Valur Íslandsmeistari 2018, Valur - Keflavík 4 - 1 (3 - 0)

Valur - Keflavík  4 - 1  (3 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 22. umferð. Origovöllurinn að Hlíðarenda,  laugardaginn 29. september 2018, kl. 14:00

Aðstæður: Góðar, hitastig 7°c, norðvestan gola 4 m/sek., léttskýjað. Áhorfendur: 1628

Dómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson. Aðstoðardómarar: Birkir Sigurðarson og Gylfi Tryggvason

 

Valsmenn eru Íslandsmeistarar annað árið í röð!

Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson hafa nú afrekað, annað árið í röð, að stýra meistaraflokksliði Vals að sjálfum Íslandsmeistaratitlinum. Það er rúmlega hálf öld síðan Valur vann tvö ár í röð. Árin 1966 og 1967 urðu Valsmenn Íslandsmeistarar undir stjórn Óla B. Jónssonar.

Þetta er 22. Íslandsmeistaratitill Vals í meistaraflokki karla. Helmingur þessara titla hafa unnist í minni tíð (sá fyrsti, 12. titillinn, 1956). Liðið var næstum óbreytt frá síðustu leikjum. Eina breytingin sem gerð var frá leiknum gegn FH, í næstsíðustu umferð var sú að Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði, kom inn aftur í stað Guðjóns Péturs Lýðssonar.

Ef einhverjir í áhorfendastúkunni voru í vafa um að Valsliðið myndi sýna sínar bestu hliðar í síðasta leiknum, að spennustigið gæti hugsanlega komið í veg fyrir að þeir sýndu sitt rétta andlit, sannfærðust strax og flautað var til leiks að allar slíkar hugleiðingar voru ástæðulausar. Valsliðið byrjaði leikinn glimrandi vel, voru yfirvegaðir og náðu strax stjórn á leiknum, létu knöttinn ganga örugglega á milli manna og reyndu strax frá fyrstu mínútu að finna leiðir að marki Keflvíkinga.

Á annrri mínútu komst Dion Acoff upp vinstra megin, sendi knöttinn inn á Patrick Pedersen sem lét hann ganga áfram á Kristinn Frey en skot Kristins fór framhjá markinu. Valsmenn höfðu völdin á vallarmiðjunni og ekki þurfti lengi að bíða eftir fyrsta markinu.

Á 8. mínútu fléttaði Bjarni Ólafur sig með skemmtilegu þríhyrningsspili í gegn um vörn Keflvíkinga, vinstra megin og lagði boltann út í teiginn á  Einar Karl sem skoraði með fallegu skoti í hægra hornið 1 - 0! Sérlega var vel staðið að aðdraganda þessa marks hjá Bjarna Ólafi, Bjarni átti skínandi leik með Valsliðinu í lokaumferðinni, einn sinn besta í sumar.

Keflvíkingar voru ekki langt frá því að jafna á 11. mínútu. Þeir komust í gott færi á vítateigslínu Valsmanna, náðu hörkuskoti en Sebastin Hedlund stóð í vegi og bjargaði í horn.

Skömmu seinna, á 14. mínútu vænkaðist hagur Valsmanna enn frekar þegar hornspyrna var dæmd á Keflvíkinga. Einar Karl framkvæmdi spyrnuna, hann sá Hauk Pál standa óvaldaðan úti í teignum og sendi fastan jarðarbolta á hann. Haukur Páll gerði sér lítið fyrir og hamraði knöttinn viðstöðulaust upp í nærhornið. Glæsilegt mark og staðan orðin 2 - 0!

Það var öllum ljóst sem á horfðu að Valsmenn ætluðu ekki að láta Keflvíkinga sækja sér gull í greipar. Valsmenn sóttu af krafti og á 19. mínútu kom þriðja markið, mark sem í raun gerði út um leikinn. Andri Adolphsson sótti hratt upp hægri kantinn og gaf hættulega sendingu fyrir markið  Varnarmaður Keflvíkinga ætlaði að afstýra hættunni en sendi knöttinn óvart í eigið mark. Ekki liðnar tuttugu mínútur af leiknum og staðan orðin 3 - 0!

Það var með ólíkindum að Valsmenn skyldu ekki skora fleiri mörk í fyrri hálfleik, því ekki skorti þá færin. Á 24. mínútu losaði Kristinn Freyr sig laglega við varnarmann og komst einn á móti úthlaupandi markverði, reyndi að vippa yfir hann en of fast og boltinn sveif yfir markið. Á 26. mínútu komst Dion í gott færi en markvörðurinn sá við honum og á 28. mínútu lauk góðri sókn Valsmanna með skoti frá Kristni Frey sem fór vel yfir markið.

