Mist Edvardsdóttir endurnýjar samning sinn við knattspyrnudeild Vals

Það er ánægjulegt að tilkynna að Mist Edvardsdóttir hefur endurnýjað samning sinn við knattspyrnudeild Vals og mun því leika með meistaraflokki kvenna í Pepsi-deildinni á komandi tímabili. Mist Edvardsdóttir er ekki aðeins frábær knattspyrnumaður heldur einstakur karakter og manneskja. Hennar hugarfar og baráttuandi inni á vellinum og ekki síst utan hans er ómetanlegt í það uppbyggingarstarf sem í gangi er í kvennaliði Vals. Mist er jafnframt mögnuð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins, flott dæmi um manneskju sem gefst aldrei upp þó svo andstæðingurinn sé illviðráðanlegur.

Í júní 2014 dró Mist sig út úr landliði Íslands vegna baráttu við krabbamein í hálsi. Allan tímann hefur þessi mikli karakter aldrei gefið eftir í baráttu sem er stærri en hvaða knattspyrnuleikur sem er. Í janúar á þessu ári greindi Mist svo frá því að hún væri laus við krabbameinið.

Mist á 121 meistaraflokksleik að baki og hefur skorað 21 mark í þeim. Mist gékk til liðs við Val 2011 og hefur leikið 70 leiki með Val og skorað í þeim 8 mörk. Mist hefur verið fastakona í A-landsliði Íslands og hefur sett sér markmið að komast aftur í A-hópinn.

Landsleikir:
U-19, 6 leikir
U-23, 1 leikur
A- landslið, 13 leikir, 1 mark

Endurkoma Mistar í meistaraflokk Vals er gríðarlegur liðsstyrkur fyrir félagið, Valur lýsir mikilli ánægju með að Mist leiki fyrir félagið á komandi tímabili.

Áfram Valur
Áfram hærra.