Keppnistímabilið hófst í gær

Keppnistímabilið í knattspyrnu er þegar hafið. Reykjavíkurmótið er komið í fullan gang. Það er ekki rétt að reyna að  gengisfella  Reykjavíkurmótið með því að tala um það sem eitthvert æfinga- eða undirbúningsmót eins og sumum íþróttafréttamönnum er tamt. Undirbúningstímabil knattspyrnumanna er frá nóvemberbyrjun fram í miðjan janúar. Með Reykjavíkurmótinu hefst í raun keppnistímabilið. Strax helgina eftir úrslitaleik Reykjavíkurmótsins byrjar  Lengjubikarinn  sem lýkur síðari hluta aprílmánaðar og í kjölfarið, 1. maí, hefst Íslandsmótið. Öll þessi mót eru tekin af fullri alvöru af þjálfurum og leikmönnum félaganna. Menn stilla upp sínu besta liði af þeim hóp sem tiltækur er  hverju  sinni  og fara í alla leiki til að vinna þá. Að lyfta Reykjavíkurbikarnum í mótslok, einum fallegasta bikarnum sem keppt er um í meistaraflokki, er ósk allra sem um hann keppa. Reykjavíkurmót,  Lengjubikar, Íslandsmót og Bikarkeppnin mynda samfellt keppnistímabil sem stendur yfir í níu mánuði og er óþarfi að gera hlut einhvers þessara móta lítinn.

Meistaraflokkur kvenna reið á vaðið og lék sinn fyrsta leik í Reykjavíkurmótinu þann 8. janúar gegn Fylki. Þrátt fyrir að hafa unnið leikinn urðu þær að sætta  sig við þriggja marka tap vegna leikmanna sem höfðu ekki leikheimild. En fall er fararheill og í  annarri  umferð, 13. janúar, helgina unnu þær öruggan sex marka sigur á ÍR. Mörkin skoruðu Elín Metta  Jensen  (1), systurnar Hlín (1) og  Málfríður Anna (2) Eiríksdætur, Hlíf Hauksdóttir (1) og Arna Sif Arngrímsdóttir (1). Valskonur munu eflaust mæta  ákveðnar  í síðasta leik riðlakeppninnar gegn Þrótti þann 29. janúar og freista þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum.

Meistaraflokkur karla hóf leikinn í gærkvöldi, 15. janúar og mættu Þrótti í Egilshöll. Þrátt fyrir fjarveru nokkurra lykilleikmanna var hópurinn ágætlega skipaður. Þjálfarateymið Ólafur Davíð Jóhannesson, þjálfari og Sigurbjörn Örn Hreiðarsson aðstoðarþjálfari stilltu upp, í fyrsta sinn, þriggja manna vörn fyrir framan Anton Ara Einarsson markvörð. Minnti þessi uppstilling undirritaðan á sjötta tug síðustu aldar þegar varnarmenn voru ávallt þrír. Andri Fannar Stefánsson og Bjarni Ólafur Eiríksson voru bakverðir  og Haukur Páll Sigurðsson lék í stöðu miðvarðar og var jafnframt fyrirliði  Valsmanna. Aftastur miðjumanna lék Sindri Björnsson sem góðu heilli er kominn aftur til félagsins. Fyrir framan hann á miðjunni léku þeir Einar Karl Ingvarsson og Guðjón Pétur Lýðsson. Kristinn Ingi Halldórsson var hægri útherji og Haukur Ásberg Hilmarsson vinstra megin. Í fremstu víglínu voru síðan þeir Sveinn Aron  Guðjohnsen  og Nikolaj Andreas  Hansen.

Reiðubúnir á bekknum sátu Ásgeir Þór Magnússon varamakvörður og allir ungu strákarnir,  Edvard  Dagur Edvardsson, fyrirliði 2. flokks (f. 1998), félagi hans í 2. fl.  Cristian  Andres  Catano  (f. 2000) og jafnaldrarnir, Aron Gauti Magnússon, Aron Elí Sævarsson og Darri Sigþórsson sem allir ná tvítugsaldrinum á þessu ári (f. 1997). Aron Gauti lék sem lánsmaður með Fjarðarbyggð á síðasta ári en er snúinn aftur í raðir  Valsmanna  og er vissulega mikill fengur í honum fyrir félagið.

