Lykilmenn og efnilegir framlengja samninga sína

Einar Karl Ingvarsson , Andri Adolphsson og Arnar Sveinn Geirsson hafa skrifað undir nýjan samning við Knattspyrnufélagið Val ásamt þeim Aroni Elí Sævarssyni og Edvard Degi Edvardssyni.

Einar Karl, Andri Adolphs og Arnar Sveinn gengdu stóru hlutverki hjá íslandsmeistaraliði Vals á liðnu tímabili og því ánægjulegt að þeir hafi skuldbundið sig til að vera áfram hjá félaginu og taka þátt í þeim metnaðarfullu verkefnum sem framundan eru.

Einar Karl átti frábært tímabil og var einn allra besti leikmaður deildarinnar og það verður spennandi að fylgjast með honum á næsta tímabili.  Samningurinn er til þriggja ára.

Andri Adolphs átti flott tímabil m.a átti hann stórkostlegan evrópuleik á móti Domzale í Slóveníu og kom gríðarlega sterkur inn í seinni hluta mótsins.  Þess má geta að Andri var að ná sér eftir erfið meiðsli fyrri hluta tímabils.  Samningurinn er til tveggja ára.

Arnar Sveinn átti heilsteypt og gott tímabil og það var frábært að sjá þennan uppalda leikmann koma til baka eftir nokkurra ára fjarveru og landa langþráðum titli með sínu félagi. Samningurinn er til tveggja ára.

Aron Elí var kjörinn efnilegasti leikmaður meistaraflokks 2017 en hann var að láni hjá hinu sigursæla KH liði sem fór upp um deild á liðnu tímabili. Samningurinn er til tveggja ára.

Edvard Dagur Edvardsson var kjörinn besti leikmaður 2.flokks á liðnu tímabili og er jafnframt fyrirliði liðsins.  Það verður gaman að fylgjst með þessum efnilegu drengjum á komandi árum. Samningurinn er til tveggja ára.

Með samningum þessum horfir Valur  björtum augum til framtíðar og ljóst að efniviður er til staðar til að gera enn betur og því táknrænt að þeir félagar hafi notið stuðnings ungra og efnilegra knattspyrnudrengja til að fagna þessum áfanga.