Valur Reykjavíkurmeistari í meistarflokki karla 2017

Valur Reykjavíkurmeistari í meistaraflokki karla 2017

Fjölnir - Valur         0 - 1  (0 - 1)

Reykjavíkurmótið í knattspyrnu, úrslitaleikur, Egilshöll. Mánudagur 13. febrúar, kl. 19:00.

 Dómari: Ívar Orri Kristjánsson.     Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Andri Vigfússon.

 

Það var ljóst strax á upphafsmínútum þessa úrslitaleiks Reykjavíkurmótsins að Valsmenn ætluðu að selja sig dýrt. Minnugir útreiðarinnar sem þeir fengu gegn Fjölni í riðlakeppninni fyrr í vetur voru allir staðráðnir í að gera betur. Fjölnismenn hófu leikinn en Valsmenn voru fljótir að vinna af þeim boltann, sóttu hart strax á annarri mínútu og náðu góðu skoti sem lenti í varnarmanni og þaðan út úr teignum.

Valsliðið var töluvert breytt frá undanúrlitaleiknum gegn Víkingi. Mestu munaði að fyrirliðinn, Haukur Páll Sigurðsson, var í leikbanni. Bjarni Ólafur var á sínum stað í vinstri bakvarðarstöðunni og bar fyrirliðabandið í stað Hauks. Andri Fannar byrjaði á bekknum að þessu sinni og Arnar Sveinn tók stöðu hægri bakvarðar. Orri og Rasmus voru mættir í miðvörnina og í  markið var kominn aftur Anton Ari, geislandi af sjálfstrausti eftir Mexíkóförina með landsliðshópnum.

Sindri Björnsson lék í stað Hauks sem aftasti miðjumaður og stóð sig mjög vel. Sömu sögu er að segja um Einar Karl sem sýndi ódrepandi vinnusemi á miðjunni. Guðjón Pétur var fremstur á miðjunni, í holunni sem kallað er, og var mun sprækari en í undanúrslitaleiknum gegn Víkingi. Bandaríkjamaðurinn Dion Acoff sem nú lék sinn fyrsta leik í Reykjavíkurmótinu var á hægri kanti. Hann er eldfljótur og ógnaði verulega Fjölnisvörninni með hraða sínum, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Valsliðið er búið að endurheimta Sigurð Egil Lárusson. Hann var kominn á sinn stað, á vinstri kantinn. Sigurður er búinn að vera á miklu flandri síðustu vikur, var fyrst í Tékklandi, fór þaðan í æfingaferð til Portúgal og síðan til Mexíkó með íslenska landsliðiðinu. Eflaust hefur einhver flugþreyta setið í Sigurði í kvöld, því oft hefur hann leikið betur. En það er gott að hann skuli vera kominn aftur. Hann er einn af máttarstólpum liðsins. Kristinn Ingi var í stöðu miðherja og var duglegur að vanda, góður í pressunni gegn öftustu varnarmönnum Fjölnis en náði ekki að nýta sér þau færi sem sköpuðust.

Fyrri hálfleikur var sérlega góður að hálfu Valsmanna. Þeir náðu yfirhöndinni á miðjunni. Voru fljótir að pressa á Fjölnismennn og vinna af þeim boltann. Það voru þó Fjölnismenn sem sköpuðu fyrsta alvörufærið þegar Þórir Guðjónsson komst í gegn á 20. mínútu eftir góða stungusendingu en skot hans fór naumlega framhjá. Það voru Valsmenn, samt sem áður, sem stjórnuðu ferðinni í fyrri hálfleiknum. ákveðnin og sigurviljinn leyndi sér ekki.

Sigurmarkið kom undir lok hálfleiksins, á 43. mínútu - markamínútunni!

Bjarni Ólafur sendi úr vörninni vinstra megin langa, hnitmiðaða sendingu upp í hægra hornið, þar tók Arnar Sveinn á knöttinn á bringuna og lagði hann laglega fyrir sig, sendi síðan fastan jarðarbolta fyrir markið, þar var Fjölnismaður aðeins á undan Valsmanni í boltann og sendi hann af öryggi í eigið mark! 0 - 1 og þegar dómarinn flautaði skömmu síðar til leikhlés hafði sú tilfinning hreiðrað um sig í brjósti undirritaðs að Valur myndi ekki láta forystuna af hendi og jafnvel herða enn tökin í seinni hálfleik.

Upphaf seinni hálfleiks líktist þeim fyrri. Valsmenn náðu undirtökunum og virtust líklegir til að auka forystuna. En smám saman fóru að sjást þreytumerki á Valsliðinu. Pressan á andstæðingana slaknaði, þeir voru lengra frá þeim, hægari og hleyptu þeim óþarflega mikið inn í leikinn. Fyrir bragðið náðu Fjölnismenn, þegar líða tók á seinni hálfleik, að sækja meir og skapa sér nokkur álitleg færi. En Anton Ari var öryggið uppmálað og vörnin var þétt fyrir. Ólafur tók til ráðs þegar líða tók á hálfleikinn að hvíla menn og fá inn á fríska fætur í staðinn. Dion Acoff  fór af velli á 65. mínútu og í hans stað, í stöðu hægri uútherja,  kom Sveinn Aron og stóð sig vel. Andri Fannar kom inn í stöðu hægri bakvarðar fyrir Arnar Svein á 68. mínútu og á sama tíma leysti Aron Gauti Sigurð Egil af hólmi á vinstri kantinum.

Valsmenn náðu smátt og smátt vopnum sínum á nýjan leik, tóku yfirhöndina og lönduðu verðskulduðum sigri og þar með Reykjavíkurmeistaratitlinum 2017. Til hamingju, drengir! Valsliðið lítur vel út, það er ágætlega mannað í öllum stöðum. Í kvöld unnu þeir góðan sigur á Fjölni, liðinu sem var einu sæti fyrir ofan þá á síðasta Íslandsmóti. Helsti veikleikinn var sá að eftir að hafa unnið boltann af andstæðingunum var sóknaruppbyggingin full hæg og því gekk frekar illa að opna  vörn andstæðingana og skapa opin færi. Ólafur mun eflaust ráða bót á þessu og þjálfa upp, á æfingasvæðinu, nokkrar "hraðar sóknarfléttur". Fjóra sterka leikmenn, sem ég man í svipinn,vantaði þó í hópinn, fyrirliðann Hauk Pál Sigurðsson, miðherjann Nikolaj Hansen, miðjumanninn Nikolaj Køhlert og útherjann knáa Andra Adolfsson. Þegar þessir bætast í hópinn þá verða nýkrýndir Reykjavíkurmeistarar þess albúnir að taka á móti hvaða andstæðingi  sem er. Næsta verkefni er Lengjubikarinn sem hefst um næstu helgi. ÁFRAM VALUR!