Stórmeistarajafntefli! Valur - FH

Valur - FH     1 - 1    (1 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 3. umferð.  Valsvöllurinn að Hlíðarenda,  mánudaginn 15. maí 2017, kl. 20:00

Aðstæður: Góðar, hitastig 11°c, norðan kaldi, 8-9 m/sek.  Áhorfendur:  1407

Dómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson. Aðstoðardómarar: Birkir Sigurðarson og Gunnar Helgason.

 

Áhorfendur voru mun fleiri en í opnunarleiknum enda sjálfir Íslandsmeistararnir í  heimsókn.  Frammistaða Vals í leikjum vorsins var heldur ekki til að draga úr áhuga á þessum leik. Ný "vallarklukka" var tekin í notkun, ég set gæsalappir utan um orðið "vallarklukka" því í þessu sambandi er það varla nothæft. Nýja "vallarklukkan" er í raun risastór tölvustýrður, grafískur upplýsingaskjár, líkt og sjá má á íþróttavöllum erlendra stórliða.

Risaskjárinn er gjöf Valsmanna hf. til félagsins og kemur í kjölfarið á annarri - enn stærri . Á afmælisdegi Vals, 11. maí sl. afhentu Valsmenn hf. félaginu nýjan, upplýstan gervigrasvöll, fullbúinn til æfinga og keppni. Það er ómetanlegur styrkur fyrir Knattspyrnufélagið Val að eiga slíkan bakhjarl. Allir vita sem að rekstri íþróttafélaga hafa komið hversu erfitt er að halda síkum rekstri gangandi ár eftir ár. Valsmenn hf. hefur reynst gífurlega mikilvægur bakhjarl á undanförnum árum fyrir félagið. Framsýni og dugnaður forystumanna þar á bæ hefur skapað Knattspyrnufélaginu Val grundvöll og umhverfi til að sækja fram á öllum sviðum.

Ólafur tefldi fram sama byrjunarliði og í sigurleiknum gegn Skagamönnum með þeirri undantekningu að í stað Kristins Inga Halldórssonar, sem meiddist í þeim leik, lék nú Nikolaj Hansen í stöðu miðherja. FH-ingar hófu leikinn og sóttu að marki en Valsvörnin var vel á verði og lokaði öllum sóknarleiðum.

Smám saman náðu Valsmenn undirtökunum, þeir unnu oftast baráttuna á miðjunni með fyrirliðann Hauk Pál í fararbroddi og og á hægri vængnum olli hinn eldfljóti Dion Acoff varnarmönnum FH-inga hvað eftir annað miklum vandræðum. Þrátt fyrir að FH- ingar hafi varist vel og átt einstaka sóknir voru yfirburðir Valsmanna úti á vellinum umtalsverðir.

 Á 21. mínútu fengu Valsmenn dauðafæri þegar Sigurður Egill, eftir góða sókn, gaf glæsilega sendingu á Nikolaj Hansen sem var í úrvals færi rétt utan við markteigslínu. Nikolaj brást illa bogalistin í þessu upplagða marktækifæri og Gunnar Nielsen varði ónákvæmt skot hans. Valsmenn létu þetta ekki á sig fá og aðeins mínútu seinna komst Dion Acoff upp að endamörkum hægra megin, gaf góða sendingu fyrir markið en Sigurður Egill náði ekki að setja höfuðið í boltann í upplögðu marktækifæri.

Á 31. mínútu fenguValsmenn aukaspyrnu og hár bolti kom á fjærstöngina, Haukur Páll ætlaði upp í skallann en var haldið niðri af varnarmanni og umsvifalaust dæmd vítaspyrna. Sigurður Egill fór á punktinn og urðu á engin mistök, sendi knötttinn af öryggi í vinstra markhornið og kom Valsmönnum í verðskuldaða forystu, 1 - 0!

