Valur - ÍBV 4-0 Pepsi -deild kvenna

Valur - ÍBV    4 - 0    (0 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild kvenna, 2. umferð.  Valsvöllurinn að Hlíðarenda,  miðvikudaginn 3. maí 2017, kl. 18:00.

Aðstæður: Suð-austan stinningsgola, 7 m/sek, hálfskýjað, hitastig 14°c.  Áhorfendur: 207.

Dómari: Arnar Þór Stefánsson. Aðstoðardómarar: Daníel Ingi Þórisson og Breki Sigurðsson.

 

Fyrsti heimaleikurinn í Pepsi-deild kvenna var tilhlökkunarefni. Spá leikmanna og þjálfara í deildinni var á þá lund að Íslandsmeistaratitillinn myndi falla Valskonum í skaut að þessu sinni. Hvort spáin var gerð áður en við misstum landliðskonurnar sterku, þær Elísu Viðarsdóttur og Dóru Maríu Lárusdóttur í meiðsli skal ósagt látið. En þrátt fyrir það mikla áfall er hópurinn allsterkur og til alls líklegur í sumar. Að vísu tapaðist fyrsti leikurinn, á útivelli gegn Þór/KA en gamla orðtakið að fall sé fararheill á vonandi vel við að þessu sinni.

Góður liðsstyrkur barst okkur fyrir tímabilið, miðvörðurinn Málfríður Erna Sigurðardóttir sem sneri aftur heim á Hlíðarenda í nóvemberbyrjun eftir tveggja ára veru í Breiðablik, skömmu fyrir jól kom Hrafnhildur Hauksdóttir, sterkur varnarmaður frá Selfossi og hin stórefnilega Stefanía Ragnarsdóttir, miðvallarleikmaður úr Þrótti, gekk til liðs við okkur í byrjun aprílmánaðar.

Einnig hafa þrír erlendir leikmenn bæst í hópinn. Fyrst skal nefna tvær Kaliforníustúlkur af mexíkóskum uppruna sem gerðu það gott í bandaríska háskólaboltanum á árum áður. Báðar eiga þær leiki með mexíkóska landsliðinu. Þær heita Ansia Guajardo, sóknarleikmaður sem kom í byrjun febrúar frá ástralska liðinu Melbourn City, og Ariana Calderon sem í byrjun apríl. Ariana lék með Mekila í Noregi á síðasta ári og var valin í 23 kvenna landsliðshóp Mexíkó í febrúar sl.

Þriðji leikmaðurinn er ung velsk landsliðskona, Angharad James. Hún er 22 ára gömul og hefur leikið í ensku ofurdeildinni síðan hún var 16 ára lengst af með Bristol City, auk þess á hún 50 landsleiki fyrir Wales þrátt fyrir ungan aldur. Hún var ekki orðin lögleg með Valsliðinu þegar þessi grein var skrifuð en verður líklega orðin lögleg í þriðju umferð.

Úlfur Blandon stillti upp sterku liði gegn Eyjakonum. Sandra Sigurðardóttir stóð í markinu,  Laufey Björnsdóttir og Hrafnhildur Hauksdóttir voru í bakvarðastöðum og þær Málfríður Erna og Arna Sif Ásgrímsdóttir mynduðu miðvarðapar. Öftust á miðjunni lék Ariana Calderon og fyrir framan hana Stefanía Ragnarsdóttir. Anisa Guajardo var á hægri vængnum, Vesna Elisa Smiljkovic á vinstri væng og þær Margrét Lára Viðarsdóttir og Elín Metta Jensen fremstar, Margrét Lára lék í 'holunni' svokallaðri og Elín Metta í stöðu miðframherja.

Valskonur byrjuðu af ákefð og sköpuðu sér færi strax á annarri mínútu. Vörn Eyjakvenna var þétt og markvarslan góð og sóknarleikur Valsmanna í fyrri hálfleik ekki nógu markviss, minnti um margt á fyrri hálfleikinn gegn Þór í fyrstu umferðinni, Ekki hægt að segja að Valur hafi haft einhverja yfirburði í fyrri hálfleik, Eyjakonur áttu sína möguleika en sterk Valsvörnin, drifin áfram af stórleik Örnu Sifjar og markvörslu Söndru, kom í veg fyrir að þeir nýttust.

