Soffía í formannsstól Íþróttanefndar ríkisins

Soffía Ámundadóttir tók á dögunum við sem formaður Íþróttanefndar ríkisins af Stefáni Konráðssyni. Nefndin fundaði óformlega í fyrsta sinn á föstudag í síðustu viku. Soffía er fyrsta konan til að setjast í formannsstólinn og er yngsti meðlimur nefndarinnar.

Hlutverk Íþróttanefndar ríkisins er að veita mennta- og menningarmálaráðuneytinu ráðgjöf í íþróttamálum, gera tillögu til ráðuneytisins um fjárframlög til íþróttamála og um úthlutun fjár úr íþróttasjóði. Á borði nefndarinnar eru jafnframt málefni þjóðarleikvangs og félagasamtaka.

Soffía segir mörg mál á dagskrá sem nefndin muni leggja áherslu á, aðgerðaráætlun hennar til næstu fjögurra ára, svo sem kynjajafnrétti í íþróttum, málefni barna af erlendum uppruna og þeirra sem eru á jaðrinum. Þá muni ráðgjöf nefndarinnar byggja á nánu samráði við sérfræðinga.

Í nýskipaðri Íþróttanefnd ríksins eru auk Soffu þau Örn Guðnason, sem tilnefndur er fyrir hönd UMFÍ; Sigríður Jónsdóttir frá ÍSÍ; Jóhanna M. Hjartardóttir, sem tilnefnd er fyrir hönd sveitarfélaga og Erlingur S. Jóhannsson sem situr í nefndinni fyrir hönd Háskóla Íslands.

Varamenn eru þau Hörður Gunnarsson, Þráinn Hafsteinsson, Ragnheiður Högnadóttir, Bragi Bjarnason og Þórdís Lilja Gísladóttir.