Bikarævintýri á enda

Valur - Stjarnan    1- 2    (1 - 1)

Bikarkeppni KSÍ,  Borgunar-bikarinn, 16-liða úrslit.  Valsvöllurinn að Hlíðarenda,  miðvikudaginn 31. maí 2017, kl. 20:00

Aðstæður: Góðar, hitastig 12°c, suðaustan gola, 5m/sek.  Áhorfendur:  483

Dómari: Gunnar Jarl Jónsson. Aðstoðardómarar: Birkir Sigurðarson og Gylfi Már Sigurðsson

 

Eftir frábæra frammistöðu í Bikarkeppni síðustu ára kom loks að því að Valsmenn urðu að játa sig sigraða. Stjarnan úr Garðabæ, efsta lið úrvalsdeildarinnar lagði Val, bikarmeistara síðustu tveggja ára, að velli á heimavelli þeirra síðarnefndu að Hlíðarenda, 1 - 2.  

Ólafur gerði þrjár breytingar á byrjunarliði Vals frá leiknum gegn Grindavík sl. sunnudag. Nikolaj Køhlert kom inn á miðjuna í stað Einars Karls Ingvarssonar, Nikolaj Hansen leysti Kristinn Inga Halldórsson af hólmi í stöðu miðframherja og Andri Adolfsson fór í stöðu hægri útherja í stað Sveins Arons.

Ekkert virtist benda til þess til að byrja með að Valsmenn myndu eiga í miklum erfiðleikum með Stjörnuna. Þeim gekk vel í byrjun að brjóta á bak aftur sóknartilburði Stjörnumanna og að sama skapi gekk þeim ágætlega halda boltanum og koma sér í færi. Strax á 2. mínútu komst Nikolaj Hansen í gott færi en hörkuskot hans var varið í horn. Valsmenn léku vel fyrstu mínúturnar, Andri var ferskur í fyrri hálfleik á hægri kantinum og liðið hélt boltanum ágætlega innan liðsins, vann nokkrar hornspyrnur, án þess þó að að veruleg hætta skapaðist við Stjörnumarkið.

Á 11. mínútu sóttu Stjörnumenn hart að marki en Valsmenn hrundu áhlaupi þeirra eftir að hafa fengið á sig tvær hættulegar hornspyrnur. Valsmenn brunuðu sjálfir í sókn, Andri gaf góða sendingu á fjarstöngina ætlaða Sigurði Agli en varnarmaður náði að nikka boltanum í horn. Skömmu seinna átti Guðjón Pétur gott skot á markið sem bjargað var í horn.

Valsmenn höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik og héldu boltanum betur áttu urmul af hornspyrnum og hættulegum innköstum á vallarhelmingi Stjörnunnar. Sigurður Egill og Arnar Sveinn nýttu sér óspart góð "handboltagenin" og köstuðu knettinum hvað eftir annað langt inn í vítateig andstæðinganna án þess þó að samherjar þeirra næðu að að gera sér mat úr tækifærunum.

Þrátt fyrir að Valsmenn væru meira með boltann og reyndu að sækja þá vörðust Stjörnumenn vel og náðu sjálfir snörpum sóknum inn á milli. Varnarmenn þeirra og Sveinn Sigurður markvörður reyndust eiga í fullu tré við framherja Vals sem oft hafa verið markvissari. Eitt hættulegasta færi Valsmanna kom á 20. mínútu þegar Sigurðu Egill fékk fallega stungusendingu inn fyrir vörnina, hann gaf góða sendingu á Nikolaj Hansen sem komst í dauðafæri en illu heilli þá hnaut hann um knöttinn og færið rann út í sandinn.

Á 29. mínútu áttu Valsmenn hættulegt færi þegar hár bolti barst inn í vítateig Stjörnumanna. Nikolaj Hansen var á undan markverðinum í boltann og náði að pota í hann en knötturinn sigldi fram hjá auðu markinu. Stjörnumenn sneru nú taflinu við og sóttu af ákefð, skömmu seinna áttu þeir gott skot en Anton Ari náði að slá knöttinn í horn. Upp úr horninu kom fyrra mark Stjörnunnar, Hilmar Árni Halldórsson, besti framlínumaður Stjörnunnar í þessum leik, tók hornið frá hægri, knötturinn rataði á kollinn á Baldri Sigurðssyni fyrirliða sem skallaði hann snyrtilega í vinstra hornið, 0 -1!

