Valur Reykjavíkurmeistari í meistaraflokki kvenna 2017

Valur Reykjavíkurmeistari í meistaraflokki kvenna 2017

 

Fylkir - Valur         1 - 3  (1 - 1)

 

Reykjavíkurmótið í knattspyrnu, úrslitaleikur, Egilshöll. Fimmtudagur 23. febrúar, kl. 20:30

 

 Dómari: Elías Ingi Árnason.     Aðstoðardómarar: Sigursteinn Árni Brynjólfsson og Ottó Sverrisson

 

 Það voru glaðar Valskonur sem lyftu bikar hátt á loft í Egilshöll í kvöld eftir sigur á Fylki í úrslitarimmu Reykjavíkurmótsins. Valskonur áttu á ákveðin hátt harma að hefna því þrátt fyrir að hafa sigrað Fylki nokkuð örugglega í riðlakeppni Reykjavíkurmótsins (4-0) var Fylki dæmdur sigurinn í þeim leik vegna ólögmætis tveggja leikmanna Vals sem skráðar voru í KH.

Valsliðið leit gríðarlega vel út á pappírnum með sex landsliðskonur í byrjunarliðinu og tvær á bekknum. En í knattspyrnu sem og öðru þá er það ekki nóg því leikirnir vinnast ekki á pappírnum heldur með frammistöðunni á vellinum.

 Varla var liðin hálf mínúta af leiknum áður en Fylkiskonur voru komnar yfir. Hrafnhildur Hauksdóttir, vinstri bakvörður, lenti í vandræðum gegn hægri útherja Fylkis sem komst í gegn og gaf góða sendingu inn í vítateig Valskvenna, þar kom hin unga Sæunn Rós úr Fylki aðvífandi og náði föstu skoti í vinstra hornið alls óverjandi fyrir Söndru og Fylkisliðið var komið yfir, 1 - 0.

Þetta var ekki góð byrjun og sló Valsliðið nokkuð út af laginu. En oft er fall fararheill og smám saman náðu Valskonur vopnum sínum og sóttu hart að Fylki. Liðsskipan Vals í fyrri hálfleik var þannig að Sandra stóð í markinu, bakverðir voru Hrafnhildur Hauksdóttir hægra megin og Málfríður Eiríksdóttir vinstra megin í miðvörninni stóðu þær stöllurnar Arna Sif Arngrímsdóttir og Elísa Viðarsdóttir og fyrir framan þær, á miðjunni, Laufey Björnsdóttir og Dóra María Lárusdóttir. Hin unga og bráðefnilega Hlín Eiríksdóttir lék á hægri kanti Margrét Lára Viðarsdóttir var fremst ásamt Elínu Mettu Jensen og Vesna Elísa Smiljkovic var vinstri útherji.

Eftir því sem leið á hálfleikinn náði liðið betri tökum á leiknum. Frískastar í fyrri hálfleik voru systurnar Málfríður og Hlín sem náðu virkilega vel saman á hægri vængnum. Hlín, með hraða sínum og leikni, skapaði mikinn usla og gerði bakverði Fylkis oft lífið leitt. Elín Metta var einnig afar dugleg en uppskar ekki mikið í fyrri hálfleik. Margrét Lára hafði frekar hægt um sig að þessu sinni en sýndi þegar á reyndi hvers megnug hún er. Jöfnunarmark hennar á lokamínútu fyrri hálfleiks og stoðsendingin á Elínu Mettu í upphafi seinni hálfleiks sneru leiknum Val í hag.

Miðverðirnir, Arna Sif og Elísa áttu prýðis leik. Elísa les leikinn vel er oftast vel staðsett og skilar bolta vel frá sér og er sókndjörf þegar færi gefst. Arna Sif er mjög sterk í vörninni og jafnframt stórhættuleg inni í vítateig andstæðinganna í föstum leikatriðum sem best sást í jöfnunarmarki Vals. Dóra María og Laufey voru vinnusamar á miðjunni og höfðu oftast yfirhöndina í baráttunni um miðjuna.

