Glæsileg bikarhelgi að baki, 3. fl. kk og 4. fl. kk eldri bikarmeistarar

Það var mikið um dýrðir í Laugardalshöll sunnudaginn 11. mars þegar bikarúrslitadagur yngri flokka fór fram en þar átti Valur þrjú lið sem kepptu til úrslita. 

4. flokkur kvenna eldri reið á vaðið fyrir Val þar sem þær máttu sætta sig við fimm marka tap gegn HK-ingum í hörku leik. Liðin skiptust á að hafa forystu í fyrri hálfleik en í þeim síðari hafði HK frumkvæðið og náði að landa sigri. Ásdís Þóra Ágústsdóttir var atkvæðamest í liði Vals með 8 mörk. 

4. fl. kv silfur.jpg

4. flokkur karla eldri áttu næsta leik fyrir Val en þær mættu Gróttumönnum í úrslitum. Það er skemmst frá því að segja að Valsmenn unnu öruggan sjö marka sigur þar sem markvörðurinn knái Stefán Pétursson var valinn maður leiksins með 16 varin skot. Markahæstur Valsmanna var svo Andri Finnsson. 

4. fl. kk bikarmeistarar.jpg

Í síðsta leik dagsins mætti 3. flokkur Vals sameiginlegu liði Fjölni og Fylkis þar sem Valur fór með sigur af hólmi 31-25. Leikurinn var jafn framan af en um miðbik síðari hálfleiks settu Valsarar í gírinn og sigu hægt og sígandi fram úr. Valsarinn Arnór Snær Óskarsson var valinn maður leiksins með 13 mörk ásamt því að spila lokamínútur leiksins á annarri hendinni vegna meiðsla. 

3. fl. kk bikarmeistarar II.jpg

Í byrjun helgarinnar varð svo 5. flokkur kvenna Softballmeistari eftir góðan sigur á Haukum í úrslitaleik sem var spilaður í hálfleik á undanúrslitaleik Hauka og KA/Þórs í meistaraflokki kvenna. 

5. kv softball meistarar.jpg

Valur.is óskar iðkendum félagsins innilega til hamingju með árangurinn um helgina sem var stórglæsilegur. Athugasemdir