Helena Sverrisdóttir er íþróttamaður Vals 2019

Að viðstöddu fjölmenni var Íþróttamaður Vals 2019 valinn á gamlársdag venju samkvæmt í 27. skipti við hátíðlega athöfn að Hlíðarenda.

Fyrir valinu að þessu sinni varð körfuknattleikskonan Helena Sverrissdóttir sem var lykilleikmaður liðsins á síðustu leiktíð og leiddi það til bikarmeistaratitils, deildarmeistaratitils og Íslandsmeistaratitils. 

Helena lauk tímabilinu með því að vera kjörin besti leikmaðurinn í deildinni á lokahófi KKÍ auk þess sem hún var kjörin körfuknattleikskona KKÍ í 12 sinn á 15 árum.

Í ár er hún sá íslenski leikmaður sem hefur að meðaltali skorað mest, tekið flest fráköst og skilar hæðsta framlaginu í deildinni.

Með íslenska landsliðinu hefur Helena eins og á undanförnum árum leikið mjög vel, bæði í síðustu undankeppni þar sem hún fór fyrir liðinu í helstu tölfræðiþáttum sem og í nýhafinni undankeppni FIBA Europe þar sem hún leiðir liðið í tölfræðiþáttum yfir stig skoruð, fráköstum og er önnur yfir flestar stoðsendingar.

Við óskum Helenu innilega til hamingju með kjörið og velfarnaðar í komandi verkefnum með lið Vals sem situr á toppi dominos-deildar kvenna. 

Á meðfylgjandi myndum sem Guðlaugur Ottesen Karlsson tók má sjá Helenu með verðlaunagripina ásamt Árna Pétri Jónssyni fomanni Vals.