Mfl. karla: Fátt um fína drætti í Árbænum

24.08.2014

Valsmenn biðu lægri hlut á móti Fylkismönnum, 2:0, í Lautinni í kvöld.

Fyrra mark heimamanna kom á 38. mínútu þegar Ásgeir Eyþórsson stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Oddur Ingi Guðmundsson tvöfaldaði forystuna á 72. mínútu með marki úr vítaspyrnu.

Okkar menn náðu sér aldrei á strik í leiknum og áttu fá marktækifæri. Patrik Pedersen komst næst því að skora á 68. mínútu þegar Bjarni Ólafur Eiríksson átti stórkostlega sendingu inn fyrir vörn Fylkismanna. Markvörður þeirra varði skot Danans vel.

Hinn 19 ára gamli Anton Ari Einarsson stóð á milli stanganna hjá Val í kvöld en þessi stórefnilegi markmaður lék þar með sinn fyrsta deildarleik fyrir félagið. Anton Ari spilaði með Aftureldingu í fyrra og var á láni hjá Tindastóli í 1. deildinni fyrri hluta tímabilsins. Frammistaða Antons Ara var afar lofandi en hann fagnar tvítugsafmæli sínu á morgun.

Næsti leikur Vals er sunnudaginn 31. ágúst klukkan 17.00 en þá kemur ÍBV í heimsókn. Fjölmennum á völlinn og styðjum liðið til sigurs!

Byrjunarlið Vals: Anton Ari - Billy, Þórður Steinar, Magnús Már, Bjarni Ólafur - Haukur Páll (50. Kristinn Freyr), Halldór Hermann, Tonny - Sigurður Egill (84. Haukur Ásberg), Patrick, Kolbeinn (73. Kristinn Ingi).

Ónotaðir varamenn: Fjalar, Iain, Gunnar og Darri.