Valur og Viking ná samkomulagi um félagaskipti Patricks Pedersen

Valur hefur samþykkt kauptilboð Viking í framherjann Patrick Pedersen. Nú á Patrick eftir að standast læknisskoðun og ná samkomulagi við Viking. Kaupverð er trúnaðarmál. Patrick hefur reynst gríðarlegur happafengur fyrir Val og óskar félagið honum alls hins besta í framtíðinni.

Patrick Pedersen er fæddur árið 1991 og kom fyrst til Vals árið 2013 og sló þá í gegn með fimm mörkum í níu leikjum. Patrick kom aftur til Vals árið 2014 og þá á tveggja ára samningi. Á glæsilegum ferli sínum með Val hefur Patrick alls skorað 28 mörk í 45 leikjum og aukið gæði sóknarleiks Vals mikið. Það er staðreynd að það verður mikill missir af Patrick enda um mikinn gæða leikmann og ekki síst góðan liðsmann að ræða. Patrick lét hafa eftir sér í dag að hann myndi ræða þessi yfirvofandi félagskipti þegar allt væri klárt varðandi þau. Knattspyrnudeild Vals óskar Patrick Pedersen gæfu og heilla í framtíðinni og þakkar honum afar farsælt samtarf.