Arnar Sveinn Geirsson skrifar undir 1 árs samning við Knattspyrnudeild Vals

Arnar Sveinn Geirsson, gegnheill uppalinn 26 ára Valsmaður, hefur skrifað undir samning við knattspyrnudeild Vals.
Samningurinn gildir út tímabilið 2017. Arnar Sveinn á þegar 74 leiki með mfl.Vals og skorað8 mörk.
Arnar hefur síðastliðin tvö ár stundað nám í Ameríska háskólaboltanum í sterkri deild.
Arnar Sveinn lék áður handbolta með meistaraflokki Vals en valdi knattspyrnuna og hóf að spila með mfl.karla árið 2008.
Arnar er dyggur félagsmaður eins og faðir hans, Geir Sveinsson. Það eru því gleðifréttir að Arnar Sveinn sé kominn heim í Val.

Í tilefni af samningnum ræddi valur.is við Arnar:

"Síðustu 2 ár var ég að læra úti í Bandaríkjunum í Costal Carolina skólanum og þar náðum við um tíma að vera topp 5 á landinu öllu. Á þessum tíma var mikið unnið með líkamlegan styrk og úthald og mér finnst ég allavega hafa lært talsvert þarna úti og komið heim sem betri fótbolta- og íþróttamaður heilt yfir. Vegna námsins ytra hef ekki náð að taka fótboltann föstum tökum hér heima. Ég kom heim í stuttan tíma yfir sumarið og það einhvern veginn dró aðeins kraftinn úr manni. Þegar ég kom heim síðasta vor og náði heilu tímabili fann ég að ég átti talsvert inni og fékk aftur þessa góðu tilfinningu þar sem maður naut þess í botn að spila. Ég er auðvitað Valsari í húð og hár og finnst ég eiga eftir að gera ýmislegt með klúbbnum. Það er ekki eins og ég sé mjög gamall svo að mér fannst vera kominn tími til að taka fótboltann föstum tökum og ná fram öllu því sem ég tel mig eiga inni - og mér fannst það hvergi passa betur en á Hlíðarenda. Ég er gríðarlega ánægður með að vera kominn, enn og aftur!


Mér líst hrikalega vel á bæði þjálfarana, teymið og leikmannahópinn. Ég auðvitað þekki svæðið, teymið frábært og svo spilaði ég auðvitað með Bjössa. Óli hefur tekið vel á móti mér ásamt Bjössa og æfingarnar verið virkilega góðar það sem af er. Hópurinn er síðan virkilega skemmtilegur. Góð blanda eldri og yngri leikmanna, suma þekki ég mjög vel en aðra er ég að hitta í fyrsta skipti. Það er mjög skemmtileg stemning í hópnum, mórallinn frábær og mannskapurinn virðist smella saman. Það er ekki síður mikilvægt en hæfileikar að það séu flottir karakterar í hópnum og það er það svo sannarlega í bland við mikil fótboltagæði.


Valur er auðvitað stórt félag á Íslandi og það eru alltaf kröfur á liðið. Ég er auðvitað ekki búinn að vera með liðinu lengi en finnst samt sem áður vera stígandi í hópnum á æfingum og fullt af tíma og leikjum framundan til að fínpússa þá hluti sem til þarf. Þetta er bara gamla góða klisjan, við ætlum í hvern leik til að vinna hann eins og alltaf en kannski ótímabært eins og er að fara að setja einhver markmið langt fram í tímann. Þessi hópur hefur alla burði til þess að gera vel og ef við nýtum þessa mánuði sem eru til stefnu fyrir fyrsta leik vel að þá eru okkur flestir vegir færir. Ég sjálfur stefni auðvitað á það að koma mér hratt og örugglega í gott leikform og inn í leikskipulag liðsins. Það tekur alltaf smá tíma að komast í takt við nýtt lið en ég hef svosem litlar áhyggjur af því og vonandi mun ég síðan geta hjálpað liðinu að ná góðum árangri á vellinum.

Sigurbjörn Hreiðarsson:

"Arnar er auðvitað Valsmaður og þekkir það að vera hér og fyrir hvað Valur stendur. Hann getur leyst margar stöður inná,  og kemur inní hópinn mjög jákvæður og tilbúinn að berjast fyrir sínu.
Arnar er sterkur félagslega sem er alltaf mjög mikilvægt fyrir hóp."