Yfirlýsing vegna frístundarútu

YFIRLÝSING VEGNA FRÍSTUNDARÚTU VALS

Kæru foreldrar og forráðamenn iðkenda í Val.

Frístundarúta Vals hefur nú gengið milli Valsheimilisins og frístundaheimila í rúma viku og upp hafa komið hnökrar sem félagið tekur mjög alvarlega. Tvívegis hefur það komið fyrir að iðkendur skiluðu sér svo seint að þeir misstu af æfingu og þykir okkur það mjög miður. Búið er bóka fund með rútufyrirtækinu sem þjónustar frístundaaksturinn þar sem farið verður gaumgæfilega yfir þessi mál og komið í veg fyrir að slík mistök gerist aftur.

Þá eru einnig áform um að koma á frístundagæslu í Valsheimilinu af stað á nýju og er sú vinna nú þegar hafin. Talið var að með stærri rútu gætum við minnkað bilið sem myndast milli þess sem iðkendur koma í Valsheimilið og þar til æfingar hefjast, með það fyrir augum að starfsfólk hússins myndu brúa það bil í stað frístundar. Fyrirkomulagið hefur ekki virkað sem skildi og erum við því að bregðast við með þessum aðgerðum.

Foreldrum má vera ljóst að allir þeir sem koma að starfsemi Vals með einum eða öðrum hætti bera öryggi og hag iðkenda fyrir brjósti. Það er okkur hjartansmál að börnunum líði vel og hafi ánægju af því að stunda íþróttir hjá félaginu.  Við munum því vinna ötullega að því að koma þessum málum í réttan farveg þannig að foreldrar, jafnt sem börnin upplifi það að þau séu örugg að Hlíðarenda.

 

Valskveðjur, Gunnar Örn - íþróttafulltrúi Vals