Valur - Víkingur Ó. 2 - 1 (1 - 0)

Valur - Víkingur Ó.             2 - 1 ( 1 - 0)                                                              

 

Lengjubikarinn A-deid, 3. riðill. Valsvöllur, sunnudagur 19. mars, kl. 18:15.

 

Dómari: Þorvaldur Árnason.     Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Adolf Þorberg Andersen

 

Hnígandi sól á vesturhimni vermdi vallargesti í Hlíðarendastúkunni meðan hennar naut við fyrri hálfleik. Það má einnig segja að Valsliðið hafi sent hlýja strauma upp í stúkuna í fyrri hálfleik. Liðið tók fljótlega öll völd í leiknum og oft á tíðum brá fyrir skemmtilegum samleik og góðum tilburðum sem sannarlega gefur góð fyrirheit um framhaldið.

Maður var spenntur að sjá Niklas Bogild í sínum fyrsta mótsleik fyrir Val og hvernig hann myndi fylla upp í skarð Kristinn Freys Sigurðssonar . Þeirri spurningu er auðsvarað eftir þennan leik; Niklas Bogild hefur alla burði til að nýtast vel í þeirri stöðu. Hann er góður knattspyrnumaður með næmt auga fyrir samspili og tækifærum í sóknarleik. Hann kórónaði góðan fyrri hálfleik með fallegu marki og á eflaust eftir að láta mikið að sér kveða með meiri leikæfingu.

Breytingar voru gerðar á liðinu  þar sem Orri Sigurður var fjarri góðu gamni að þessu sinni. Haukur Páll fyrirliði lék í stöðu miðvarðar í stað Orra og lék eins og sá er valdið hefur. Lítið fór fyrir Guðmundi Steini, miðherja Víkings í návígjum við Hauk Pál.  Einar Karl Ingvarsson lék inni á miðsvæðinu. Það er gaman að sjá hversu vel Einar Karl hefur verið stöðugur í leikjum sínum í vor. Hann er feikilega duglegur, fastur fyrir og "hreinsar" vel upp á miðjunni. Einar hefur hefur vaxið mjög og er að festa sig æ betur í sessi.

Bjarni Ólafur átti, eins og oftast, ágætisleik og var hvað eftir annað upphafsmaður að liprum samleiksköflum á vinstri vængnum í samspili við Niklas Boghild og Svein Aron sem í fyrri hálfleiknum lék á vinstri vængnum og olli varnarmönnum Víking hvað eftir annað vandræðum með leikni sinni og áræðni.

Valsmenn tóku forystuna á 24. mínútu fyrri hálfleiks með fallegu marki Niklas Bogild. Aðdragandi þess var sá ð eftir þunga sókn Valsmanna hreinsa Víkingar hátt fram á völlinn, Bjarni Ólafur er fyrstur upp í boltann og skallar hann fram fyrir fætur Niklas Bogild. Bogild kom sér á auðan sjá rétt utan vítateigs Víkinga og lagði boltann þaðan með laglegu innanfótarskoti í hægra hornið. Virkilega vel gert!

Valsmenn héldu yfirburðum sínum út hálfleikinn án þess þó að bæta við mörkum. Í seinni hálfleik gerði Ólafur breytingar á liðinu. Arnar Sveinn Geirsson og Sindri Scheving komu inn í upphafi háfleiksins í bakvarðastöðunnar. Arnar Geir í stað Andra Fannars í stöðu hægri bakvarðar og Sindri í stað Bjarna Ólafs í stöðu hægri bakvaarðar. Bjarni Ólafur tók stöðu miðvarðar við hlið Hauks Páls en Rasmus Christiansen og Andri Fannar fóru af velli.

Aðeins dofnaði yfir liðinu í senni hálfleik og um miðjan hálfleikinn skipti Ólafur Guðjóni Pétri út fyrir Sindra Björnsson og þeir Sigurður Egill og Dion Acoff komu í framlínuna í stað Sveins Arons og Kristins Inga. Sindri Björnsson gerði sig strax gildandi á miðjunni  við hlið Einars Karls og það varð fljótt ljóst að með slíka vinnuþjarka sem þá tvo yrði miðjan ekki auðveldlega gefin eftir. Á 82. mínútu fékkk Einar Karl hvíld og Aron Elí Sævarsson kom inn í hans stað og aðeins tveimur mínútum síðar kom annað mark Valsmanna. Sindri Björnsson átti hörkuskot sem markvörður Víkings hálfvarði en Nikolaj Hansen, miðherji Valsmanna, fylgdi vel eftir og kom knettinum í netið framhjá liggjandi markverðinum. 2 - 0!

Það var í hrópandi mótsögn við yfirburði Valsmanna að Víkingar skildu ná að minnka muninn á lokamínútunni og tapa því leiknum með aðeins eins marks mun. En Valsmenn geta dregið ýmsan lærdóm af leik þessum. Danirnir tveir, Niklals og Nikolaj, spiluðu allan leikinn og var það vel, nauðsynlegt að koma þeim sem fyrst í gott leikform.

Fjórði Daninn í leikmannahópi Vals, Nikolaj Beier Køhlert á eftir að leika fyrir félagið. Hann hefur átt við smávægileg meiðsli að stríða en verður vonandi fljótlega leikfær. Sagt er að þrátt fyrir að hann hafi oftast leikið í holunni fyrir aftan miðherjann þá sé hann einnig ágætis efniviður í góðan miðherja. Það verður spennandi að sjá hann og allar líkur eru á að hann muni styrkja góðan hóp framlínumanna vals í sumar. Einar Karl Ingvarsson og Sindri Björnsson hafa leikið einkar vel það sem af er ári og munu, ásamt fyrirliðanum Hauki Páli Sigurðssyni, sjá til þess að í baráttunni á miðjunni munu Valsmennn ekkert gefa eftir í sumar. Áfram Valur!