2. fl. kk: Hetjuleg endurkoma í fallbaráttuslag

7.9.14

2. flokkur karla sigraði Fjölni 3:2 á Vodafone-vellinum í dag. Fjölmargir Valsmenn mættu á völlinn og hvöttu strákana til dáða.

Bæði liðin voru í fallsæti A-deildar fyrir leikinn. Valur var í 9. sæti með 17 stig en Fjölnir í 10. sæti, stigi á eftir Valsmönnum.

Það var því mikið undir og báru upphafsmínúturnar merki þess.  Hvorugt liðið vildi taka af skarið og augljóst var að mikil spenna var í leikmönnum liðanna.

Fjölnismenn voru þó öllu beinskeyttari í sóknarleik sínum sem skilaði þeim tveimur góðum mörkum í fyrri hálfleik. Valsmenn voru því 0:2 undir þegar dómarinn flautaði til hálfleiks og róðurinn orðinn þungur fyrir heimamenn.

Allt annar bragur var á leik Valsliðsins í síðari hálfleik og var staðan orðin jöfn, 2:2, eftir klukkutíma leik. Það var síðan besti leikmaður vallarins, Haukur Ásberg Hilmarsson, sem skoraði sigurmarkið um miðjan síðari hálfleik með stórglæsilegri aukaspyrnu. Óverjandi skot Hauks endaði efst í markvinklinum og Valsmenn komnir í forystu.

Með hetjulegri baráttu og góðum varnarleik fögnuðu Valsmenn stigunum þremur í leikslok. Liðið er því komið upp úr fallsæti þegar ein umferð er eftir af Íslandsmótinu.

Áfram Valur!