­dóttir úr stjórn sviðsins. Margrét Lilja Guðmundsdóttir, Valtýr Guð­munds­­­son og Hólmfríður Sigþórsdóttir sitja áfram í stjórn sviðsins. Um leið og við þökk­um þeim Svölu og Jóni Sigfúsi vel unnin störf, tökum við vel á móti nýjum foreldr­um, þeim Einari Sveini Þórðarsyni, Kristínu Tómasdóttur og Sóleyju Björt Guðmunds­dóttur sem ætla að ljá stjórn Barna- og unglingasviðs krafta sína.

Foreldrar í Val eru hvattir til að koma ábendingum til stjónarinnar hvort sem eru hrós til þjálfara eða eitthvað sem betur má fara í starfi félagsins.

Fyrir hönd stjórnar BUS Hólmfríður og Margrét Lilja.

18. maí 2015