Valur - FH 1-0 Komnar í toppbaráttuna

Valur - FH  1 - 0  (1- 0)

 

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild kvenna, 4. umferð. Valsvöllurinn að Hlíðarenda,  laugardaginn 28. maí 2016, kl. 14:00

 

Aðstæður: Góðar, hiti 10°c, suðaustan kaldi, 6-7 m/sek.

 Dómari: Gunnþór  Steinar Jónsson. Aðstoðardómarar: Antonie van Kasteren og  Sindri Snær van Kasteren.

   

Valskonur unnu nokkuð öruggan sigur á FH á Valsvellinum að Hlíðarenda. Þrátt fyrir að aðeins eitt mark skildi á milli virtist sigur Vals aldrei í hættu, slíkir voru yfirburðir þeirra í leiknum.

Þjálfarateymið stillti upp sterku liði. Sandra stóð í markinu og átti rólegan dag. Varnarleikurinn var vel skipulagður og agaður. Elísa, Pála, Rúna og Rebekka áttu allar góðan leik. Elísa lét mikið til sín taka og skoraði auk þess markið sem skildi liðin að. 

Laufey og Dóra María voru öflugar á miðjunni og var Laufey sérlega spræk í fyrri hálfleik.

Framlínan var vel skipuð. Elín Metta lék úti á hægri vængnum, Vesna á þeim vinstri, Margrét Lára var í miðherjastöðunni og Hildur Antons í holunni fyrir aftan hana.

Valskonur sýndu strax í upphafi að þær hefðu öll tögl og haldir heima á Hlíðarenda og myndu ekki færa andstæðingunum neitt á silfurfati í þessum leik. FH-ingar hófu leikinn en Valskonur mættu þeim af ákveðni, voru nálægt þeim og pressuðu stíft og voru fljótar að vinna boltann.

Hildur var mikið í boltanum í byrjun og kom góðum sendingum út á vængina. Elín Metta fékk ófáar sendingar út á hægri vænginn. Rétt fyrstu mínúturnar virkaði hún svolítið köld en var fljót að finna taktinn og á átti prýðilegan leik, sífellt ógnandi með hraða sínum og krafti.

Margrét Lára fékk ekki úr miklu að moða, FH-ingar höfðu að vonum góðar gætur á henni allan tímann. Á 14. mínútu kom góð sending frá vinstri inn í markteiginn Margrét Lára var í góðu skallafæri en varnarmaður náði að fipa hana og skalli hennar fór hárfínt fram hjá.

Valskonur héldu áfram að sækja og aðeins mínútu seinna átti Elín Metta góða sendingu frá hægri sem Vesna skallaði yfir markið

Vesna lék vel á vinstri kantinum og kom góðum boltum inn í teiginn en vörn FH var vel á verði og að baki varnarinnar stóð einstaklega góður markvörður sem greip örugglega inn í ef hætta skapaðist.

Á 35. mínútu, í kjölfarið á daufum tíu mínútna kafla sem einkenndist af hálfgerðu miðjumoði fengu Valskonur dæmda hornspyrnu frá hægri. Rúna, vinstri bakvörður, tók gaf góðan bolta inn í teiginn þar kom Elísa Viðarsdóttir aðvífandi og skallaði hann af krafti í hægra hornið, mjög gott mark og vel að verki staðið.

Valskonum reyndist ekki erfitt að verja forystuna það sem eftir lifði leiks. Tilraunir FH-kvenna báru engan árangur. Þær voru einfaldlega of hægar og ómarkvissar. Valskonur höfðu yfirhöndina í þessari viðureign allan tímann, héldu betur leikskipulagi og voru lengst af ákveðnari í öllum aðgerðum.

Í seinni hálfleik var skipt inn á þremur leikmönnum. Frammistaða þeirra sýndi hversu góð breidd er í liðinu. Á 63. mínútu kom Katrín Gylfadóttir inn í stað Laufeyjar og átti skínandi góðan leik.

Tíu mínútum seinna kom kornung, bráðefnileg stúlka, Hlín Eiríksdóttir, inn á vinstri kantinn í stað Vesnu og skömmu seinna var eldri systur hennar, Málfríði Eiríksdóttur, skipt inn í stað Elínar Mettu.

Systurnar áttu báðar afbragðs leik, eru áræðnar og fljótar enda ekki langt að sækja hæfileikana, dætur Guðrúnar Sæmundsdóttur sem árum saman var meðal fremstu knattspyrnukvenna Vals.

Lukkugyðjan gerði ekki upp á milli þeirra systra í þessum leik, báðar komust þær í úrvalsfæri, einar gegn markverði, en markvörður FH sá við þeim systrum í bæði skiptin og náði að afstýra hættunni.

Sigrinum var stýrt í höfn af öryggi og Valur er kominn í toppbaráttuna í Pepsideild kvenna. Róðurinn á eftir að þyngjast og baráttan að harðna. Þó að eitt mark hafi dugað til sigurs gegn hálf ráðlausu FH-liðinu þá er ljóst að stelpurnar þurfa að nýta betur færin gegn toppliðunum. En liðið er á réttri leið. Gott leikskipulag og hæfileikaríkir leikmenn eru til staðar. Mæti þær með gott sjálfstraust og sýni baráttu og ákefð í leik sínum, þá mega öll lið, einnig toppliðin, vara sig á Valskonum - það sýndi sig svo sannarlega í dag.