Valur Fylkir 2 - 2 (1 - 0)

Valur - Fylkir     2 - 2   (1 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 3. umferð. Origovöllurinn að Hlíðarenda,  sunnudaginn 13. maí 2018, kl. 20:00

Aðstæður: Góðar, hitastig 10°c, hæg sunnangola, 3 m/sek, örlítil úrkoma.  Áhorfendur: 1123

Dómari: Þóroddur Hjaltalín. Aðstoðardómarar: Frosti Viðar Gunnarsson og Eðvarð Eðvarðsson.

 

Liðskipan Ólafs Davíðs Jóhannessonar var með sama hætti og í upphafsleiknum gegn KR. Patrick Pedersen sem hafði átt við smávægileg meiðsl að etja og var fjarverandi í viðureigninni við Víking í annarri umferð var nú aftur mættur til leiks.

Fyrir framan Anton Ara markvörð lék þriggja manna vörn, þeir Birkir Már, hægri bakvörður, Eiður Aron, miðvörður og Bjarni Ólafur, vinstri bakvörður. Á miðjunni voru Haukur Páll, fyrirliði og Einar Karl og fyrir framan þá, í holunni, lék Kristinn Freyr. Dion Acoff var á hægri kanti vængnum og Sigurður Egill vinstra megin. Fremstir voru síðan Danirnir Patrick Pedersen og Tobias Thomsen.

Valsmenn hófu leikinn ágætlega, héldu boltanum vel innan liðsins og uppskáru hornspyrnu strax á annarri mínútu. Á fjórðu mínútu fengu þeir síðan fyrsta færið. Dion Acoff fékk sendingu út á kantinn, lék inn í teiginn og átti hörkuskot sem var varið. Á sjöttu mínútu á Haukur Páll góða stungusendingu fram á Kristinn Frey sem ekki náði að hemja boltann og færið fór út um þúfur.

En á 10. mínútu urðu varnarmanni Vals á mistök og Fylkismenn komust inn í sendingu, óðu upp völlinn, fengu gott færi en það fór forgörðum. Í kjölfarið gerðu Valsmenn gagnsókn og Dion Acoff var felldur rétt utan vítateigs Fylkismanna, nánast á vítateigslínu. Ekki tókst að nýta hana og á 15. mínútu fengu Fylkismenn aukaspyrnu við vítateig Valsmanna sem fór á sama veg.

Á 20. mínútu sýndu Valsmenn lipra takta í sókn en henni lauk með að Patrick Pedersen var "tekinn í landhelgi" rangstæður. Um miðjan hálfleikinn fengu Valsmenn aukaspyrnu á u.þ.b. 30 m færi, Einar Karl skaut á markið  bylmingsföstu skoti sem markvörðurinn mátti hafa sig allan við að verja.

Að hálfnuðum hálfleiknum, í stöðunni 0 - 0 var ljóst að Valsmönnum hafði ekki tekist nægjanlega vel að opna Fylkisvörnina, það var eins og liðinu skorti áræði, sóknaraðgerðir voru hægar og skiluðu ekki árangri eins og sjá mátti á markatöflunni.

Sessunautur minn kom ágætlega orðum að því þegar hann sagði "að það þarna tækjust á tvö element, annars vegar hræðslan við að tapa og hinsvegar viljinn til vinna". Hættan sé nefnilega sú, að hjá liði sem er á toppnum, hefur unnið allt, þá geti hræðslan við að tapa vegið þyngra á metunum en viljinn til að vinna. Slíkt kunni að leiða af sér of mikla varkárni, að lið hægi á leik sínum, reyni frekar að halda knettinum  en að hætta á hraðar sóknir.

Eftir því sem á leið komust Fylkismenn betur inn í leikinn, urðu smám saman áræðnari og á 26. mínútu fengu þeir fyrstu hornspyrnuna. En á 32. mínútu náðu Valsmenn að brjóta ísinn. Kristinn Freyr tók hornspyrnu frá vinstri, knötturinn kom á fjærstöngina þar sem fyrirliðinn, Haukur Páll, var á réttum stað og skallaði knöttinn af öryggi í hægra hornið, 1 - 0!

