Yfirlýsing

Vegna stöðuuppfærslu Ragnheiðar Víkingsdóttur á Facebook í gærkvöldi vill Knattspyrnufélagið Valur koma eftirfarandi á framfæri:

Í maí sl. barst siðanefnd Vals ítarlegt erindi frá Heiðu Dröfn Antonsdóttur. Farið er með slík erindi sem trúnaðarmál og verður málið því ekki efnislega rætt á opinberum vettvangi. Það skal þó sagt að vinnan í kringum mál Heiðu er ólokið en er á lokastigi. Vegna málsins óskaði Heiða eftir félagaskiptum yfir í HK/Víking sem að sjálfsögðu voru samþykkt og það án þess að Valur innheimti félagaskiptagjald, en lágmarksgreiðsla fyrir samningsbundna leikmenn er 100.000 kr. Knattspyrnufélagið Valur gaf því eftir þá greiðslu til að komast til móts við Heiðu.

Varðandi mál Hildar Antonsdóttur, þá hefur félagið ekki fengið neina formlega kvörtun, líkt og í tilfelli Heiðu og eru hennar mál því ekki á borði siðanefndar Vals. Hins vegar hefur félagið átt samtöl við foreldra Hildar þar sem þeir hafa lýst yfir vanlíðan og ósætti hennar. Niðurstaðan var því sú að Hildur óskaði eftir að yfirgefa félagið í leikmannaglugganum. Valur fékk þrjú tilboð í Hildi. Eitt tilboð hljóðaði upp á 500.000 kr., það næsta upp á 350.000 kr. og að lokum kom tilboð frá Breiðabliki upp á 150.000 kr. Allir sem fylgjast með kvennaknattspyrnu vita að Hildur er frábær og verðmætur leikmaður. Það var því ekki óeðlilegt að stjórn Knattspyrnudeildar Vals vildi fá í kringum 500.000 kr. fyrir leikmanninn.

Það var hins vegar eindregin ósk Hildar að ganga í raðir Breiðabliks og var félaginu tjáð að hún myndi hafna tilboðum frá öðrum liðum. Knattspyrnufélagið Valur gekk því til samninga við Breiðablik þar sem Valur fékk þau svör að þeirra tilboð yrði ekki hækkað. Til að ljúka málinu á farsælan hátt var Hildi því boðið að gefa eftir laun sem hún átti inni hjá félaginu að upphæð 200.000 kr. Sá peningur gæti gengið upp í félagaskiptin og Valur því fengið ásættanlegt verð fyrir samningsbundinn leikmann. Þessu gekk Hildur að og var því tilboði Breiðabliks, upp á 150.000 kr., samþykkt og félagaskiptin gengu í gegn.

Knattspyrnufélagið Valur óskar bæði Hildi og Heiðu velfarnaðar hjá nýjum liðum, með einlægum óskum um að þær blómstri í nýju umhverfi. Þær eru ekki eingöngu frábærir leikmenn heldur einnig frábærar ungar konur sem unnið hafa marga glæsta sigra fyrir Knattspyrnufélagið Val. Valur mun taka þeim opnum örmum ef þær vilja snúa til baka í nánustu framtíð.