Seinni hálfleikur var í jafnvægi til að byrja með og um miðbik hálfleiksins fannst undirrituðum að úrslit gætu brugðist til beggja vona. En skömmu seinna, á 70 mínútu kom fyrsta markið, nokkuð óvænt. Vesna vann knöttinn af varnarmanni á vinstri kanti, gaf strax háa sendingu inn í teiginn þar, vörnin var illa á verði og Elín Metta, óvölduð, afgreiddi sendinguna með fallegum skalla í bláhornið hægra megin, 1 - 0! Þetta mark skipti sköpum í leiknum. Það færðist meira öryggi yfir leik Valskvenna og þær náðu ótvírætt yfirhöndinni í leiknum.

Á 71. skipti Úlfur Anisu Guajardo út fyrir Málfríði Önnu Eiríksdóttur. Það bætti sóknar­leikinn til muna. örfáum mínútum seinna, á 74. mínútu, kom annað mark Valskvenna. Fyrirliðinn, Margrét Lára tók hornspyrnu frá vinstri, skaut knettinum upp í vindinn og suð-austan stinningsgolan feykti honum í fjærhornið, 2-0! Virkilega vel gert hjá Margréti Láru.

Á 84. mínútu leit þriðja markið dagsins ljós og var það mark með fallegasta aðdraganda allra markanna. Málfríður Anna lék upp hægri kantinn, sendi nákvæma sendingu upp í hornið á Elínu Mettu sem lék inn í teiginn og fann Margréti Láru í fæturna með góðri sendingu, Margrét Lára sendi knöttinn beint út á Stefaníu Ragnarsdóttur sem komin var í dauðafæri og þessari stórefnilegu stúlku urðu á engin mistök og skoraði af öryggi, 3-0!

Á 87. mínútu kom Hlín Hauksdóttir inn á fyrir Margréti Láru og á lokamínútunni leysti Hli´n Eiríksdóttir Vesnu af hólmi. Lokaorðið í leiknum átti Ariana Calderon þegar hún skallaði hornspyrnu Hrafnhildar Hauksdóttur af stuttu færi í netið, lokatölur leiksins 4-0!

Það er gott að Valskonur eru komnar á blað í mótinu. Baráttan í sumar verður líklega jafnari barátta og með þátttöku fleiri liða í toppbaráttunni en spáð hefur verið. Valsliðið er vel mannað og erlendu leikmennirnir auka breiddina. Ariana er góð knattspyrnukona, það var auðsjáanlegt í þessum leik. Hún leysti stöðuna sem djúpur miðjumaður vel af hendi þó hún hafi lengst af leikið sem framherji.

Hún hefur átt við langvarandi hnémeiðsli að stríða en er vonandi að ná sér. Anisa hefur minni reynslu af efstu deildar knattspyrnu. Eftir háskólaboltann náði hún ekki að festa sig í bandarísku atvinnudeildinni en hefur tvö undanfarin tímabil leikið í Ástralíu. Síðasta keppnistímabil lék hún með Melbourne City í efstu deild en lék aðeins sjö leiki. Angharad James frá Wales er vel sjóuð í ensku ofurdeildinni, var eins og áður sagði lengst af með Bristol City (73 leikir) en skipti yfir til Notts County fyrir síðasta tímabil, lék þar 13 leiki.

Varamannabekkur Vals var sterkur. Systurnar Málfríður Anna og Hlín Eiríksdætur eru ungar að árum en eru vaxandi leikmenn sem hæglega geta gert tilkall til ellefumanna liðs. Sama má segja um Hlíf Hauksdóttur, sem einnig er mjög sterkur leikmaður, og hina tvítugu Nínu Kolbrúnu Gylfadóttur. Pála Marie Einarsdóttir er reynslubolti sem styrkir hvaða vörn sem er og þær Eygló Þorsteinsdóttir, 17 ára á árinu  og Auður Sveinbjörnsdóttir, 15 ára á árinu, eru efnilegir leikmenn sem vissulega eiga framtíðina fyrir sér.

Það er bjart útlitið hjá Valskonum fyrir sumarið. Næst eigum við Blikana í Kópavogi, miðvikudaginn 10. maí. Við hvetjum alla Valsara til að mæta og styðja stelpurnar okkar. ÁFRAM VALUR!