Valsmenn voru mun sterkari sem eftir lifði hálfleiksins og á 42. mínútu fékk Nikolaj Hansen annað færi til að skora, fékk háa sendingu inn í markteiginn vinstra megin, tók boltann á bringuna og skaut hörkuskoti á markið- en fram hjá. Valsmenn urðu því að sætta sig við eins marks forystu þegar gengið var til leikhlés en auðveldlega hefði staðan getað verið 2 eða 3-0 miðað við tækifærin í hálfleiknum. En svona er nú fótboltinn. Það er ekkert einfalt þó það líti þannig út frá stúkunni.

Áhangendur Vals voru kátir og reifir í leikhléi en fannst að yfirburðirnir hefðu mátt nýtast betur. Margir töluðu um að tími væri kominn til að gefa hinum unga Sveini Aroni Guðjohnsen tækifæri á að spreyta sig í miðherjastöðunni í seinni hálfleik, í stað Nikolaj Hansen. Sveinn Aron hefði sýnt með ágætri frammistöðu að undanförnu að hann væri traustsins verður.

Seinni hálfleikur þróaðist í byrjun á svipaðan hátt og sá fyrri. Valsmenn voru í við sterkari til að byrja með en veikleikamerki fóru fljótlega að sjást. Arnar Sveinn missti klaufalega boltann í vörninni  á 48. mínútu en FH- ingar náðu ekki að nýta sér möguleikann. Smátt og smátt óx FH-ingum ásmegin og Valsmenn gáfu eftir á miðjusvæðinu. Á 71. mínútu skipti Ólafur Guðjóni Pétri út fyrir Nicolas Bogild. Það breytti ekki gang mála. Nikolaj Bogild fann sig ekki vel og FH var nú komið með yfirhöndina. Aftur urðu Arnari Sveini á mistök og Atli Guðnason komst í færi en Rasmus Christiansen var til varnar og bjargaði.

Skiptingin á 79. mínútu var með öðrum hætti en margir höfðu vonað. Niolaj Hansen hélt áfram leik en Sigurður Egill Lárusson vék af velli fyrir Sveini Aroni Guðjohnsen. Skömmu seinna jöfnuðu FH-ingar. Miðvörður Valsmanna, Rasmus Christiansen, fékk boltann í höndina þegar félagi hans, Orri Sigurður, ætlaði að senda knöttinn út úr vítateig Valsmanna. Vítaspyrna var dæmd og skoraði Steve Lennon af miklu öryyggi úr spyrnunni. Þetta var fyllilega verðskuldað miðað við gang mála í seinni hálfleik

Á 84. mínútu kom síðasta skiptingin, Einar Karl Ingvarsson fór af velli og inn kom Nikolaj Køhlert. Einar Karl átti afbragðsleik. Hann, ásamt Hauki Páli fyrirliða voru máttarstólpar Vals í baráttunni á miðjunni, Einar Karl sýndi ódrepandi baráttuvilja frá byrjun til loka. Leikurinn fjaraði út síðustu mínúturnar og liðin skiptu með sér stigum sem telja má sanngjarnt þegar upp er staðið.

Af öllum sólarmerkjum að dæma verð þessi tvö lið líklegast í toppbaráttu í sumar. Danirnir Nikolaj Hansen og Nikolaj Bogild hafa ekki staðið undir væntingum í upphafi leiktíðarinnar- þar gætu meiðsli og skortur á leikþjálfun haft sitt að segja. Sveinn Aron gæti fengið tækifæri á að máta sig í miðherjastöðunni reynast meiðsli Kristins Inga langvinn. Eins  þarf Sindri Björnsson, ungur framtíðarmaður, líklega ekki að bíða lengi eftir tækifæri í byrjunarliðinu, á miðjunni með Hauki Páli og Einari Karli. Næsti leikur er stórleikur erkifjendanna Vals og KR  hann fer fram á Valsvellinum að Hlíðaernda nk. mánudag kl. 20:00.  ÁFRAM VALUR!