Enn eitt jafnteflið, Valur - Stjarnan 2-2 (1-1)

Valur - Stjarnan   2 - 2   (1 - 1)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 3. umferð. Origovöllurinn að Hlíðarenda,  föstudaginn 18. maí 2018, kl. 19:15

Aðstæður: Góðar, hitastig 6°c, sunnangola, 5 m/sek, skýjað en léttskýjað í seinni hálfleik, þó örlítil úrkoma undir lok leiks.  Áhorfendur: 1017

Dómari: Pétur Guðmndsson. Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Gylfi Tryggvason.

 

Ólafur Davíð Jóhannesson, þjálfari var við sama heygarðshornið í liðsuppstillingu sinni, það er þriggja manna vörn þrír miðjumenn og fjórir frammi. Eina breytingin á byrjunarliðinu var sú að Kristinn Ingi Halldórsson kom inn á hægri kantinn í stað Dions Acoff en Dion á við smávægleg meiðsl að stríða.

Valsmenn náðu ágætum tökum á leiknum í fyrri hálfleik en það vantaði, eins og oft á tíðum, að reka smiðshöggið á sóknarleikinn, runnu því margar góðar sóknir út í sandinn. Strax á 5. mínútu var vænleg sókn í uppsiglingu  en Sigurði Agli tókst ekki að koma boltanum nægjanlega vel fyrir markið og Stjörnumenn hreinsuðu í horn.

Á 7. mínútu áttu Valsmenn glæsilega sókn, Patrick Pedersen sendi nákvæma sendingu á Kristinn Inga sem komst inn í teiginn og náði góðu skoti sem bjargað var í horn. Og enn á 10. mínútu áttu Valsmenn góða sókn, Patrick Pedersen fékk knöttin út á kanti, gaf góða sendingu inn í teiginn á Tobias Thomsen sem ekki tókst að nýta færið.

Aftur á 12. mínútu áttu Valsmenn hörkusókn, Kristinn Ingi óð upp kantinn og samhliða fylgdu Patrick og Tobias inn á miðjunni en Kristni tókst  ekki að gefa knöttinn á þá. Það var svo á 19. mínútu að dró til tíðinda. Þá sköpuðu Valsmenn sér lang hættulegasta færið í leiknum. Sigurður Egill fékk knöttinn út á vinstri kant og sendi frábæra sendingu inn í vítateiginn þar náði Patrick Pedersen skoti sem strauk markstöngina utanverða, Þar sluppu Stjörnumenn sannarlega með skrekkinn.

En skjótt skiptast veður í lofti. Strax í kjölfarið skoruðu Stjörnumenn. Upp úr útsparki Stjörnunnar, sóttu þeir hratt upp hægri kantinn og eftir varnarmistök Valsmanna barst hár bolti fyrir markið, þar sem Halldór Árni kom aðvífandi, óvaldaður,  og skallaði af öryggi í markið, 0 - 1.

Stjörnumenn tvíefldust við þetta óvænta mark og náðu ágætum tökum á leiknum næstu mínúturnar. En Valsmenn vörðust vel og á 29. mínútu sótti Birkir Már hratt upp hægri kantinn, átti góða sendingu inn í teiginn á Tobias Thomsen en skot hans fór hárfínt framhjá. Á 32. mínútu komst Patricrick Pedersen inn í sendingu Stjörnumanna, lék upp að endamörkum en náði ekki að senda knöttinn inn í teiginn.

Það sem eftir lifði hálfleiks skiptust liðin á að sækja. Stjörnumenn áttu hörkufæri á lokamínútum fyrri hálfleiks. Valsmenn svöruðu og á síðustu mínútu uppbótartíma fengu þeir vítaspyrnu þega Tobías féll í vítateig Stjörnunnar. Patrick Pedersen fór á punktinn og skoraði af öryggi, 1 - 1!

Valsmenn hófu seinni hálfleik fjörlega og settu þó nokkra pressu á Stjörnuna, án þess þó að skapa nein færi. Það var fyrst á 56. mínútu sem fyrsta alvöru færið í seinni hálfleik kom og það var Stjarnan sem átti það, góð sending kom inn í vítateig Valsmanna en sveif rétt framhjá tveimur fríum sóknarmönnum Stjörnunnar.

Og enn lét Stjarnan til sín taka, Baldur Sigurðsson átti hörkuskalla rétt yfir Valsmarkið á 61. mínútu eftir sendingu frá hægri. Á 63. mínútu verða Bjarna Ólafi á mistök og sóknarmaður komst inn í sendingu, skapaði sér gott færi en náði ekki að nýta það. Aðeins mínútu seinna, á 64. mínútu tók Stjarnan forystuna.

Hilmar Árni Halldórsson, hættulegasti sóknarmaður Stjörnunnar, hristi af sér Birki Má, hægri bakvörð, út við hliðarlínu, lék upp að endamörkum og gaf góða sendingu inn í teiginn, beint á kollinn á Baldri Sigurðssyni sem skallaði knöttinn af krafti í netið og kom Stjörnunni í 2 - 1, ekki óverðskuldað miðað við gang seinni hálfleiks.

Á 65. mínútu gerði Ólafur breytingu á liði sínu. Guðjón Pétur kom inn á fyrir Kristin Frey og var honum fagnað vel af stuðningsmönnum Vals í stúkunni.

Stjarna sótti mun meira næstu mínútur og voru Valsmenn hætt komnir á 74. mínútu eftir skarpa sókn Stjörnunnar. Það kom því óvænt jöfnunarmarkið á 77. mínútu. Hár bolti kom inn í vítateig Stjörnunnar, Haukur Páll virðist ætla að ná honum en Haraldur markvörður kom að og seildist í knöttinn, skrikaði fótur og datt á Hauk en knötturinn hrökk út til Sigurðar Egils. Sigurður lagði knöttinn fyrir sig og sendi hann með góðu skoti í hægra hornið, 2 -2!

Síðustu mínúturnar færðist fjör í leikinn, bæði liðin reyndu hvað þau gátu til að knýja fram sigur en urðu að lokum að sættast á skiptan hlut. Þriðja jafnteflið í röð hjá Valsmönnum í mótinu. Þessi byrjun veldur Valsmönnum og áhangendum þeirra vissulega vonbrigðum.

Leikkerfi þriggja manna varnar og fjögurra framherja hefur ekki skilað þeim árangri sem ætla mætti. Miðframherjarnir tveir hafa ekki náð nógu vel saman enn sem komið er og þriggja manna vörnin hefur sýnt veikleikamerki.

Kannski er ráðið að hverfa aftur í 4 - 3 - 3 sem skilaði mörgum góðum sigrum á síðasta ári? En það eru 18 leikir eftir og þeir Ólafur Davíð, þjálfari og aðstoðarmenn hans eiga eflaust eftir að finna góðar lausnir. ÁFRAM VALUR!Athugasemdir