Finnur Freyr til Vals

Finnur Freyr Stefánsson, fyrrum þjálfari Íslandsmeistara KR og aðstoðar landsliðþjálfari karla, hefur verið ráðinn sem þjálfari á barna- og unglingasviði Vals. Hann mun taka við þjálfun drengjaflokks félagsins. Finnur Freyr á langan og farsælan feril sem þjálfari þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur þjálfað alla flokka hjá KR á þeim tíma sem hann var þar. Síðustu fimm tímabil þjálfaði Finnur Freyr meistaraflokk karla og vann Íslandsmeistaratitilinn öll árin auk þess að leiða lið KR til tveggja bikarmeistaratitla árin 2016 og 2017og fjögurra deildarmeistaratitla.

 

Finnur kemur eins og áður sagði til með að þjálfa drengjaflokk Vals en honum til aðstoðar verður Þorgrímur Guðni Björnsson aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla. Drengjaflokk Vals gekk vel á síðustu leiktíð en liðið tapaði naumlega fyrir Íslandsmeisturum Hauka í úrslitakeppninni í vor. 10. flokkurinn, sem skipar í dag yngra ár í drengjaflokki, vann Scania Cup í vor en það er óopinbert norðurlandamót félagsliða. Finnur Freyr tekur við af Ágúst Björgvinssyni sem hefur þjálfað hópinn sl. fimm ár. Ágúst mun halda áfram þjálfun meistaraflokks félagsins ásamt því að þjálfa minnibolta drengja og vera yfirþjálfari yngriflokka félagsins.

 

Töluverður uppgangur hefur verið í körfuboltanum á Hlíðarenda sl. misseri. Kvennalið félagsins fór alla leið í lokaúrslit í fyrsta skipti nú í vor og karlaliðið hefur verið á mikilli uppleið og eru bundnar nokkrar vonir við það. Iðkendum hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár og eru rúmlega 200 í dag. Lögð hefur verið áhersla á að ráða góða þjálfara til liðs við félagið og þannig bættist Pálmar Ragnarsson við þjálfarahópinn sl. haust en hann þjálfar yngstu iðkendurna. Ásamt Finni Frey eru þeir Sævaldur Bjarnason og David Patchell að koma aftur til félagsins. Þeir tveir eru með yfir 20 ára reynslu í þjálfun og kennslu. Þeir bætast í hóp öflugra þjálfara sem hafa starfað fyrir deildina undanfarin ár.