Það var ekki auðhlaupið að leggja  Þróttara  að velli í gærkvöldi.  Þróttarar  byrjuðu mun betur og ætluðu greinilega að selja sig dýrt. Þeir skoruðu snemma leiks þegar Brynjar Jónasson náði að framlengja skalla Viktors Jónssonar eftir góða sókn. Þeir áttu góð færi í hálfleiknum en Anton Ari sá við þeim með góðri markvörslu. Eftir hálftíma leik náðu  Valsmenn  að jafna metin þegar Sveinn Aron  lagði  knöttinn laglega fyrir fætur  Nikolaj  Hansen  sem afgreiddi hann í netið með viðkomu í einum varnarmanni. En Adam var ekki lengi í Paradís. Aðeins tíu mínútum síðar náðu  Þróttarar  forystu á nýjan leik. Vilhjálmur Pálmason sendi fastan bolta fyrir markið, Haukur Páll reyndi að hreinsa en varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.  Valsmenn  jöfnuðu mínútu fyrir leikhlé og aftur var það Sveinn Aron sem átti góða sendingu fyrir markið sem Nikolaj  Pedersen  skoraði úr. Staðan í hálfleik 2- 2.

Í upphafi seinni hálfleiks leysti Aron Gauti Magnússon Hilmar Ásberg af hólmi á vinstri kantinum. Þetta var fyrsti  mótsleikur  Arons Gauta í meistaraflokki Vals og sýndi pilturinn góða takta. Smám saman náðu  Valsmenn  undirtökunum í leiknum og um miðjan hálfleikinn kom sigurmarkið. Eftir  þunga  sókn  Valsmanna  barst knötturinn út úr vítateig  Valsmanna, þar var fyrir miðjumaðurinn skotfasti Einar Karl Ingvarsson. Hann hafði engar vöflur á hlutunum heldur lét vaða á markið. Firnafast skotið flaug í gegnum þéttan varnarpakka  Þróttara  og hafnaði neðst í vinstra markhorninu. Reyndist þetta vera sigurmark leiksins. Ólafur gerði breytingar undir lok leiksins. Hinn sextán ára gamli  Cristian  Catano  kom inn á fyrir Hauk Pál á 75. mínútu og þeir Edvard Dagur og Aron Elí leystu þá Sindra Björnsson og Nikolaj  Hansen  af hólmi á 83. Mínútu.  Valsmenn  héldu yfirhöndinni sem eftir lifði leiks og gengu af hólmi með öll stigin þrjú.

Leikurinn í gær lofar góðu. Liðið virðist vera í góðu líkamlegu standi og þó svo að eitthvað sé enn örlítið ryðgað sem eðlilegt er í upphafi  keppnistímabils  þá er góðs að vænta af þessum strákum, það er ljóst. Sveinn Aron var góður, sérstaklega í fyrri hálfleik, lagði  upp  bæði mörkin og var duglegur að koma til baka og hjálpa  til við varnarvinnuna. Hann hefur styrkst mjög frá síðasta sumri. Nikolaj  Hansen  skoraði tvö góð mörk og er ávallt hættulegur í vítateignum. Miðjumennirnir voru góðir og styrkir það miðjuna verulega að hafa fengið Sindra Björnsson í hópinn. Hann les leikinn vel og er yfirleitt vel staðsettur og öruggur í sínum aðgerðum. Anton Ari átti einnig góðan leik í markinu og fámenn vörnin skilaði sínu hlutverki vel. Það á eflaust á eftir að fjölga aftur í vörn liðsins þegar Rasmus  Christiansen  og Orri Sigurður Ómarsson mæta til leiks.

Sama má segja um útherja liðsins, þó margt gott hafi sést til þeirra í gær þá mun valkostum Ólafs þjálfara fjölga þegar Andri Adolfsson,  Dion  Jeremy  Aicoff  og Sigurður Egill Lárusson mæta til leiks. Þá er ótalinn nýr leikmaður sem slást mun í hópinn  upp  úr miðjum febrúar, í þann mund er  Lengjubikarinn  fer af stað. Sá er Dani og heitir Nikolaj  Køhler  og getur leikið bæði sem útherji og framherji. Bikarmeistarar Vals geta litið björtum augum til nýhafins keppnistímabils. Næsti leikur í Reykjavíkurmótinu er útileikur í Egilshöll gegn Fjölni næsta laugardag, 21. Janúar, kl. 17:15. Áfram Valur!