Dósa og jólatrjáasöfnun Vals – uppgjör.

Söfnunin fór fram með stuðningi og skipulagningu Fálka eins og mörg undanfarin ár og heppnaðist mjög vel. Heldur færri tóku þátt en í fyrra en samt sem áður safnaðist gríðarlega vel og var útkoman svipuð og árin tvö á undan en það leiðir auðvitað til þess að meira er til skiptana fyrir börnin sem mæta og safna. Mikil aukning var í jólatrjám og gáfu þau yfir 400.000 kr í tekjur. Dósir og flöskur gáfu rúmlega 700.000 kr. Eini kostnaðurinn sem dregst frá er leiga á 40 feta gám undir flöskurnar og kaup á bakkelsi og hressingu fyrir þátttakendur. Fyrirtæki eins og GG-lagnir og Hlaðbær-Colas gefa mikla vinnu og akstur á flöskum til endurvinnslu og jólatrjám til förgunar. Gámaþjónustan tekur við öllum trjánum til endurvinnslu börnunum að kostnaðarlausu. Framlag þessara fyrirtækja er verðmætt og verkefnið varla gerlegt án stuðnings þeirra.

Fálkar skipuleggja allt verkefnið og ganga frá eftir söfnun og standa vaktina allan daginn meðan söfnun fer fram í ýmsum verkefnum. 

Alls mættu 73 iðkendur til starfa í ár og aðstandendur þeirra voru ríflega 60 svo í heildina voru þátttakendur 134, plús á annan tug Fálka og Valkyrja sem unnu að verkefninu. Til skiptana var 1.054.059 kr. og samkvæmt punktakerfinu gaf einn punktur því 6692 krónur.

Punktakerfið komst nokkuð til umræðu m.a í fjölmiðlum, áður en söfnunin fór fram en barn sem mætir fær einn punkt og síðan foreldrar eða aðrir aðstandendur og bílar og kerrur eftir sanngjörnu kerfi að okkar mati. Verkefnið væri ekki gerlegt nema með bílum og kerrum og þeir sem leggja það til fá eitthvað uppí þann kostnað. Barn sem ekki getur mætt með neina aðstandendur með sér fær að vera með í öðrum hópum og nýtur auðvitað ávinnings af öllum sjálfboðaliðum Fálka og Valkyrja auk rausnarlegs framlags fyrirtækjanna. Allavega getur tímakaupið ekki talist lélegt fyrir barn sem mætir í 3-4 tíma vinnu. Foreldrar eða aðstandendur sem leggja fram starfskrafta fá svo að sjálfsögðu sama "kaup" fyrir hönd síns barns og verður bara að teljast fullkomlega eðlilegt.

Verkefnið er ekki síst félagslegt en það er virkilega líf og fjör í Valsheimilinu á Hlíðarenda á söfnunardaginn. Gleði og stemmning ríkir, ekki síst í flöskuflokkuninni sem er hörkustarf og mikil læti.

Sjáumst að ári :)

F.h Fálka

Baldur og Sigþór