Skemmtilegustu leikir vetrarins í boði Fálka-Valur - Fjölnir

Flestir Valsmenn þekkja til Fálkanna en þeir eru karlaklúbbur sem var stofnaður til að vera bakhjarlar við barna- og unglingastarf í Val.  Sá hluti starfsins sem flestir hafa tekið eftir er sala á grilluðum borgurum og pylsum til að afla fjár.  En starfið felst ekki eingöngu í fjáröflun því einnig standa Fálkarnir fyrir nokkrum félagslegum atburðum hjá yngri flokkunum. 

Einn af þessum atburðum er skemmtilegustu leikir vetrarins í handboltanum.  En laugardaginn 14. mars, fóru fram þrír leikir í fjórða flokki karla undir yfirskriftinni Skemmtilegustu leikir vetrarins.

Fyrsti leikurinn var leikur eldri Valsstráka (fæddir 1999) gegn Fjölni.  Fyrir leik komu þeir Geir Guðmundsson og Atli Már Báruson úr meistaraflokki Vals og heilsuðu upp á leikmenn.

Valsliðið var þannig skipað:

Sigurjón Ágúst Sveinsson markmaður

Útispilarar:

Kristján Guðmundsson,

Ásgeir Snær Vignisson,

Árni Páll Árnason,

Gísli Gunnarsson,

Jón Freyr Eyþórsson,

Sveinn Jónsson,

Birgir Gunnarsson,

Eiríkur Þórarinsson,

Þór Einarsson og

Anton Davíðsson.

 

Þjálfari strákanna er Maksim Akbachev.

Til þessa hafa Valsmenn verið í miklu ströggli í 1. deildinni. Þeir eru í botnbaráttu á meðan Fjölnismenn eru í fjórða sæti deildarinnar.  En þó svo að Valsliðið sé að ströggla þá fer því fjarri að þeir séu að tapa sínum leikjum með miklum mun. Tilfellið er að þeir eru inni í nánast öllum leikjum en hefur gengið illa að klára leikina.  Algengt er að þeir hafi tapað með þremur til fimm mörkum.  Einnig má minna á að þessir strákar komust í undanúrslit í bikarkeppninni en töpuðu gegn liðinu sem að endingu varð bikarmeistari.

Að lokinni kynningu leikþular hófst rimman.       

Valsmenn komust fyrsti á blað þegar Ásgeir skoraði opnunarmark leiksins.  En Fjölnismenn svöruðu strax og Ásgeir kom okkur aftur strax yfir.  Þá tók við þrenna Fjölnismanna og við Valsarar fengum strax óbragð í munninn.  Jæja, á nú að rasskella okkur í dag.  En ekki voru Valsstrákar alveg á því.  Sigurjón í markinu var ekki mættur til þess eins að fá sér lúr í rammanum. Hann gaf því tóninn til útispilaranna með frábærri markvörslu hvað eftir annað.  Við komum okkur inn í leikinn og tókum okkar þriggja marka syrpu um miðjan hálfleikinn. Þá vorum við í bílstjórasætinu og náðum að klára fyrri hálfleikinn með eins marks forskoti, 12 - 11.

Í seinni hálfleik byrjuðu Fjölnismenn á því að jafna leikinn.  En Valsstrákar svöruðu því með þrennu og við virtumst vera að ná undirtökunum.  En þá kom hræðilegur kafli hjá okkur.  Það hvorki gekk né rak í nokkrar mínútur.  Skotin okkar voru heimskuleg og menn komu í vörnina til að hvíla sig en ekki til að verjast.  Þetta líkaði Fjölnismönnum sem komust í þriggja marka forystu með því að skora sex mörk í röð. Þá ákvað Maksim að taka leikhlé.  Ekki veit ég hvað hann sagði við strákana, en augljóslega virkaði það vel því eftir hléið skoruðu Valsstrákarnir þrjú mörk í röð og jöfnuðu leikinn.  Gerðust menn nú alltrylltir í báðum liðum. En Valsstrákar náðu að hesthúsa sigur með því að taka góðan kafla þar sem þeir svöruðu hverju marki Fjölnis með tveimur frá sér. Leiknum lauk því með verðskulduðum sigri Valsstráka 24 - 22.

Bæði lið eiga skilið þakklæti fyrir sitt skemmtilega framlag á vellinum.  Valsstrákum óskum við hjartanlega til hamingju með sigurinn.

Helstu tölur: Sigurjón varði 14 skot í leiknum (þar af 10 í fyrri hálfleik og eitt víti).  Mörkin: Kristján 3, Ásgeir 8, Árni 1, Jón Freyr 4, Sveinn 6, Birkir 1 og Eiríkur 1.

Fálkar þakka: Geir Guðmundssyni og Atla Má Bárusyni úr meistaraflokki fyrir að koma til að heilsa upp á ungu mennina.  Baldur Þorgilsson fær þakkir fyrir myndatöku.  Þeir Jökull Sigurðarson og Þorgils Jón Svölu Baldursson leikmenn í þriðja flokki fá þakkir fyrir að sjá um starf vallarþular.

 

F.h. Fálka:

Sigurður Ásbjörnsson,

Jón Sveinsson,

Rúnar Dýrmundur Bjarnason

 

leikur 1.jpg