Baráttusigur gegn Breiðabliki 1 - 0

Valur - Breiðablik  1 - 0    (0 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 16. umferð. Valsvöllurinn að Hlíðarenda, sunnudaginn 10. september 2017, kl. 19:15

Aðstæður: Sæmilegar, hitastig 8-9°c, norðan strekkingur 10 - 12 m/sek. (í kviðum 15 - 17 m/sek.). Áhorfendur: 932

Dómari: Þóroddur Hjaltalín. Aðstoðardómarar: Frosti Viðar Gunnarsson og Bryngeir Valdimarsson.

Það voru gerðar tvær breytingar á Valsliðinu frá sigurleiknum gegn ÍBV í Eyjum um síðustu helgi. Rasmus Christiansen lék í stöðu vinstri bakvarðar í stað Bjarna Ólafs Eiríkssonar sem tók út leikbann og Andri Adolphsson kom inn í stöðu vinstri útherja í stað Sigurðar Egils Lárussonar.

Leikskipulagið var svipað og í síðustu leikjum, þriggja manna vörn, þrír á miðjunni tveir framherjar og tveir kantmenn. Valsmenn byrjuðu leikinn ágætlega. Þeir voru meira með boltann og uppskáru tvær hornspyrnu á 7. og 9. mínútu.

Það var ekki fyrr en á 12. mínútu sem Blikarnir náðu fyrst að skapa sér  færi en það rann út í sandinn. En Blikarnir efldust eftir því sem á leið og áttu mun léttara með að skapa sér færi í fyrri hálfleik. En Valsvörnin hélt vel og Anton Ari var traustur í markinu.

Þrátt fyrir að ná yfirhöndinni þegar leið á hálfleikinn dugði það ekki Blikunum til að ná forystunni, þeir náðu ekki að klára neitt af færunum sem þeir sköpuðu. Næst komust þeir á 42. mínútu, þá sundurspiluðu þeir Valsvörnina og náðu góðu skoti úr miðjum vítateignum en það fór naumlega fram hjá.

Valsmenn virtust vera skrefinu á eftir Blikunum í öllum sínum aðgerðum undir lok fyrri hálfleiks og máttu prísa sig sæla að vera að vera ekki undir þegar Þóroddur dómari flautaði til leikhlés.

Í senni hálfleik var allt annað uppi á teningnum. Valsmenn mættu ákveðnir til leiks, komu nær andstæðingunum og gáfu þeim mun minna svæði til athafna. Ef frá er talið dauðafæri Blikana á fyrstu mínútu seinni hálfleiks þá virtust Valsmenn hafa góða stjórn á leiknum. Færum Blika fækkaði til muna og smám saman náðu Valsmenn aftur yfirhöndinni.

Á 50. mínútu átti Andri gott skot sem Gunnleifur bjargaði í horn og gaf þetta góðan fyrirboða. Valsmenn sýndu seiglu og þolinmæði í baráttunni en Blikarnir virtust smátt og smátt gefa eftir. Valsmenn gerðu breytingar á liði sínu á 79. mínútu. Arnar Geir kom inn í bakvarðarstöðu og miðframherjinn, Patrick Pedersen fór af velli. Mínútu síðar kom sigurmarkið. Einar Karl Ingvarsson fékk knöttinn rétt utan við vítateig og skaut hörkuskoti á markið, Gunnleifur hálfvarði og hrökk boltinn út í markteiginn þar sem hinn eldsnöggi Kristinn Ingi kom fyrstur á vettvang og lagði knöttinn laglega í netið, 1 - 0!

Undir lok leiksins skipti Ólafur Sindra Björns inn á fyrir Guðjón Pétur. Hann var frískur og styrkti miðjuna og á síðustu mínútu venjulegs leiktíma fór Dion Acoff af velli fyrir Sigurð Egil. Fjórum mínútum var bætt við í uppbótatíma og áttu Valsmenn ekki í neinum erfiðleikum með að innbyrða sigurinn. Þessi sigur einkenndist af góðri baráttu og þolinmæði og veit á gott um framhaldið.

Nú eru aðeins fjórir leikir eftir. Úti gegn KA og Stjörnunni og heima gegn, Fjölni og Víkingi. Fjögur stig nægja Valsmönnum til sigurs í mótinu En hugsum aðeins um einn leik í einu. Næst er það útileikur gegn KA á Akuryeri, fimmtudaginn 26. ágúst kl. 17. ÁFRAM VALUR! Athugasemdir