Á 37. mínútu sáust fallegustu tilþrif hálfleiksins sem sannarlega hefðu átt að verðskulda mark. Patrick Pedersen fékk sendingu fyrir utan teig, lék snilldarlega á varnarmann og lét hörkuskot ríða af sem markvöðurinn rétt náði að blaka í slána  og í horn. Upp úr horninu átti síðan Eiður Aron góðan skalla sem fór naumlega yfir slána. Á 41. mínútu átti Dion góða sendingu á Kristinn Frey sem var kominn í hættulegt færi en varnarmaður náði á síðustu stundu að bægja hættunni frá.

Það var létt yfir stuðningsmönnum í leikhléi. Staðan 3 - 0, liðið þeirra hafði sýnt sínar bestu hliðar. Allir voru vissir um að Íslandsmeistaratitillinn væri í höfn og flestir bjuggust við fleiri mörkum í seinni hálfleik.

Raunin varð samt önnur, því þrátt fyrir mörg góð færi sem liðið skapaði, sá aðeins eitt mark dagsins ljós hjá Valsmönnum í seinni hálfleik. Það kom á á 57. mínútu, þá átti Kristinn Freyr góða stungusendingu á Dion Acoff sem náði að renna knettinum milli fóta á úthlaupandi markverðinum, 4 - 0!

Sigurður Egill kom inn á fyrir Andra þegar hálftími lifði af leik og var nálægt því að skora eftir sendingu frá Dion á 61. mínútu. Sjálfur var Dion í upplögðu færi á 66. mínútu þegar hann átti skot úr markteignum en markvörður varði. Dion náði frákastinu og skallaði að marki en naumlega framhjá. Tvöfalt dauðafæri!

Þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka gerðu þjálfararnir tvær breytingar til viðbótar. Kristinn Ingi kom inn á fyrir Dion Acoff og skömmu seinna kom Guðjón Pétur inn fyrir Einar Karl sem hafði átt afbragðsleik, skorað upphafsmarkið og lagt upp annað markið.

Það sem eftir lifði leiks skiptust liðin á að sækja og undir lok leiksins, á 88. mínútu, náðu Keflvíkingar að skora með laglegri hælspyrnu eftir fyrirgjöf frá hægri inn í markteiginn, sannkallað sárabótamark, 4 - 1. Skömmu seinna flautaði dómarinn til leiksloka og gífurlegur fögnuður braust út á vellinum. Ljóst var að 22. Íslandsmeistartitillinn var í höfn og það fór vel á því að Guðni Bergsson, fyrrum fyrirliði Valsliðsins og núverandi formaður KSÍ, afhenti Hauki Páli Íslandsmeistarabikarinn.

Valsmenn eru sannarlega vel að titlinum komnir. Liðið er vel mannað, stór og góður hópur sterkra leikmanna sem þjálfararnir, Ólafur og Sigurbjörn hafa blásið siguranda í brjóst. Þeir hafa náð að verja Íslandsmeistaratitilinn frá síðasta ári sem er ærið afrek.

En þessi árangur er ekki aðeins verk leikmanna og þjálfara. Valsliðið sprettur ekki fram fullskapað af sjálfu sér. Ekki skal gleyma öllum þeim sem hönd hafa lagt á plóginn í þessu ferli, liðstjórninni allri og ekki síður stjórn knattspyrnudeildarinnar undir stjórn Jóns Höskuldssonar.Gleyma ekki varaformanni stjórnarinar, hinum ötula og sívökula, Berki  Edvardssyni sem árum saman hefur haldið vöku sinni fyrir meistaraflokk Vals, náð að laða til félagsins sterka leikmenn, sannfært styrktaraðila um réttmæti ákvarðanna og lagt þung lóð á vogarskálarnar í meistaraflokksstarfi Vals. Allt þetta fólk á svo sannarlega sinn þátt í árangrinum og á þakkir skildar.

Ólafur þjálfari sagði mér í gamansömum tón þegar titillinn var kominn í hús: "Það er erfitt að vinna titilinn tvö ár í röð en það er ekkert mál að vinna þrjú ár í röð!" Ég ætla að gera þessi orð meistarans að áhrínisorðum og spái að Valur láti ekki deigann síga og hampi titlinum þriðja árið í röð, 2019! ÁFRAM VALUR!