Ósigur í annarri umferð

Valur - Stjarnan    1 - 3    (0 - 3)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild kvenna, 1. umferð.  Origovöllurinn að Hlíðarenda, þriðjudaginn 8. maí 2018, kl. 19:15.

Aðstæður: Suðvestan gola, 5 m/sek, skýjað, hitastig 5°c.  Áhorfendur: 180.

Dómari: Helgi Mikael Jónasson. Aðstoðardómarar: Egill Guðvarður Guðlaugsson og Ottó Sverrisson.

 

Það var óbreytt lið frá stórsigrinum gegn Selfossi sem hljóp inn á völlinn í toppslaginn við Stjörnuna í annarri umferð Íslandsmótsins. Valskonur hófu leikinn af sjálfstrausti og sóttu mun meira en Stjarnan í byrjun leiks. Á 9. mínútu fékk Hlín Eiríksdóttir ágætis færi hægra megin í vítateig Stjörnunnar, skaut hörkuskoti en góður markvörður Stjörnunnar náði að verja í horn.

Áfram héldu Valsstúlkur að sækja, á 12. mínútu rann efnileg sókn út í sandinn og á 18. mínútu átti Málfríður Erna, fyrirliði, ágæta sendingu fram á Elínu Mettu sem náði góðri sendingu fyrir markið þar var Hlín mætt, reyndi markskot en knötturinn sveif yfir þverslána.

Þvert gegn gangi leiksins var það Stjarnan sem skoraði fyrsta markið. Þær náðu knettinum,  komust í færi og áttu skot á markið, Sandra náði að verja og boltinn hrökk hægra megin út í teiginn, þar var María Eva Eyjólfsdóttir, óvölduð, varnarmaður alltof langt frá henni til að fá rönd við reist og María skoraði af öryggi 0 - 1.

Næstu mínútur voru Valskonur meira með boltann án þess að ná að skapa sér umtalsverð færi. Á 28. mínútu ná Valskonur að setja knöttinn í netið en markið réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Það  hallaði enn undan fæti hjá Valskonum þegar Arianne varð fyrir því ólani að skora sjálfsmark á 39. mínútu í baráttu við sóknarmann Stjörnunnar, 0 - 2.

Nú virtist allt verða Stjörnunni að vopni, á 43. mínútu, markamínútunni, hrekkur boltinn til Katrínar Ásbjörnsdóttur eftir slakan varnarleik Valskvenna. Katrín náði góðu skoti neðarlega í hægra hornið sem Sandra réði ekki við, 0 - 3 var staðan að loknum fyrri hálfleik, ekki eftir gangi leiksins, Valskonur höfðu haft knöttin mun meira í hálfleiknum en það er nú ekki alltaf nóg gegn sterkum liðum, það þarf að skapa góð færi og nýta þau.

Pétur þjálfari gerði breytingar á liðinu í hálfleik. Málfríður Anna og Ásdís Karen hurfu af velli og í þeirra stað komu Pála Marie og Stefanía. Valskonur fengu óskabyrjun í seinni hálfleik þegar Crystal Thomas skoraði af stuttu færi á 46. mínútu, 1 - 3.

Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri að því leyti að Valskonur voru meira með boltann án þess að skapa sér afgerandi færi. Stjörnukonur spiluðu aftarlega, tóku fast á móti og voru vel skipulagðar. Það var ljóst, miðað við Selfossleikinn, að hér var við þungavigt að etja og ekki auðsótt mál að að þessu sinni opna vörn Stjörnukvenna.

Á 74. mínútu varð Thelma Björk, best Valskvenna í leiknum að mati undirritaðs, fyrir höfuðmeiðslum og varð að yfirgefa völlinn. Í hennar stað kom Guðrún Karítas inn á. Síðasta stundarfjórðunginn reyndu Valskonur allt hvað þær gátu til að rétttta hlut sinn en allt kom fyrir ekki. Bæði Teresa og Elín Metta áttu góðar tilraunir á lokamínútunum en ekki vildi knötturinn rata rétta leið. Tíminn rann út og Valskonur urðu að játa sigraðar að þessu sinni.   En það er óþarfi að örvænta í upphafi móts. Þetta var aðeins annar leikur liðsins í Íslandsmótinu, Valur er með gott lið sem á örugglega eftir að gera góða hluti í sumar. Næsti leikur er gegn Grindavík, þriðjudaginn 15 maí og stefna stelpurnar ótrauðar að sigri í þeim leik. ÁFRAM VALUR!