"Ég klæðist Valstreyjunni stolt á nýjan leik", Málfríður Sigurðardóttir skrifar undir samning til eins árs við knattspyrnudeild Vals.

Knattspyrnukonan Málfríður Erna Sigurðardóttir, "Fríða", er komin heim í Val!
Fríða hefur skrifað undir eins árs samning við knattspyrnudeild Vals.
Á síðustu tveimur tímabilum hefur Fríða verið einn besti varnarmaðurinn í Pepsi-deild kvenna og því er um gríðarlegan liðsstyrk að ræða.

Fríða spilaði fyrst með meistaraflokki Vals árið 2000. Hún á að baki 176 mfl leiki fyrir félagið, hefur unnið fjölda titla með Val
og hefur skorað 24 mörk í þeim.
Fríða kom sér aftur í A-landslið kvenna með frammistöðu sinni og hefur nú spilað 28 landsleiki.

Fríða svaraði nokkrum spurningum vegna félagaskipta sinna:
"Ég fór úr Val fyrir tveimur árum til að prófa eitthvað nýtt á ferlinum.
Átti tvö frábær ár hjá Breiðablik og sé ekki eftir því að hafa farið.
Hins vegar togaði Valshjartað mig aftur á Hlíðarenda og mig langaði alltaf að
klára ferilinn hjá mínu uppeldisfélagi sem mér þykir svo vænt um.

Það skemmir ekki fyrir heldur að börnin mín æfa hjá yngri flokkum Vals.

Leikmannahópurinn er fyrsta flokks, margar frábærar fótboltakonur.
Það mun styrkja liðið klárlega að Dóra María verður með frá byrjun og Elín Metta verður með allt tímabilið.
Mikil samkeppni um flestar ef ekki allar stöður sem er bara gott. Þjálfarateymið þekki ég ekki mikið
en eftir fund með Úlfi leist mér vel á hans hugmyndir og hans eldmóð fyrir starfinu. Þetta mun klárlega smitast til leikmannahópsins.

Ég var inn og út úr fótbolta vegna barneigna síðast þegar ég var í Val.
Síðustu tvö ár í Breiðablik voru hins vegar góð bæði fyrir liðið og fyrir mig persónulega.
Unnum tvo titla og fengum á okkur fæstu mörkin í deildinni bæði árin.

Ég mun klæðast stolt rauðu treyjunni á nýjan leik og bið stuðningsmenn um
að styðja við bakið á liðinu og hjálpa okkur að fá bikar aftur á Hlíðarenda".

Gríðarleg ánægja er með endurkomu Fríðu í Val.