Skemmtilegustu leikir vetrarins í boði Fálka-Valur2 – Afturelding2 (yngra ár)

Þriðji leikur í syrpunni Skemmtilegustu leikir vetrarins var leikur yngri Valsstráka (Valur2  fæddir 2000) gegn Aftureldingu.  Ritarinn hefur ekki fylgst með þessum strákum eins og félögum þeirra í Val 1. En það fer ekki á milli mála að Valur2 er afar mikilvægt lið í fjórða flokki líkt og öðrum flokkum. Með því að vera með tvö lið þá er það tryggt að allir áhugasamir leikmenn fá alvöru verkefni, liðið nýtist til að þjálfa leikmenn eftir meiðsli eða veikindi og liðið fær styrk með yngri leikmönnum ef þess gerist þörf. Valur2 spilar í þriðju deild og trónir þar á toppnum með 85 mörk í plús umfram liðið í öðru sæti.

Fyrir leik komu þeir Orri Freyr Gíslason og Vignir Stefánsson úr meistaraflokki Vals og heilsuðu upp á leikmenn.

Valsliðið var þannig skipað:

Jón Jónsson markmaður  

Útispilarar:

Björn Birkisson,

Benedikt Óskarsson,

Einar Ólafsson,

Bárður Birkisson,

Erlendur Guðmundsson,

Óðinn Ásgrímsson,

Þór Einarsson,

Anton Davíðsson og

Gabríel Ölduson.

Þjálfarar strákanna eru Maksim Akbachev og Kári Kristján Kristjánsson.

Mosfellingar voru fyrstir á blað en því var fljótsvarað með tveimur mörkum Valsmanna. Eftir skamman leik var ljóst að framundan væri leikur kattarins að músinni. Valsstrákarnir voru ekkert sérstaklega gestrisnir á sínum heimavelli því í hálfleik var nánast búið að gera út um leikinn þegar staðan var 21 - 9 fyrir Val.

Þrátt fyrir fína spretti Mosfellinga í seinni hálfleik þá náðu þeir aldrei að ógna Valsliðinu til gagns og leiknum lauk með 16 marka sigri Valsmanna 38 - 22.

Það var ekki fyrr en eftir leikinn að ritarinn áttaði sig á því að í þessum leik áttust við topplið Vals gegn botnliði Aftureldingar. Það breytir því ekki að þjálfarar Valsliðsins eiga skilið að fá samúð fyrir það vandasama verkefni að raða mannskapnum í Val 1 og Val 2. Í þessum leik voru án nokkurs vafa nokkrir leikmenn sem voru að banka þéttingsfast á dyrnar hjá Val 1. Það segir okkur að hópurinn sé mjög breiður og hæfileikarnir leynist víða.

Eftir leik kom fulltrúi HSÍ, Þorbjörg Gunnarsdóttir og afhenti Valsliðinu bikar fyrir deildarmeistaratitil í þriðju deild árið 2015.  Því þó svo að mótið sé ekki búið hafa strákarnir tryggt sér titilinn. Til hamingju strákar og Maks og Kári  þjálfarar fyrir frábæran árangur með liðið í vetur.

Helstu tölur Jón varði 12 skot. Mörkin: Björn 8, Benedikt 4, Bárður 4, Óðinn 7, Þór 7 og Anton 8.

Fálkar þakka: Orra Frey Gíslasyni og Vigni Stefánssyni úr meistaraflokki fyrir að koma til að heilsa upp á ungu mennina.  Alexander Jóni Mássyni og Jökli Sigurðarsyni er þakkað fyrir að hafa staðið vaktina með hljóðnemann.

 

F.h. Fálka

Sigurður Ásbjörnsson,

Jón Sveinsson,

Rúnar Dýrmundur Bjarnason