Guðrún Gróa í Val

Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir skrifaði í dag undir tveggja ára samning við körfuknattleiksdeild Vals um að leika með liðinu í Dominos deildinni næstu tvö tímabil.

Guðrún Gróa lék síðast í efstu deild tímabilið 2013 til 2104 en þá varð hún Íslandsmeistari með Snæfelli. Hún skoraði að meðaltali 10,4 stig í leik, tók 7,3 fráköst auk þess að eiga 2,6 stoðsendingar. Hún var erlendis tímabilið 2014-2015 en lék síðan í 1. deildinni með KR tímabilið 2015-2016 þar sem hún lék einmitt undir stjórn Darra Freys Atlasonar sem tók nýverið við liði Vals. Hún skoraði að meðaltali 15,4 stig í leik, tók 13,3 fráköst og átti 2,7 stoðsendingar.

"Ég er virkilega ánægður með að fá tækifæri til þess að vinna aftur með Gróu," segir Darri Freyr Atlason þjálfari Vals og bætir við: "Gróa er frábær leikmaður og enn betri manneskja. Hún bindur saman liðsheildina með smitandi varnarleik, auðmýkt og fórnfýsi og verður mikill styrkur fyrir okkur innan vallar sem utan. Við hjá Val leggjum mikið upp úr því að gera rétta hluti en ekki síður því að gera hlutina rétt. Gróa er fullkomin viðbót við liðsheild sem vinnur eftir þeim skilaboðum."

Á myndinni eru Guðrún Gróa og Darri Freyr nýráðinn þjálfari liðsins.