Að sýna hugrekki

Knattspyrnufélagið Valur vill byrja á að hrósa þeim hugrökku íþróttakonum sem nú stíga fram og deila reynslu sinni. Kynferðisleg áreitni, mismunun og hvers kyns ofbeldi er ólíðandi hegðun. Það er mikilvægt að allt samfélagið hlusti á þá sem deilt hafa sögum sínum og axli ábyrgð og sameinist um að breyta menningu og hegðan. Slík mál eru tekin mjög alvarlega hjá Val og eins og kemur fram í siðareglum félagsins er hegðun sem þessi ekki liðin.

Sú vakning sem nú fer fram undir merkjum #metoo hefur sýnt að betur má ef duga skal. Setja þarf vinnu gegn kynbundnu ofbeldi og áreiti í enn frekari forgang. Valur mun þar ekki skorast undan því að taka ábyrgð og vinna í því að uppræta vandamálið. Það er ekki bara mikilvægt fyrir konur heldur íþróttahreyfinguna og samfélagið í heild.

Hjá Knattspyrnufélaginu Val er starfandi siðanefnd sem fer með öll mál sem tengjast áreitni og ofbeldi innan Vals.  Við viljum hvetja alla þá einstaklinga sem hafa orðið fyrir eða telja sig vita um óhegðan að koma því á framfæri til þess aðila sem þið treystið, hvort sem það er þjálfari, formaður deildar, framkvæmdastjóri, íþróttafulltrúi eða formaður félagsins.  Þá er einnig hægt að hafa beint samband við siðanefnd félagsins, til dæmis með því að senda tölvupóst á netfangið sidanefnd@valur.is

Það er skýrt markmið Vals að uppræta alla áreitni, einelti og ofbeldi innan félagsins.  

Tengdir hlekkir: 

- Smelltu hér til að skoða siðareglur Vals

Smelltu hér til að skoða stefnu um eineltismál & samskiptaáætlun Erindis & Vals
Athugasemdir