Valur - ÍA 3 - 1 (1 - 0)

Valur - ÍA                            3- 1 ( 1 - 0)                                                               

 

Lengjubikarinn A-deid, 3. riðill. Valsvöllur, fimmtudagur 19. mars, kl. 18:00.

 

Dómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson.     Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Smári Stefánsson.

 

Nú er einmánuður, síðasti mánuður vetrar og vorið á næsta leiti. Veðurguðirnir minntu svo sannarlega á það þegar leikur Vals og ÍA hófst að Hlíðarenda. Það voru hlýindi í lofti og í seinni hálfleik náði sólin á köflum að sigrast á skýjaslæðu vesturhiminsins og verma þá örfáu áhorfendur er lagt höfðu leið sína að Hlíðarenda.

Þetta var úrslitaleikur um efsta sætið í 3.riðli A-deildar lengjubikarsins en bæði liðin voru ósigruð og höfðu þegar tryggt sér þátttökurétt í átta liða úrslitum. Enn gerði Ólafur breytingar á byrjunarliði sínu, á vörninni, miðjunni og á sóknarlínunni. Gott er að sjá hversu breiddin er orðin mikil, Valur hefur á að skipa stórum hóp úrvalsleikmanna og því er Ólafi eflaust nokkur vandi á höndum að velja ellefu manna byrjunarlið hverju sinni.

Daninn Nikolaj Køhlert lék sinn fyrsta mótsleik á heimavelli og hóf leikinn á miðjunni við hlið Einars Karls  Ingvarssonar. Fyrir aftan þá, í miðvörn, léku Rasmus Christiansen og Haukur Páll , fyrirliði. Arnar Sveinn, hægra megin og Bjarni Ólafur, vinstra megin, voru bakverðir og  Anton Ari stóð í marki. Fremstur á miðjunni, "í holunni" sem kallað er var Daninn Nicolas Bogild, á hægri væng Dion Acoff og Sigurður Egill á vinstri væng. Miðherji byrjunarliðsins var Kristinn Ingi Halldórsson.

Valsmenn náðu snemma undirtökunum í leiknum og léku ljómandi vel lungann af fyrri hálfleik en ekki gekk sem skyldi að nýta yfirburðina til markaskorunar, Skagamenn vörðust vel og í marki þeirra stóð Ingvar Kale átti góðan leik. Það tók hálftíma að brjóta ísinn, þá náði Kristinn Ingi að brjótast hægra megin inn í vítateig Skagamanna  af miklu harðfylgi, komst einn á móti markverði, sá Sigurð Egil, frían, sér á vinstri hlið sendi knöttinn á hann og Sigurður Egill átti ekki í neinum vandræðum að senda hann í netið, 1 - 0!

Eftir markið jafnaðist leikurinn nokkuð, Skagamenn náðu smám saman vopnum sínum án þess þó að veruleg hætta skapaðist við Valsmarkið. Valsmenn höfðu því eins marks forystu í fyrri hálfleik og var það verðskuldað.

Ólafur gerði breytingar á liðinu í hálfleik. Inn komu þeir Andri Fannar Stefánsson og Guðjón Pétur Lýðsson í stað Hauks Páls og Kristins Inga. Skiptingarnar höfðu í för með sér að Bjarni Ólafur færði sig í stöðu miðvarðar við hlið Rasmusar Christiansen og Andri Fannar tók við bakvarðarstöðunni í hans stað. Nicolas Bogild færði sig fram í stöðu miðherja og Guðjón Pétur fór "í holuna".  

Byrjun seinni hálfleiks var ekki líkt því eins góð af hálfu Vals og í þeim fyrri. Skagmenn gengu því á lagið og höfðu í fullu tré við okkar menn lengst af. Í tvígang skall hurð nærri hælum þar sem við máttum þakka fyrir að fá ekki á okkur jöfnunarmark. Ólafur afréð að gera enn frekari breytingar og eftir aðeins stundarfjórðungs leik tók hann Danina Nicolaj Køhlert og Nicolas Bogild af velli og setti Svein Aron Guðjohnsen og Sindra Björnsson inn.

Sveinn Aron fór á hægri kantinn en Dion Acoff í miðherjastöðuna og Sindri inn á miðjuna. Breyttist nú leikur Valsmanna til hins betra. Sveinn Aron var sérlega sprækur á kantinum og lék hvað eftir annað vinstri bakvörð Skagamanna grátt, komst iðulega í gegn og lagði boltann fyrir markið en samherjar náðu ekki að nýta. Annað mark Valsmanna leit dagsins ljós upp úr miðjum seinni hálfleik þegar þeir náðu að brjóta á bak aftur skyndisókn Skagamanna og koma boltanum fram á Svein Aron. Sveinn gaf nákvæma sendingu á hinn eldsnögga Dion Acoff sem stakk af varnarmann, lék fram hjá úthlaupandi markverði leit upp og sá Sigurð Egil í góðu færi í teignum og sendi á hann. Sigurður Egill negldi boltanum í þverslána og inn, sérlega velheppnað skot og staðan orðin 2 - 0.

En Skagamenn voru ekki alveg af baki dottnir og tíu mínútum síðar fengu þeir dæmda vítaspyrnu sem þeir nýttu af miklu öryggi og minnkuðu muninn. Ólafur gerði síðustu breytinguna, Einar karl fór af velli og Aron Elí Sævarsson kom í hans stað á miðjuna. Valsmönnum tókst ágætlega að halda Skagamönnum í skefjum það sem eftir lifði leiks, leikur þeirra fór vaxandi er nær lokunum dró og á lokamínútunni innsiglaði Sigurður Egill sigurinn og þrennuna með góðu marki eftir sendingu frá Dion Acoff.

Lokatölur leiksins urðu 3 - 1 og Valsmenn því öruggir sigurvegarar riðilsins með fullt hús stiga og markatöluna 17 - 7 úr fimm leikjum. Hverja Valsmenn fá í átta liða úrsitum  skýrist eftir leik Breiðbliks og Leiknis Fáskrúðsfirði sem fram fer í Fífunni föstudagskvöld 30. mars. Komist Valur í undanúrslit þarf eflaust að reyna að fá flýtt eða frestað leik þar sem undanúrslit stangast á við æfingaferð meistaraflokks til Florida! ÁFRAM VALUR!