Góður sigur á Grindvíkingum, 4 - 0 (2 - 0)

Valur - Grindavík   4 - 0   (2 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 16. umferð. Origovöllurinn að Hlíðarenda,  sunnudaginn 14. ágúst 2018, kl. 19:15

Aðstæður: Góðar, hitastig 13°c, hæg suð-austanátt, 2 m/sek, skýjað. Áhorfendur: 853

Dómari: Vilhjálmur Alvar Þóarinsson. Aðstoðardómarar: Gylfi Már Sigurðsson og Birkir Sigurðarson.

 

Þrátt fyrir þétta dagskrá þessar vikurnar, vegna þátttöku í Evrópudeildinni, voru Valsmenn frískir að sjá í leiknum gegn Grindavík. Þeir voru ágengir strax frá byrjun og gáfu Grindvíkingum ekki ýkja mörg færi á sér. Haukur Páll, fyrirliði, gaf tóninn strax í byrjun þegar hann reyndi markskot úr upphafsspyrnu leiksins, sá að markvörðurinn stóð framarlega, skaut háum bolta í átt að marki en knötturinn sigldi fram hjá.

Undirritaður hefur þó einu sinni séð skorað upp úr upphafsspyrnu. Það gerði Albert heitinn Guðmundsson í leik með ÍBH á gamla Melavellinum (sennilega verið 1957 eða ´58), "kontraði" knöttinn frá miðjuhringnum í samskeytin!

Það er kostur að breiddin skuli vera svona mikil í liðinu, nú þegar leikið er svo þétt sem raun ber vitni. Að þessu sinni stillti Ólafur upp fjögurra manna varnarlínu með, Birki, Sebastian, Eiði og Ívari. Haukur Páll og Einar Karl voru fyrir framan vörnina og fór Kristinn Freyr fremstur miðjumanna. Kristinn Ingi á hægri kanti, Patrick miðframherji og Sigurður Egill á vinstri væng.

Frískleg byrjun Valsmanna gaf góð fyrirheit og áttu Grindvíkingar í megnustu vandræðum með sókndjarfa Valsmenn. Strax á þriðju mínútu fékk Kristinn Freyr knöttinn í ágætu færi en skot hans fór yfir markið. En á 6. mínútu fengu Grindvíkingar færi á silfurfati þegar misheppnuð sending Eiðs út úr vítateignum rataði til mótherja. Grindvíkingar komust í gott skotfæri, skotið breytti stefnu af varnarmanni en Anton gerði vel og varði.

Á 10. mínútu lauk góðri sókn Valsmanna með skoti frá Einari Karli sem markvörður náði að verja. Á 12. mínútu átti Ívar Örn gullfallega þversendingu yfir á hægri kant þar sem Einar Karl var frír. Valsmenn náðu góðri sókn en varnarmönnum Grindavíkur tókst að bægja hættunni frá.

Valsmenn höfðu umtalsveða yfirbuði í fyrri hálfleik og fengu mýgrút tækifæra en náðu þó ekki að nýta nema tvö þeirra. Fyrra markið í hálfleiknum kom á 16. mínútu, glæsilegt mark. Einar Karl átti langa sendingu fram á Kristinn Frey sem skallaði fyrir fætur Patrick Pedersen í vítateignum og Patrick lagði knöttinn laglega fram hjá markverðinum. 1 - 0!

Næstu mínúturnar voru stórkostlega vel leiknar af hálfu Valsmanna. Þeir gjörsamlega yfirspiluðu andstæðinganna með hröðum sóknarleik og voru sífellt ógnandi við vítateig Grindvíkinga. Grindvíkingar vörðust vel á þessum kafla og smátt og smátt náðu þeir ágætis tökum á leiknum og náðu að byggja upp nokkrar vænlegar sóknir sem þeir náðu þó ekki að nýta, næst komust þeir þegar knötturinn hafnaði í þverslá Valsmarksins eftir hornspyrnu á 27. mínútu.

 

Síðasta stundarfjórðunginn náðu Valsmenn undirtökunum á nýjan leik, Einar Karl átti gott skot á 30. mínútu sem endaði í horni og Valsmenn voru farnir að sækja aftur. Kristinn Ingi lagði upp afbragðsfæri fyrir Patrick á 32. mínútu en Patrick hitti boltann illa og fór færið út um þúfur. En tveimur mínútum seinna bætti Patrick fyrir það með fallegasta marki leiksins.

Birkir Már gaf fastan bolta upp hægri vænginn sem virtist ætla að sigla yfir endamörkin en Kristinn Ingi er eldfljótur og náði, af harðfylgi, að renna sér fyir knöttinn og sópa honum frá endalínunni og út í teiginn. Þar stóð Patrick óvaldaður, lagði knöttinn fyrir vinstri fótinn og smellti honum upp í vinkilinn. 2 - 0!

Valsmenn reyndu að láta kné fylgja kviði. Ívar Örn var nærri lagi, átti hörkuskot eftir góða sendingu Patricks sem fór naumlega fram hjá og sömuleiðis átti Einar Karl ágætis tilraun sem markvörður náði að verja, allt kom fyrir ekki og 2 - 0 var staðan þegar menn gengu til leikhlés.

Fyrsta stundarfjórðungin í seinni hálfleik gerðu Grindvíkingar heiðarlega tilraun til að koma sér inn í leikinn, sköpuðu sér ágæt færi en náðu ekki að nýta þau. Það fyrra upp úr hornspyrnu á 56. mínútu og síðan dauðafæri á 59. mínútu þegar Aron Jóhannsson komst einn inn fyrir en Anton varði meistaralega skot hans.

Þetta reyndist Grindvíkingum dýrt, því eftir þetta komust Valsmenn aftur inn í leikinn og gerðu harða hríð að marki Grindvíkinga. Rothöggið kom á 66. mínútu. Einar Karl átti langa sendingu fram miðjuna á kollinn á Hauki Páli sem nikkaði boltanum laglega aftur fyrir sig inn í teiginn, þar tók Patrick hann niður og fullkomnaði þrennuna af öryggi.

Í kjölfarið fór Patrick af velli og kom Tobias Thomsen inn á í hans stað, Ólafur þjálfari hefur örugglega verið með með Evrópuleikinn á fimmtudag í huga og ákveðið að hvíla Patrick. Sama má segja um skiptingu Kristins Freys skömmu seinna, kom Ólafur Karl Finsen í hans stað. Síðasta skiptingin kom á 86. mínútu, þegar Haukur Páll fékk hvíldina og Andri Fannar kom inná.

En Valsmenn voru ekki orðnir alveg saddir, langaði að laga markatöluna á stigatöflunni enn frekar. Og það heppnaðist fyrir harðfylgi Kristins Inga. Hann  krækti í vítaspyrnu í uppbótartíma, þegar hann var felldur út við endalínu í vítateig Grindvíkinga. Tobias tók vítið,  markvörðurinn varði en hélt ekki boltanum. Kristinn Ingi var fyrstur að frákastinu og sendi knöttinn með föstu skoti upp í þaknetið, 4 - 0!

Þetta var frábær sigur og síst of stór. Grindvíkingar hafa löngum reynst okkur þungir í skauti en að þessu sinni reyndust Íslandsmeistararnir of stór biti fyrir þá. Á fimmtudaginn er erfiður Evrópuleikur gegn Sheriff frá Moldovu og í kjölfarið leikur um toppsætið við Breiðablik. Það er gott að vita til þess að hópurinn okkar er stór og allir tilbúnir að gera sitt besta. ÁFRAM VALUR!