Anton Rúnarsson til Vals

Valsarinn Anton Rúnarsson hefur ákveðið að snúa heim úr atvinnumennsku og undirrita þriggja ára samning við handknattleiksdeild Vals. Anton hefur á undanförnum fjórum árum spilað í Danmörku og í Þýskalandi, síðast með liðinu TV Emsdetten. Hann er uppalinn á Hlíðarenda og var markahæsti leikmaður Vals tímabilið 2011-2012, síðast þegar hann lék með liðinu.

Anton er 28 ára gamall, 188 cm á hæð og spilar sem miðjumaður eða skytta. Það er ljóst að koma Antons aftur á Hlíðarenda eru afar góðar fréttir fyrir alla Valsara og virkilega jákvætt að fá svo öflugan leikmann aftur í Olís deildina.

"Ég er virkilega ánægður með þá niðurstöðu að snúa aftur á Hlíðarenda" sagði Anton í tilefni undirskriftarinnar; "Árin fjögur í atvinnumennskunni hafa verið mjög lærdómsrík og ég hlakka til að nýta mér það í Valstreyjunni á næstu árum" bætti Anton við.

Stefán Karlsson formaður hkd Vals hafði eftirfarandi að segja við undirskriftina: "Við erum hæstánægð með þennan samning, Anton er frábær leikmaður sem við þekkjum vel. Hlutverk hans verður stórt og það verður gaman að sjá hann aftur í Valsbúningnum. Undirbúningur fyrir næsta tímabil gengur vel og það verða frekari tíðindi af báðum liðum áður en tímabilið hefst."

Á meðfylgjandi mynd má sjá Anton undirrita samninginn með dyggri aðstoð barna sinna tveggja, en Anton og Sigrún kona hans eignuðust son fyrir aðeins 10 dögum síðan.