Valur - Þróttur 4 - 1. Léku á alls oddi

Valur - Þróttur  4 - 1  (3 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 5. umferð.  Valsvöllurinn að Hlíðarenda,  sunnudaginn 22. maí 2016, kl. 19:15

Aðstæður: Góðar, hitastig 7°c, gola af norð -vestan, 5 m/sek.  Áhorfendur:  1150

Dómari: Guðmundur Ársæll Guðmundsson. Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Adolf Þorberg Andersen.

 

Valsmenn unnu öruggan sigur á Þrótturum á Valsvellinum að Hlíðarenda í kvöld. Liðin skiptust á fyrstu mínúturnar að sækja en voru sóknir Valsmanna þó ívið beittari frá byrjun.

Strax á 3. mínútu sýndu Valsmenn klærnar þegar Kristinn Ingi náði góðu skoti á markið eftir gott spil Valsmanna, markvörður Þróttar varði skotið út í teiginn, þar kom Sigurður Láruson aðvífandi og þrumaði boltanum hátt yfir markið.

Mínútu seinna náðu Þróttarar góðri sókn og fengu dæmda aukaspyrnu rétt utan vítateigs Valsmanna en skotið fór forgörðum

Á 6. mínútu átti langbesti leikmaður Þróttar, Thiago Pinto Borges, góðu rispu upp vinstri vænginn, lék þaðan hratt með knöttinn í átt að vítateigshorninu og skaut hörkuskoti sem fór naumlega yfir markið. Þetta kveikti vel í "kötturunum" í stúkunni sem kvöttu sína menn óspart til dáða.

En það var skammt stórra högga á milli. Á 7. mínútu sendi Guðjón Pétur fallega sendingu fyrir markið eftir góða sókn Valsmanna. Nikolaj og Kristinn Ingi hlupu í átt að markinu og reyndu báðir að ná til boltans í einu. Við þá tilraun kútveltust þeir hver um annan þveran og markvörðurinn handsamaði auðveldlega knöttinn.

Valsmenn voru iðnir við kolann á næstu mínútum og virtust hafa náð yfirhöndinni í leiknum. Á 11. mínútu fléttuðu Kristinn Freyr og Andri Fannar sig skemmtilega í gegn hægra megin en varnarmenn Þróttar náðu að bægja hættunni frá. Valsmenn fylgdu þessu vel eftir og skömmu síðar skallaði Guðjón Pétur fallega fyrirgjöf Bjarna Ólafs rétt yfir markið.

Á 17. mínútu voru Valsmenn nálægt því að komast yfir þegar Kristinn Freyr fann Sigurð Lárusson í lappirnar rétt utan vítateigs. Sigurður sveiflaði vinstri fætinum víðfræga en skot hans, fallegur snúningsbolti, smaug rétt fram hjá samskeytunum vinstra megin.

Strax í næstu sókn Valsmanna skall hurð svo sannarlega nærri hælum við Þróttarmarkið þegar góður skalli Nikolajs Hansens fór rétt fram hjá. Þróttarar náðu skyndisókn eftir að hafa náð að stöðva næstu sókn Valsmanna en Valsvörnin stóð sem fyrr vaktina með ágætum og náði auðveldlega að hrinda sókninni.

Valsmenn sköpuðu sér nokkur færi á næstu mínútum en herslumuninn vantaði. Kristinn Freyr var sérlega líflegur í fyrri hálfleik og átti sinn besta leik í langan tíma. Og að því kom að ísinn brotnaði. Á 25. mínútu átti Guðjón Pétur góða sendingu fyrir markið. Kristinn Ingi skallaði að marki og markvörðurinn hálfvarði. Miðherji Valsmanna, Nikolaj Hansen gerði það sem góðir miðherjar eiga að gera, fylgdi eftir eins og gammur og sendi boltann af öryggi í netið. 1 - 0!

Valsmenn létu svo sannarlega ekki deigan síga og sóttu ákaft í kjölfar marksins. Upp úr einni sókninni náðu Þróttarar að vinna af þeim boltann og ná hraðaupphlaupi. Haukur Páll fyrirliði stöðvaði það en uppskar gult spjald.

Eftir um það bil hálftíma leik var nærri hægt að tala um einstefnu Valsmanna að marki Þróttara. Sigurður Lárusson átti hörkuskot á markið eftir gott spil á 29. mínútu og á 30. mínútu vildu sumir Valsmenn fá víti þegar Nikolaj Hansen var felldur í teignum, að því er virtist.