Þrátt fyrir slæma byrjun sýndi Hrafnhildur Hauksdóttir mikinn karakter og spilaði sig ágætlega inn í leikinn þegar leið á fyrri hálfleikinn og þáttur hennar í jöfnunarmarkinu var stór. Einnig stóð Vesna vel fyrir sínu á vinstri kanti og hélt varnarmönnum Fylkis vel við efnið. Sandra gat lítið gert við markinu í upphafi leiks en eftir það var heldur ekkert upp á hana að klaga Hún greip inn í þegar á þurfti en hefur eflaust oft áður þurft að hafa meira fyrir hlutunum. Leikur hennar var óaðfinnanlegur.

Jöfnunarmarkið kom ekki fyrr en á lokamínútu hálfleiksins. Hrafnhildur tók góða hornspyrnu frá hægri. Hár bolti rataði á höfuð Örnu Sifjar sem skallaði af krafti á markið. Markvörðurinn kastaði sér niður í hornið og rétt náði að blaka knettinum frá en knötturinn hafnaði fyrir fótum Margrétar Láru sem var ekkert að tvínóna og hamraði hann í netið, 1 - 1 í hálfleik.

Úlfur Blandon, þjálfari, gerði breytingar í hálfleik sem skiluðu sér strax. Málfríður Anna Sigurðardóttir leysti Laufeyju af velli á miðjunni og  Thelma Björk Einarsdóttir kom inn í stað Hrafnhildar. Thelma tók stöðu vinstri bakvarðar en Hlíf færði sig yfir á hægri vænginn.

Valskonur hófu seinni hálfleikinn af krafti og strax á annarri mínútu náðu þær forystu. Margrét Lára fékk knöttinn á miðjum vallarhelmingi Fylkis gaf laglega sendingu á Elínu Mettu sem var óvölduð vel fyrir utan vítateig Fylki hún sá að markvörðurinn stóð framarlega og lét því óvænt fast skot vaða í boga yfir markvörðinn í netið. Sérlega glæsilegt. 1 - 2!

Elín Metta var mjög atkvæðamikil í seinni hálfleik . Hún hafði skipti við Margréti Láru og spilaði fremst og þurftu Fylkiskonur að hafa sérlega góðar gætur á henni. Þriðja markið kom á 67. mínútu og var einkar fallegt. Hlín Eiríksdóttir fékk sendingu út til hægri frá Málfríði Önnu, lék á vinstri bakvörðinn og gaf fastan jarðarbolta í átt að Margréti Láru í vítateignum . Margrét Lára vissi af Elínu Mettu í enn betra færi fyrir aftan sig og lét hann því fara. Elín Metta þakkaði pent og þrumaði knettinum í hornið, glæsilega gert hjá stúlkunum, öllum fjórum, og staðan orðin 3 - 1 og vissulega farið að lykta af sigri.

Síðustu tuttugu mínúturnar voru að mestu eign Valskvenna. Úlfur gerði nokkrar breytingar. Margrét Lára fór af velli eftir þriðja markið og kom Nína Kolbrún Gylfadóttir í hennar stað og stóð sig vel, undir lok leiksins komu þær Hlíf Hauksdóttir og Eva María Jónsdóttir inn fyrir Dóru Maríu Lárusdóttur og Hlín Eiríksdóttur.

Ekki hafði Elín Metta sagt sitt síðasta orð í leiknum. Á 87. mínútu komst hún af harðfylgi fram hjá varnarmanni Fylkis inni í vítateig Fylkis. Varnarmaðurinn sá sér ekki annað fært en að fella hana og vítaspyrna því dæmd. Elín Metta tók sjálf vítaspyrnuna og átti því kost á að ná þrennu en brást bogalistin og því markvörður Fylkis varði.

 

En þrátt fyrir það þá var Elín Metta stjarna leiksins, síógnandi með hraða sínum og dugnaði og skoraði tvö glæsileg mörk sem tryggðu Valskonum Reykjavíkurmeistaratitilinn 2017. Til hamingju stelpur - þið voruð góðar í kvöld og verðið örugglega enn betri í sumar. Úlfur Blandon, Kristín Ýr og allir sem að liðinu koma þið eruð á réttri leið! Áfram Valur!