Á toppnum inn í jólafríið..

Valur vann öruggan sigur á KFÍ í síðasta leik ársins. Valsarar tóku forustu strax í upphafi og bættu í jafnt og þétt. Þegar upp var staðið munaði 34 stigum á liðunum, Valur 101-KFÍ 67.

Ágúst Björgvinsson tefldi fram breyttu byrjunarliði frá fyrsta tapleiknum í fyrstu deildinni á Akranesi fyrir rúmri viku. Elías Orri Gíslason og Þorgeir K. Blöndal byrjuðu því leikinn ásamt Benedikt Blöndal, Illuga Auðunssyni og Jamie Stewart.

Ísfirðingar eru með harðskeytt lið og gefa ekki þumlung eftir og voru fyrstu mínúturnar nokkur barningur. Þrátt fyrir það tókst Val að halda frumkvæðinu og var það ekki síst að þakka því að leikmenn liðsins létu harða vörn andstæðinganna ekki slá sig út af laginu heldur svöruðu í sömu mynt í vörninni og létu boltann ganga vel í sókninni. Hvað eftir annað tókst Valsmönnum að stela boltanum og skora auðveldar körfur.

Þannig tókst að breyta fimm stiga forskoti eftir fyrsta leikhluta í 23 stiga forustu í hálfleik og voru úrslitin þá í raun ráðin. Gústi gat spilað á öllum leikmönnum liðsins og nýtt þá miklu breidd, sem er innan þess.

Stewart átti góðan leik, skoraði 25 stig og tók flest frákost eða sjö, en komst í villuvandræði fullkomlega að óþörfu við að reyna að stela boltanum. Benedikt og Elías skoruðu 16 stig hvor og Illugi Steingrímsson 15. Kormákur Arthúrsson skoraði 10 stig og Friðrik Þjálfi Stefánsson var með sex stig eins og Þorgeir, sem var með flestar stoðsendingar, sjö alls. Illugi Auðunsson skoraði þrjú stig og Sigurður Dagur Sturluson og Sigurður Rúnar Sigurðsson tvö hvor.

Ísfirðingar spila með tvo útlendinga og gat aðeins annar þeirra verið inni á vellinum í einu. Knezevic Nebojsa er öflugur leikmaður og bar af, var með 25 stig og átta fráköst. Bandaríkjamaðurinn Christopher Anderson komst hins vegar aldrei í takt við leikinn og spilaði fyrir vikið lítið.

Valsmenn fara því í jólafrí í efsta sæti deildarinnar með 14 stig eftir átta umferðir. Í öðru sæti er Fjölnir með 12 stig eftir sjö leiki. Þór Akureyri er í þriðja sæti og Skallagrímur í því fjórða, bæði með 12 stig eftir átta leiki. Baráttan eftir áramót mun standa milli þessara fjögurra liða og má búast við að Íslandsmótið verði spennandi allt til síðustu umferðar.

 

 KBl.