Körfuknattleikslið Vals í dominosdeildina

Körfuknattleikslið Vals tryggði sér í gær sæti í dominosdeild karla á næsta tímabili með ótrúlegum 109-62 sigri á Hamar frá Hveragerði. 

Það var ljóst að lærisveinar Ágústs Björgvinssonar ætluðu að selja sig dýrt og komu þeir gríðarlega ákveðnir til leiks í fyrsta leikhluta. Hamar fann engar glufur á sterkri vörn heimamanna og Valur skoraði nánast af vild fyrstu 10 mínúturnar. Það fór því svo að Valur leiddi 32-9 eftir fyrsta leikhluta og var sigurinn í raun aldrei í hættu eftir það. 

Valsmenn fögnuðu vel í lok leiks og líklega enginn jafn mikið og þjálfari liðsins Ágúst Björgvinsson: "Tilfinningin er mjög góð, auðvitað skrítið að vera nánast kominn með sigur í hálfleik sem er ólíkt síðasta oddaleik sem við fórum í gegn Breiðablik." Aðspurður hvort það verði miklar breytingar á liðinu fyrir næsta tímabil sagði Gústi:"Ég vona ekki, við héldum nánast sama kjarna frá því í fyrra fyrir þetta tímabil. Við erum með rosalega góða breidd en mögulega þurfum við að styrkja okkur eitthvað."

Framlag Valsmanna í leiknum: Aust­in Magn­us Bracey 33/​6 frá­köst, Ur­ald King 24/​16 frá­köst/​4 var­in skot, Sig­urður Páll Stef­áns­son 9/​4 frá­köst, Birg­ir Björn Pét­urs­son 8/​5 frá­köst, Ingimar Aron Bald­urs­son 8, Ill­ugi Stein­gríms­son 7, Sig­urður Dag­ur Sturlu­son 5/​5 frá­köst, Odd­ur Birn­ir Pét­urs­son 5/​5 stoðsend­ing­ar, Ill­ugi Auðuns­son 4, Snjólf­ur Björns­son 2, Þor­geir Krist­inn Blön­dal 2/​7 frá­köst, Bene­dikt Blön­dal 2/​4 frá­köst/​7 stoðsend­ing­ar.

Valur.is óskar liðinu og öllum sem að því standa hjartanlega til hamingju með árangurinn.

Mynd: karfan.is