Munck Íslandi nýr aðalstyrktaraðili knattspyrnufélagsins Vals

Knattspyrnufélagið Valur og verktakafyrirtækið Munck Íslandi undirrituðu samstarfssamning fyrir leik Vals og ÍBV í úrslitakeppni karla í handknattleik síðastliðinn miðvikudag. Munck Íslandi verður aðalstyrktaraðili  knattspyrnufélagsins Vals næstu þrjú árin og mun Valur auglýsa merki Munck Íslandi framan á keppnisbúningum allra yngri flokka og meistaraflokka félagsins í knattspyrnu, hand- og körfuknattleik á samningstímanum.

Valur og Munck Íslandi 02.jpg

Á myndinni má sjá Hörð Gunnarsson, formann handknattleiksdeildar og fyrrverandi formann Vals ásamt Ásgeiri Loftssyni framkvæmdastjóra Munck Íslandi. Myndina tók Baldur Þorgilsson.

"Valur er í mikilli sókn og því gleðiefni að tengjast framsæknu fyrirtæki sem er stórhuga og óhætt er að segja að Valur og Munck Íslandi tengist mjög vel því bæði félögin eru í uppbyggingu og horfa fram á veginn með háleit markmið. Það er gleðiefni þegar fyrirtæki ákveður að tengja nafn sitt við grasrót íþróttahreyfingar og tengjast þar með beint við kjarnastarfsemi og undirstöðu sérsambanda," segir Lárus Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vals.

"Við erum ánægð og stolt af því að hafa náð að tengja vörumerki okkar við þetta öfluga íþróttafélag sem á að baki glæsilega sögu í íslenskri íþróttasögu sem eitt sigursælasta félags landsins með trygga stuðningsmenn um land allt. Munck Íslandi er tiltölulega nýlegt félag á íslenska markaðnum og er það heiður að fá að tengja vörumerki okkar við knattspyrnufélagið Val," segir Ásgeir Loftsson, framkvæmdastjóri Munck Íslandi.

Munck Íslandi er hluti af dönsku samsteypunni Munck Group sem er einnig með starfssemi í Danmörku, Noregi, Grænlandi og Færeyjum. Munck Íslandi (áður LNS Saga) er framsækið alhliða verktakafyrirtæki sem byggir á öflugu og reynslumiklu teymi lykilstjórnenda. Helstu verkefni eru uppbygging íbúða- og atvinnuhúsnæðis, virkjana og iðnaðarframkvæmdir, vega- og jarðgangagerð, sjóvinna og hafnarmannvirki. Starfsmenn Munck Íslandi búa yfir haldgóðri og fjölbreyttri reynslu af stjórnun stórra framkvæmdaverkefna á Íslandi og norðurlöndunum.

Vaur og Munck Íslandi 01.jpg

Ásgeir Loftsson og Hörður Gunnarsson við undirskriftina s.l. miðvikudag ásamt iðkendum Vals - Myndina tók Baldur Þorgilsson.