Valsmenn áttu vænlega sókn á 36. mínútu en skalli Kristins Freys að marki fór langt framhjá. Mínútu seinna gerðu Fylkismenn harða hríð að marki Vals, boltinn barst að lokum út úr teignum, þar reyndi Fylkismaður skot en það fór yfir markið.

Undir lok hálfleiksins voru Fylkismenn ágengir. Varnarmenn Vals áttu í erfiðleikum á köflum að koma knettinum fram í spil, léku boltanum á milli sín og aftur til markvarðar og oftar en einu sinni skall hurð nærri hælum. Í þrígang misstu þeir knöttinn til mótherja og litlu munaði að framlínumenn Fylkis næðu að refsa þeim. Valsmenn náðu þó að halda fengnum hlut sem eftir lifði hálfleiks og gengu til búningsklefa með eins marks forystu.´

Seinni hálfleikur fór fjörlega af stað hjá Valsmönnum án þess þó að færi skapaðist. Það var ekki fyrr en á 51. mínútu að Valsmenn áttu skot á markið, Einar Karl reyndi þá skot af löngu færi en það fór langt fram hjá. Á 59. mínútu fengu Fykismenn sannkallað dauafæri á að jafna leikinn. Eftir góða sókn eiga þeir hörkuskot á markið, Anton Ari nær að hálfverja, knötturinn hrekkur út til Emils Ásmundssonar sem stóð óvaldaður á hægri markteigshorni en viðstöðulaust skot hans sveif rétt fram hjá markstönginni.

Á næstu mínútum skiptust liðin á að sækja án þessa að skapa verulega hættu. Það var svo á 70. mínútu að Valsmenn náðu að bæta við marki. Laglegum sóknarleik Vals lauk með að Kristinn Freyr lagði knöttinn fyrir fætur Sigurðar Egils sem kom hlaupandi upp vinstri kantinn. Sigurður Egill rakti hann af öryggi inn í vítateig Fylkismanna og sendi hann síðan með fallegu skoti upp í hægra hornið. Glæsilegt mark og staðan orðin 2 - 0 og tuttgu mínútur eftir.

Í kjölfar maksins gerði Ólafur breytingar Patrick Pedersen og Sigurður Egill fóru af velli og í þeirra stað komu þeir Ívar Örn Jónsson og Guðjón Pétur Lýðsson. Ekki tókst Valsmönnum að halda lengi fengnum hlut því aðeins fimm mínútum síðar náðu Fylkismenn að minnka munin þegar Hákon Ingi Jónsson skoraði úr teignum eftir að Anton Ari hafði mitsst frá sér boltann eftir skot Fylkismanna. Svo virtist sem knettinum hefði verið sparkað úr höndum hans en dómarinn gerði engar athugasemdir og markið stóð, 1 - 2.

Valsmenn fengu gullið tækifæri á 80. mínútu þegar Ívar Örn komst upp vinstra megin og gaf fasta sendingu fyrir markið. Dion Acoff, sá eldfljóti útjerji, stóð óvaldaður fyrir miðju marki en var of seinn að átta sig og náði ekki að reka endahnútinn á sóknina. Á 82. mínútu kom síðasta skipting Valsmanna, Kristinn Freyr vék af velli og inná kom miðvörðurinn Rasmus Christiansen.

Fylkismenn, sem allir höfðu færst í aukana eftir að hafa minnkað muninn, náðu svo að jafna á 88. mínútu þega Emil Ásmundsson skaut góðu vinstrifótarskoti á markið af um 20 metra færi. Skotið hafði viðkomu á varnarmanni, breytti örlítið um stefnu og sveif í háum boga yfir Anton Ara og í markið.

Lokamínúturnar virtist sem Fylkir hefði meiri sigurvilja en Valsmenn héldu sínu og urðu liðin að sættast á skiptan hlut að þessu sinni 2 - 2. Það er enginn vafi á að Ólafur Davíð, Sigurbjörn og leikmennirnir munu allir draga lærdóm af þessum leik og mæta Stjörnunni vígreifir á föstudagskvöldið. ÁFRAM VALUR!

 

 

 Athugasemdir