Sigurmark á síðustu stundu

Valur - KR     2 - 1   (0 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 1. umferð. Origovöllurinn að Hlíðarenda,  föstudaginn 27. aprí 2018, kl. 20:00

Aðstæður: Góðar, hitastig 4°c, norðan kaldi, 8-9 m/sek.  Áhorfendur: 2489

Dómari: Ívar Orri Kristjánsson. Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Andri Vigfússon.

 

Eftirvænting var í loftinu þegar stórlið Vals og KR mættust í opnunarleik Íslandsmótsins að Hlíðarenda. Knattspyrnuáhugafólk fjölmennti, vel á þriðja þúsund manns. Ekki komust allir fyrir í stúkunni og urðu margir að gera sér stæði að góðu.

Heiðursgestur á leiknum var Willum Þór Þórsson, alþingismaður, fyrrum þjálfari beggja liða. Heilsaði hann, ásamt Guðna Bergssyni formanni KSÍ og forsvarsmönnum knattspyrnudeidar Vals, dómurum og leikmönnum áður en leikur hófst.

Ólafur Jóhannsson stillti liði sínu upp að þessu sinni með þriggja manna varnarlínu. Fyrir framan Anton Ara markvörð voru þeir Birkir Már, hægri bakvörður, Eiður Aron, miðvörður og Bjarni Ólafur, vinstri bakvörður. Á miðjunni léku Haukur Páll, fyrirliði og Einar Karl og fyrir framan þá, í holunni, lék Kristinn Freyr. Dion Acoff var á hægri kanti vængnum og Sigurður Egill vinstra megin. Fremstir voru síðan Danirnir Patrick Pedersen og Tobias Thomsen.

Valsmenn byrjuðu leikinn betur og strax á fjórðu mínútu lauk góðri sókn Valsmanna með skoti Hauks Páls sem sigldi yfir mark KR-inga. En KR-ingar komu smátt og smátt inn í leikinn og virtist þriggja manna vörn Vals hætt komin í tvígang.  Valsmenn höfðu þó yfirhöndina og áttu nokkuð auðvelt með að komast upp hægra megin þar sem hinn eldfljóti Dion Acoff réð ríkjum en ekki varð honum mikið ágengt því erfiðlega gekk að senda á samherja í teignum.

Á 9. mínútu rataði samt sending Dions á Patrick Pedersen en KR-ingar náðu að bjarga í horn. Upp úr hornspyrnunni missti markvörður KR knöttinn og tækifæri skapaðist en sóknarmenn Vals voru ekki nægilega vakandi á verðinum og nýttu ekki tækifærið. Valsmönnum gekk illa að brjóta KR-inga á bak aftur, þeir náðu ekki góðum tökum á miðjunni og um miðbik hálfleiksins höfðu vel skipulagðir KR-inga náð ágætum tökum á leiknum.

En þegar um tuttugu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik fóru Valsmenn að bíta frá sér á ný og lögðu allt kapp á að ná forystu fyrir leikhlé. Á 26. mínútu fékk Valur hornspyrnu og upp úr henni átti Sigurður Egill ágætt skot rétt yfir mark KR. Valsmenn sóttu í sig veðrið sem eftir lifði hálfleiksins án þess þó að uppskera mark. Undir lokin átti Sigurður Egill aftur gott skot frá vítateigshorni en það geigaði, fór framhjá markinu. Síðasta orðið í hálfleiknum átti Patrick Pedersen en skot hans var beint á markvörð KR, Beiti Ólafsson.

Strax í upphafi seinni hálfleiks skall hurð nærri hælum þegar KR-ingar sluppu innfyrir Valsvörnina en sókn þeirra rann út í sandinn og Valsmenn sluppu með skrekkinn. KR-ingar komu vel stemmdir inn í seinni hálfleikinn og höfðu í fullu tré við Valsmenn lengst af. En á 69. mínútu snerist stríðsgæfan Valsmönnum í vil. Haukur Páll átti þá frábæra stungusendingu fram á Patrick Pedersen. Patrick lék hratt upp hægra megin, dró til sín varnarmenn og sendi síðan hárnákvæma sendingu á Dion Acoff sem kominn var óvaldaður inn í vítateiginn. Dion Acoff þandi út netmöskvana með föstu skoti og kom Valsmönnum í 1- 0 !

Valsmenn gerðu í kjölfarið skiptingu, Guðjón Pétur Lýðsson kom inn í stað Kristins Freys Sigurjónssonar. Komnir yfir í leiknum, þá náðu Valsmenn góðum tökum á leiknum á ný. Á 77. mínútu átti Patrick Pedersen gott skot í stöng og skömmu seinna skaut Sigurður Egill yfir markið með góðu langskoti. Valsmenn virtust ætla að sigla sigrinum heim af öryggi en KR-ingar voru sannarlega á öðru máli og á 92. mínútu, í fjögurra mínútna uppbótartíma jafnaði Pálmi R Pálmason með góðu skoti af vítateigslínu eftir snarpa sókn.

En Íslandsmeistararnir sýndu svo sannarlega úr hverju þeir eru gerðir, gáfust ekki upp, heldur óðu strax upp í sókn. Einar Karl gaf fastan bolta fyrir markið, þar stakk Tobias Thomsen sér fram fyrir varnarmann og skoraði með föstum lágskalla framhjá Beiti markverði,  2 - 1 og sigur í höfn!

Þetta var ekki ósanngjarn sigur. Valsmenn áttu ívið meira í leiknum, fleiri færi og sýndu í lokin sannan sigurvilja. Leikurinn bar þess merki að mótið er rétt að byrja. Stirðleiki var á köflum í spilinu  og ekki allir leikmenn upp á sitt besta. Þó verður sérsatklega að hrósa Hauki Páli fyrirliða fyrir góðan leik. Þessi ódrepandi dugnaðarforkur er geysilega mikilvægur og vinnur ófá einvígin á miðjunni.

Einar Karl átti einnig mjög góðan leik og hefur vaxið með hverri raun í þessu liði. Vörnin, þeir Birkir, Eiður og Bjarni áttu góðan dag sem og Anton Ari í markinu. Síðast en ekki síst verður að nefna Patrick Pedersen, liprir taktar og næmt auga hans fyrir spilinu gera það að verkum að oft er unun af að fylgjast með leik hans.

Þetta var góður sigur. Það er mikilvægt að fara vel af stað í Íslandsmótinu, gefur byr í seglin. Við erum með sterkan mannskap og góða breidd og full ástæða til að láta sig hlakka til og fjölmenna á Valsvöllinn í sumar. ÁFRAM VALUR!