Hörður Gunnarsson: "Skora á alla Valsmenn að mæta að Hlíðarenda og styðja vel við bakið á leikmönnum Vals"

Kæru Valsmenn.

Karlalið Vals er áttunda íslenska handknattleiksliðið sem að  komist  hefur í undanúrslit á Evrópumótum félagsliða í handknattleik. Liðin átta koma frá fimm félögum og eru  þrjú þeirra lið okkar Valsmanna. Karlalið Vals, gerði gott betur og lék til úrslita í Evrópkeppni meistaraliða árið 1980.

Valur er til þessa taplaus í þessari keppni og hafa á leið sinni í undanúrslit sigrað lið Haslum frá Noregi, Partizian 1949 frá Svartfjallalandi og HC Sloga frá Serbíu.

Á laugardaginn leikur Valur fyrri undanúrslitaleik keppninnar í Valshöllinni á móti mjög sterku liði Turda frá Rúmeníu og hefst leikurinn klukkan 18:00. Með öflugum stuðningi áhorfenda eru möguleikar Vals á að leika öðru sinni til úrslita í Evrópukeppni, ekki bara fjarlægur draumur heldur raunverulegur möguleiki. Komist Valur í úrslit verður annar úrslitaleikurinn leikinn á Hlíðarenda svo til mikils er að vinna.

Skora á alla Valsmenn að mæta að Hlíðarenda og styðja vel við bakið á leikmönnum Vals því með öflugum stuðningi höldum við áfram að skrifa glæsta sögu félagsins.

Miðaverð er 1.500 krónur en frítt er fyrir iðkenndur Vals og þá sem yngri eru en 16 ár.

Kveðja,  

Hörður Gunnarsson

Formaður handknattleiksdeildar Vals.