ÞETTA ER DAGURINN ÞINN

    Færa má rök fyrir því að AUGNABLIKIÐ sé það eina sem skiptir máli. Við fáum ekki breytt fortíðinni og framtíðin er einvörðungu hugarburður, væntingar, von um betri tíð. Ef núið er þar sem framtíð og fortíð mætast hljótum við alltaf að vera á tímamótum. Það er uppörvandi og mikilvæg áskorun.

En hvernig bregðumst við við á tímamótum og hvað hefur nýtt upphaf í för með sér? Hvernig verjum við deginum?

     Það er krefjandi að spyrja sjálfan sig að kveldi dags: Hef ég gengið til góðs? Nýtti ég daginn til fullnustu? Lærði ég eitthvað nýtt? Hversu marga gladdi ég? Særði ég einhverja? Hrósaði ég einhverjum? Gerði ég mitt besta í dag?

    Erum við meðvituð um að hver athöfn okkar, hvert orð getur leitt til einhvers sérstaks í lífi okkar, hrundið af stað atburðarás? Og jafnvel ýtt við öðrum. Sumir fara út í hvern einasta dag með það að markmiði að ná hámarksárangri í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur og hafa tamið sér það að hugsa margfalt stærra og meira en næsti maður. Það er spennandi að gera slíka tilraun, bæta sig í hverju skrefi, öllum mannlegum samskiptum. Slíkt er ögrandi og krefst 100% einbeitingar í öllum athöfnum, litlum sem smáum. Það segja þeir sem til þekkja að árangurinn láti ekki á sér standa og að sama skapi hafi þeir ekki áhuga á að hverfa aftur til meðalmennskunnar. Hvar erum við stödd?

    Ef við erum metnaðargjörn skiptir gríðarlega miklu máli hverja við umgöngumst sökum þess að við verðum líklega meðaltalið af vinum okkar. Orð að sönnu? Við eigum að forðast neikvæða og metnaðarlausa einstaklinga, hlusta á þá sem eru jákvæðir og vera sem oftast í návist þeirra sem eru flottar fyrirmyndir. Jákvætt, glaðvært og metnaðargjarnt fólk hvetur okkur til dáða, lyftir okkur upp í hæstu hæðir. Þegar við erum meðvituð um að augnablikið er eilíft munum við vanda okkur við að lifa, klífa sífellt hærri tinda.

   Ef við í Val höfum ofangreint að leiðarljósi mun það skapa jákvætt andrúmsloft, samkennd og vinaþel. Þúsundir einstaklinga koma að Hlíðarenda daglega; starfsfólk, þjálfarar, iðkendur, foreldrar, sjálfboðaliðar, gestir. Allir vilja gera sitt besta en færa má rök fyrir því að mótlætið þroski okkur mest.

   Við getum tamið okkur ofangreindan hugsunarhátt með því að mæta að Hlíðarenda með jákvæðni að leiðarljósi og vera leiðtogar. Við verðum leiðtogar með því að sýna gott fordæmi, hrósa, leggja okkur enn betur fram, taka aukaæfingar, ganga vel um klefann og Hlíðarenda og síðast en ekki síst; sýna öllum virðingu. Þegar við verðum leiðtogar eykst sjálfstraustið og í kjölfarið gengur okkur betur í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur, innan vallar sem utan. Við megum aldrei gleyma því að ,,hver og einn er sinnar eigin gæfu smiður" og þess vegna veltur árangur okkar fyrst og fremst á því hvað við sjálf erum tilbúin til að leggja á okkur.

    Tækifærið er NÚNA, augnablikið er NÚNA, ekki í gær og ekki á morgun. Líttu í eigin barm og veltu fyrir þér hvað þú getir gert betur.

  

Þorgrímur Þráinsson