Líf og fjör í fyrstu viku sumarstarfsins - Skráning í viku 2-6 í fullum gangi

Það er heldur betur búið að vera líf og fjör í sumarstarfi Vals þessa vikuna en rúmlega 80 iðkendur gæða Hlíðarenda lífi í starfinu sem líkt og undanfarin ár er fjölbreytt og skemmtilegt.

 

Sumarbúðir í borg byrjuðu vikuna á skemmtiferðum í bæði Öskjuhlíð og Hljómskálagarðinn þar sem farið var í leiki og nesti borðað undir berum himni. Á miðvikudeginum var farið í heimsókn á sjóminjasafnið þar sem varðskipið Óðinn var skoðað. Eftir hádegi á fimmtudag var farið í sundferð og vikunni slúttað með pylsupartí í Valsheimilinu. Dóra Sif stjórnandi sumarbúða: "Frábær vika að baki - krakkarnir eru fullir af orku og okkur hlakkar til næstu viku sem verður ekki síðri. Þá förum við og heimsækjum Hallgrímskirkju, kíkjum í fjölskyldu og húsdýragarðinn ásamt því að fara í sund svo eitthvað sé nefnt "

 

Í kringum 50 krakkar hafa tekið þátt í sannkallaðri HM-viku í knattspyrnuskóla Vals undir styrkri stjórn Arons Elí Sævarssonar. Góðir gestir hafa kíkt í heimsókn í skólann og ber þar að nefna Elísu Viðarsdóttur landsliðskonu sem ræddi við krakkana um landsliðið og leik stelpnanna við Slóveníu s.l. mánudag. Guðjón Pétur Lýðsson og Rasmus Christianssen kíktu einnig í heimsókn og var hápunktur vikurnar núna í morgun þar sem Litla HM-mótið að Hlíðarenda var haldið. Sigurvegarar HM-Hlíðarenda voru Belgar en máttu Íslendingar sætta sig við þriðja sætið. Krakkarnir mættu í landsliðsbúningum frá hinum ýmsu þjóðum og var íslenski búningurinn lang vinsælastur. HM-þemað heldur áfram í næstu viku og hlakkar okkur mikið til segir Aron Elí:"Krakkarnir hafa verið frábærir alla þessa viku og algjör forréttindi að fá að stýra þessum skemmtilega hóp. Krakkarnir eru mjög metnaðarfullir en það skín úr augum þeirra hvað þeim finnst þetta skemmtilegt, það skiptir mestu máli"

 

Tæplega 20 börn á aldrinum 6-10 ára tóku þátt  í körfuboltaskóla Vals sem hefur farið vel af stað. Einungis tvær vikur eru eftir af körfuboltaskólanum og hvetjum við foreldra til að ganga frá skráningu tímanlega. Friðrik Þjálfi  skólastjóri er ánæður með fyrstu vikuna og hafa krakkarnir staðið sig frábærlega. "Ég var ánægður að sjá hversu margir lögðu leið sína til okkar, ekki bara Valsarar heldur einnig krakkar úr öðrum félögum. Við höldum áfram að vinna með grunnæfingar körfuboltans í bland við skemmtilega leiki".

 

Um leið og við þökkum fyrir frábæra viku minnum við á að skráning á námskeið 2 - 6 eru í fullum gangi inn á skráningarsíðu félagsins - Hlökkum til að taka á móti krökkunum í næstu viku.