Valsmenn á beinu brautinni, Valur - FH 2 - 1 (2-1)

Valur - FH   2 - 1   (2 - 1)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 10. umferð. Origovöllurinn að Hlíðarenda,  miðvikudaginn 20. júní 2018, kl. 20:00

Aðstæður: Góðar, hitastig 10°c, hæg vestanátt, 3 m/sek, heiðskírt. Áhorfendur: 1303

Dómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson. Aðstoðardómarar: Gylfi Már Sigurðsson og Oddur Helgi Guðmundsson

 

Valsmenn unnu góðan sigur á FH-ingum á heimavelli sínum að Hlíðarenda í 10. umferð Íslandsmótsins. Með sigrinum komu þeir sér vel fyrir í efsta sæti deildarinnar þegar einum leik er ólokið í fyrri hluta mótsins.

Valsmenn hófu leikinn af krafti, mættu FH-ingum framarlega, unnu flest návígin og gekk mun betur að byggja upp sóknarlotur. Á 6. mínútu skaut Sigurður Egill föstu skoti að marki en vel yfir og skömmu síðar komst Andri Adolfsson í gott skotfæti á vítateig FH-inga eftir góða sókn en skot hans fór forgörðum.

Tveimur mínútum síðar sendi Ívar Örn Jónsson, vinstri bakvörður, sérlega fallega fjörutíu metra skásendingu yfir á vallarhelming FH-inga. Arnar Sveinn Geirsson náði knettinum, lék upp að endamörkum og gaf fastan bolta fyrir markið. Einhvern veginn náði knötturinn að sigla ósnertur milli manna og út fyrir hliðarlínu þar sem FH-ingar fengu innkast.

Valsmenn voru mun frískari fyrsta stundarfjórðunginn án þess að ná að skora en á 18. mínútu uppskáru þeir loksins mark eftir all þunga sókn. Upp úr innkasti vinstra megin barst knötturinn til Hauks Páls sem skallaði hann aftur fyrir sig inn í markteiginn. Þar var Patrick Pedersen á undan Gunnari markverði að ná til boltans og skallaði hann í netið, 1 - 0!

Valsmenn fylgdu þessu vel eftir. á 20 mínútu komst Andri Adolphsson upp að endmörkum og gaf góðan bolta fyrir en FH-ingar björguðu í horn. Á 22. mínútu fengu Valsmenn aðra hornspyrnu en FH-inga bægðu hættunni frá. FH-ingar reyndu nú hvað þeir gátu til að skapa sér færi en Valsmenn vörðust vel.

Á 32. mínútu ná FH-ingar að jafna eftir fallega sókn, raunar fyrsta almennilega færi þeirra í leiknum. Eftir fallegt þríhyrningsspil komst Steven Lennon á auðan sjó og skoraði með góðu skoti í hægra hornið fram hjá Antoni Ara.

Valsmenn tvíefldust við að fá á sig jöfnunarmarkið og gerðu harða hríð að marki FH-inga. Ívar Örn átti góða sendingu inn í teiginn á Parick á 34. mínútu sem var naumlega dæmdur rangstæður. Valsmenn héldu áfram og á 39. mínútu kom annað markið.

Sigurður Egill fékk knöttinn á hægri kanti, lék inn að vítateignum og gaf út í vinstra hornið á Andra Adolphsson. Andri lék inn í teiginn og lagði knöttinn snyrtilega fyrir fætur Einars Karls Ingvarssonar sem afgreiddi hann með öruggu innanfótarskoti í netið, sérlega vel að verki staðið, 2 - 1! Það sem eftir lifði hálfleiksins höfu Valsmenn yfirhöndina án þess þó að ná að bæta við mörkum.

FH-ingar hófu seinni hálfleikinn af krafti og freistuðu þess að jafna metin en Valsmenn gáfu fá færi á sér og smám saman náðu Valsmenn yfirhöndinni á nýjan leik.

Um miðbik seinni hálfleiks fengu Valsmenn færi á að gera út um leikinn. Patrick Pedersen gaf gullfallega stungusendingu fram á Kristin Frey sem virtist eiga létt með að leika fram hjá Gunnari Nielsen markverði og renna knettinum í netið. En eitthvað flæktist þetta fyrir Kristni, hann kom sér ekki í góða skotstöðu og gott færi rann út í sandinn.

Valsmenn höfðu undirtökin og reyndu að láta kné fylgja kviði þegar Ólafur, á 71. mínútu, skipti varnartengiliðnum Einari Karli út fyrir sóknartengiliðinn Guðjón Pétur Lýðsson.

En FH-ingar fengu upplagt færi á 75.mínútu en Anton Ari sá við þeim og varði meistaralega í tvígang marktilraunir þeirra, fyrst fast skot frá Atla Guðnasyni og í kjölfarið skot frá Hirti Loga Valgarðssyni sem náð hafði frákastinu af skoti Atla.

Síðasta stundarfjórðunginn má segja að Valsmenn hafi verið í bístjórasætinu, þeir stýrðu sigrinum heim af festu. Vörnin var örugg og allur leikur þeirra yfirvegaður. Tobias Thomsen kom inn á fyrir Patrick Pedesen á 75. mínútu og Sindri Björnsson leysti Kristinn Frey af hólmi á 86. mínútu.

Þetta var stórskemmtilegur leikur tveggja sterkra liða, hraður og fjörugur, þar sem Valsmenn fóru með sanngjarnan sigur af hólmi, fimmti sigur Vals í röð á Íslandsmótinu. Vörnin og markvarslan var til fyrirmyndar. Bjarni Ólafur finnur sig vel í miðvarðarstöunni, Ívar Örn hefur komið sterkur inn í stöðu vinstri bakvarðar og hægra megin vex Arnar Sveinn með hverri raun.

Fyrir framan vörnina stóð Haukur Páll sterkur með Einar Karl sívinnandi sér við hlið og kæfðu þeir félagar í fæðingu margar tilraunir FH-inga á miðjunni. Andri var sérlega sprækur á kantinum og sóknarleikur Vals var á köflum skeinuhættur, áttu FH-ingar lengst af fullt í fangi með að að verjast í leiknum.

Framundan er síðasti leikur fyrri umferðar gegn Keflavík sem fram fer 1. júlí n.k. í Reykjanesbæ. Nái Valsmenn sigri í þeim leik verða þeir á svipuðum stað í stigasöfnuninni og þeir voru eftir fyrri umferðina síðasta sumar. Það yrði góður áfangi. ÁFRAM VALUR!