En hættan lá samt í leyni. Eftir samfellda sókn og tvær hornspyrnur Valsmanna, ná Þróttarar boltanum af þeim og rjúka upp völlinn, þrír hraðir sóknarmenn Þróttar gegn tveimur varnarmönnum Valsmanna. En varnarmenn Vals reyndust klókir, lokuðu vel leiðum og Þróttarar reyndu erfitt skot sem fór framhjá.

Skömmu seinna á 38. mínútu kom annað mark Valsmanna, gull af marki. Valsmenn léku boltanum á milli sín á miðjunni og færðust nær vítateig Þróttara. Boltinn barst út til vinstri, á Sigurð Lárusson sem sendi inn á Guðjón Pétur sem var á auðum sjó, rétt utan vítateigs. Guðjón lagði boltann fyrir sig og negldi hann síðan af afli í vinstra hornið án þess að markvörður Þróttar kæmi nokkrum vörnum við.  2 - 0!

Valsmenn léku við hvern sinn fingur sem eftir lifði hálfleiksins. Það er óhætt að segja að fyrri hálfleikurinn hafi boðið upp á það besta sem Valsmenn hafa sýnt í sumar. Valur fór sannarlega vængjum þöndum yfir Hlíðarendann á löngum köflum, Þróttarar áttu ekkert svar og á lokamínútu fyrri hálfleiks var síðasti naglinn rekinn í kistu Þróttara þegar Sigurður Lárusson komst inn í sendingu til markvarðar og vippaði knettinum laglega yfir hann og í netið. 3 - 0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var ekki nema fimm mínútna gamall þegar fjórða mark Valsmanna leit dagsins ljós. Nikolaj Hansen sá við rangstöðugildru Þróttar, fékk hárnákvæma sendingu fram miðjuna frá Guðjóni Pétri, Nikolaj var réttstæður og geysist af stað í átt að marki. Kristinn Fryer fylgdi honum vinstra megin og um leið og markvörðurinn hljóp út á móti Nikolaj þá gerði hann það eina rétta, gaf knöttinn út til vinstri á Kristinn sem renndi honum rakleiðis í tómt markið. 4 - 0!

Þarna toppaði Nikolaj Andreas Hansen góðan leik. Þetta var hans besti leikur til þessa. Góð vinnsla og og gott auga fyrir samleik einkenndu leik hans auk þess hversu duglegur hann var að koma til baka og verjast. Óeigingirni hans í í fjórða markinu er öllum til eftirbreytni og sýnir leikþroska hans og góða eiginleika sem knattspyrnumanns.

Valsmenn léku á alls oddi í kjölfar marksins. Eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik leysti Einar Karl Ingvarsson Kristinn Frey af velli, Kristinn Freyr hafði átt sinn besta leik í sumar. Og veislan hélt áfram. Glæsileg, löng sókn upp allan völlinn þar sem knötturinn gekk manna á milli, gladdi augað strax eftir skiptinguna.

Valsmenn léku eins og sá sem valdið hefur og létu Þróttarana hlaupa. Á 64. mínútu skipti Ólafur Kristni Inga út fyrir Björgvin Stefánsson sem lét fljótt til sín taka, kom strax hættulegri sendingu fyrir markið. Á 73. mínútu kom þriðja og síðasta skiptingin þegar Haukur Páll fór af velli. Í hans stað kom Baldvin Sturluson inn á, fór í stöðu hægri bakvarðar en Andri Fannar flutti sig inn á miðjuna.

Á 77. sendi Björgvin Stefánsson öðru sinni góða sendingu fyrir Þróttarmarkið, beint fyrir fætur Nikolaj Pedersen sem var í dauðafæri en brást bogalistin að þessu sinni. Björgvin kom af krafti ínn í leikinn og er gott að vita til þess hve breiddin er orðin góð í liðinu.

Á 81. mínútu átti Guðjón Pétur gott skot á markið en lokaorðið í þessum leik áttu Þróttararnir þegar Thiago Borges, í uppbótartíma, lék laglega upp miðjuna, tók nokkur skæri fyrir framan varnarmenn Vals og sendi síðan knöttinn með glæsilegu skoti upp í samskeytin vinstra megin. Þótt Þróttarar hefðu varla átt þetta skilið miðað við gang leiksins, þá átti hann þetta svo sannarlega skilið, langbesti leikmaður Þróttar og í rauninni sá eini sem eitthvað verulega kvað að í leiknum.

4 - 1 urðu lokatölur leiksins sem var hin besta skemmtun. Valsmenn eru nú komnir í efri hlutann, eru í sjötta sæti og stefna upp á við. Þessi leikur lofar svo sannarlega góðu um framhaldið. ÁFRAM VALUR!