Þórdís María Aikman skrifar undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild Vals

Þórdís Aikman, 22 ára markmaður liðsins hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið sem gildir út árið 2016. Þórdís lék 13 leiki með Val í deild og bikar á síðustu leiktíð. Þórdís á alls 41 meistaraflokksleik að baki þar af 37 með Val. Þórdís á 8 landsleiki með U-19 landsliði Íslands.

Sökum "blíðviðrisins" á laugardag var ekki hægt að taka viðtal við Þórdísi og því var kraftur fésbókarinnar nýttur til að ná tali af henni. Hún hafði þetta að segja:

"Það er virkilega mikill heiður að fá að spila fyrir klúbb eins og Val næstu tvö árin, þetta er klúbbur með mikla fortíð og framtíð ! Hópurinn er þéttari sem aldrei fyrr og mikill metnaður í öllu starfi í kringum liðið.

Þjálfarateymið er flott, með sterkar hugmyndir og mikinn metnað sem á eftir að skila sér í frammistöðu í sumar. Við urðum fyrir blóðtöku eftir síðasta tímabil og auðvitað sér maður eftir öllum þeim sem leituðu á önnur mið. Engu að síður höfum við að mínu mati fengið enn sterkari leikmenn til liðs við okkur, sem koma til með að styrkja okkur innan vallar sem utan.

Ég hlakka ótrúlega mikið til að fara inn í tímabilið með öllum þessum frábæru leikmönnum og starfsfólki sem eru í kringum mig og ég fæ að njóta að vinna með á hverjum degi. Ég er ekkert nema bjartsýn fyrir komandi átök og er full sjálfstrausti þegar ég segi að við séum að fara að gera frábæra hluti í sumar.

Markmiðin eru skýr og ef þau takast eru liggja úrslitin augum uppi Það mikilvægast af öllu fyrir okkur í Val er samstaða og liðsheild. Því get ég ekki lagt nægilega mikla áherslu á það hversu miklu máli það skiptir fyrir okkur að fá fólk á völlin til að styðja okkur. Stuðningsmenn liðsins er fólkið sem að drífur okkur áfram.

Hlakka til að sjá alla á vellinum í sumar!
Áfram, hærra - Þórdís María Aikman

Í tilefni af því að enn einn lykilleikmaður meistaraflokks kvenna verður áfram innan raða félagsins var stutt upprifun með viðeigandi lagi sett saman. Í myndinni má sjá þá leikmenn sem hafa komið/endurnýjað samninga sína við félagið. Það eru sannarlega spennandi tímar framunan í kvennaknattspyrnunni í Val.