Það sem sem eftir lifði hálfleiksins sóttu Valsmenn sem þeir mest máttu að marki Stjörnunnar og í uppbótartíma uppskáru þeir vítaspyrnu eftir að varnarmenn höfðu þjarmað að Nikolaj Hansen inni í vítateig Stjörnunnar. Sigurður Egill fór á punktinn og skoraði af öryggi með föstum jarðarbolta í vinstra hornið, 1 - 1! Skömmu seinna var flautað til hálfleiks og máttu Valsmenn vel við una, því þó að Valur hafi lengst af stjórnað leiknum þá voru sóknir Stjörnunnar bæði snarpar og hættulegar í hálfleiknum.    

Þrátt fyrir að Stjarnan missti tvo sterka menn af velli vegna meiðsla, þá Guðjón Baldvinsson framherja og Eyjólf Héðinsson miðjumann, sýndu þeir engin merki þess að þeir ætluðu að gefa eftir í seinni hálfleik. Þvert á móti, náðu þeir að stýfa Valsliðið enn frekar með vel skipulögðum varnarleik og góðri markvörslu og áfram voru skyndisóknir þeirra beittar.

Þegar stundarfjórðungur var liðinn af seinni hálfleik gerði Ólafur breytingar. Hann setti Einar Karl inn á miðjuna fyrir Nikolaj Køhlert. Tíu mínútum síðar kom sigurmarkið. Hilmar Árni tók hornspyrnu frá hægri, Jóhann Laxdal var fyrstur til að mæta fastri spyrnunni, kom á móti knettinum og skallaði hann laglega á nærstöngina niður í hægra hornið, 1 - 2!

Valsmenn reyndu að jafna metin en allt kom fyrir ekki, góð færi nýttust ekki, sóknarmennirnir voru einfaldlega ekki á skotskónum og erfitt var um vik undir lokin gegn tíu manna varnarlínu Stjörnunnar. Á 83. mínútu kom Sveinn Aron inn á fyrir Nikolaj Hansen og komst næst því að jafna metin þegar hann, í uppbótartíma, skapaði sér gott skotfæri í vítateignum en markvörður stjörnunnar náði að verja skot hans.

Það er ekki hægt annað en að sýna sanngirni og segja að Stjörnumenn hafi verðskuldað þennan sigur. Þeir nýttu færin betur þó færri væru og vörðu fengin hlut af skynsemi. Valsmenn hafa nú tapað tveimur leikjum í röð þrátt fyrir að hafa ráðið ferðinni að mestu leyti í báðum leikjum.

En það er ástæðulaust að örvænta. Hópurinn er stór og sterkur og liðið er vel leikandi. Markvarsla og vörn er góð, aðeins Stjarnan hefur fengið á sig færri mörk. Miðjan er góð Haukur Páll og Einar Karl eru sérlega traustir og Guðjón Pétur hefur farið vaxandi í síðustu leikjum. Útherjarnir eru hraðir og útsjónarsamir. Að vísu er skarð fyrir skildi að Dion sé meiddur en það kemur maður í manns stað.       

Það sem á hefur vantað er nýting færa. Hvað eftir annað hefur miðherjrum liðsins mistekist að nýta dauðafæri. Nú hafa Kristinn Ingi og Nikolaj Hansen fengið nokkur tækifæri í miðherjastöðunni og hafa mörg færin farið forgörðum. Kristinn Ingi hefur yfir miklum hraða að ráða og hugsanlega myndi þetta helsta vopn hans nýtast mun betur út á kantinum þar sem rýmið er meira. Það væri þá hægt að leyfa Sveini Aroni að máta miðherjastöðuna.

Þó ég leyfi mér þessar hugrenningar hér á síðunni þá er ég þess fullviss að Ólafur þjálfari viti manna best hvað er skynsamlegast í stöðunni. Næsti leikur er heima á Hlíðarenda á sunnudaginn gegn ÍBV og hefst hann kl: 17. ÁFRAM VALUR!