Yngri flokkar Vals - Skráning fyrir haustið opnar um helgina

Skráning í haustnámskeið yngri flokka Vals opnar núna um helgina ásamt því að æfingatöflur haustsins verða opinberaðar. 

Mánudaginn 23. ágúst er skólasetning hjá hverfisskólunum á mismunandi tímum og því munu æfingar hjá öllum greinum hefjast samkvæmt hauststundatöflu þriðjudaginn 24. ágúst.

Valsrútan mun einnig fara af stað næstkomandi þriðjudag, sama dag og frístundaheimilin hefja starfsemi sína. Forsenda þess að frístundaheimilin sendi börnin í rútuna er að búið sé að ganga frá skráningu og biðjum foreldra um að virða það. Iðkendur verða ekki sendir í rútu nema skráningu sé lokið. Ef barn er að fara á æfingu sem hefst klukkan 14:30-15:00 þá er það  fyrri ferð en ef æfing hefst klukkan 15:30-15:50 þá er það  seinni ferð.   

Öll skráning fer fram í gegnum skráningarsíðu félagsins inn á: www.sportabler.com/shop/valur

Við erum spennt að hefja nýju önnina og hlökkum til að taka á móti iðkendum að nýju eftir sumarið.