Uppeldið að skila sér – pistill

Það eru norðlenskir dagar hjá okkur Valsmönnum um þessar mundir.  Eftir margar frestanir tókst loksins að koma á leikjum okkar gegn Akureyringum.  Strákarnir brunuðu norður á laugardagsmorgun en máttu híma góðan part úr degi á Skagfirska efnahagssvæðinu, nánar tiltekið í Varmahlíð.  Hermt er að þeim hafi ekki verið varmi efst í huga á meðan þeirri bið stóð.  Að endingu náðu dótakallar Vegagerðarinnar að ryðja þrönga tröð í gegnum hjarnbreiðurnar á Öxnadalsheiðinni.  En tröðin sú var það þröng að strákarnir náðu ekki að hafa nema eitt stig með sér til baka.  Svona getur færðin sett strik í reikninginn á ólíklegustu stöðum.

En verkefni sunnudagsins var að taka á móti stelpunum úr KA/Þór.  Í liði Norðanstelpna er þorri leikmanna langt innan við tvítugt og voru þær flestar að spila með þriðja flokki fyrr um morguninn.  Í þjálfarateymi þeirra eigum við Valsmenn góðan félaga, sjálfan Gunnar Erni Birgisson (Gussa), sem þjálfaði í nokkur ár hjá okkur á Hlíðarenda við gott orðspor.  Það væri annars efni í efnismikla ritsmíð ef einhver tæki sig til og skrásetti vistaskipti leikmanna og þjálfara milli Vals og liðanna á Akureyri.

En það voru líka ungar stelpur úr meistaraflokki Vals sem voru að spila með þriðja flokki fyrr í morgun.  Undirritaður var í foreldrahópi með þriðja flokks strákunum í Víkinni en þar var leikur í gangi með tveimur stelpum í stóru hlutverki sem áttu eftir að koma við sögu í meistaraflokksleiknum síðar um daginn.  Það voru þær Margrét Vignisdóttir og Hrafnhildur Hekla Björnsdóttir.  Margrét spilaði þar lengstum í vinstri skyttunni og leysti oft inn á línu.  Hrafnhildur spilar hins vegar sem liðsstjórnandi.  Hrafnhildur er ekki há í loftinu en það er hin besta skemmtun að fylgjast með henni.  Hún er gríðarlega fljót fram og fljót að breyta um stefnu og hraða þegar hún er á ferðinni.  Mér fannst hún skjótast með boltann sitt á hvað til hægri vinstri án þess að varnarmenn næðu að klukka hana til gagns.

Góðu fréttir dagsins eru þær að Guðný Jenný Ásmundsdóttir er mætt aftur í markið.  Slæmu fréttirnar eru þær að Begga er aftur hætt í handbolta.  Ég ætla hins vegar ekki að vera súr, heldur þakklátur Beggu fyrir að fylla skarð Jennýjar þegar við þurftum á að halda.  Það hlýtur að hafa gefið henni nokkuð að ná með okkur titli í hús.  Berglind Íris Hansdóttir bikarmeistari með Val 2014.  Það hljómar vel.

En Jenný er tvímælalaust maður dagsins.  Fyrsti leikurinn eftir að hafa tognað á lærvöðva fyrir nokkrum mánuðum og þvílík innkoma.  Jenný virkaði pínu köld í upphafi leiks og það setti að mér nokkurn ugg þar sem ég sá að Sigríður steig á bolta í upphitun og beyglaði undir sig fótinn.  Það leit illa út og því óvíst að hún kæmi við sögu í leiknum.  En Jenný átti fínan fyrri hálfleik og varði 13 skot en fékk á sig 8 mörk sem gerir tæp 62% markvörslu sem er frábært.  En hvað segið þið þá um seinni hálfleikinn?  Jenný varði 24 skot en fékk á sig 7 mörk á 30 mínútum.  Það samsvarar 77,42% markvörslu.  Heildarniðurstaðan var því 37 skot varin en fékk á sig 15 mörk.  Þjálfari norðanstelpna hélt því fram að þetta væri Íslandsmet.  Ekki hef ég hugmynd um það þar sem ég er bara að fylgjast með tölfræði Valsliðsins.  En þetta var mögnuð frammistaða.  Velkomin aftur í rammann Jenný.

Um leikinn er engin ástæða til að fara um mörgum orðum.  Valsliðið var miklu betra en KA/Þór  að leikurinn varð aldrei spennandi eftir að byrjunarhrollurinn var úr mannskapnum eftir rúmar tíu mínútur.  Þá skildu leiðir, Valur leiddi 20 - 8 í hálfleik en þegar yfir lauk stóð 38 - 15 í þessum síðasta leik deildarkeppninnar.

Það gladdi mig sérstaklega í þessum leik að sjá ungu stelpurnar okkar fá mjög mikinn spilatíma.  Vigdís byrjaði t.d. á línunni og spilaði í ca. þrjú korter og skoraði 4 mörk.  Nína og Margrét spiluðu líka lengi og settu mark sitt á leikinn.  En Hrafnhildur Hekla skoraði í fyrsta skipti í leik með meistaraflokki.  Auðvitað er það rétt að mótherjarnir voru margfalt lakari og því hægt að gefa ungu stelpunum mikilvæga reynslu og hvíla kanónurnar úr mömmuklúbbnum.  En nákvæmlega það tókst okkur mjög vel.  Anna Úrsúla var á bekknum allan tímann en tók engu að síður virkan þátt í leiknum með hvatningu og leiðbeiningum til annarra.  Hún og Íris Ásta kunna öðrum betur að taka þátt í leiknum þó maður sé á bekknum.

Tilþrif leiksins átti Vigdís Birna sem fékk boltann í fangið og mann á bakið undir lok leiksins þegar hún var á línunni.  Í stað þess að skæla út víti (sem flestir hefðu gert) þá laumaði hún boltanum með flottum úlnliðssnúningi og bakhandarvippu framhjá markverðinum og beint í netið.  Vel gert stelpa!

Tölur:  Jenný varði 37 skot.  Mörkin skoruðu: Kristín 9, Heiða 6, Karólína 5, Morgan 5, Vigdís 4, Nína (Jónína Líf) 3, Hrafnhildur 3, Rebekka 1, Margrét 1 og Hrafnhildur Hekla 1.

Framundan er landsleikjahlé þar sem íslensku stelpurnar spila heima og heiman gegn Frökkum á miðvkudag og laugardag.  Í landsliðinu er Karólína sérlegur fulltrúi okkar og við óskum henni og stöllunum í landsliðinu góðs gengis.  En úrslitakeppni Olísdeildar kvenna hefst síðan sunnudaginn 6. apríl.  En strákarnir taka á móti Haukum á fimmtudaginn 27. mars kl. 20.

Áfram Valur

 

Sigurður Ásbjörnsson