Það styttist í mót - Meistaraflokkur karla í knattspyrnu

Þann 7. maí 2012 hefst Pepsi deild karla. Ótrúlegt hvað lengsta undirbúningstímabil í heimi er í raun fljótt að líða. Það eru rétt rúmar þrjár vikur í fyrsta leik á móti Fram á Laugardalsvelli. Nú er lokaundirbúningur liðsins í gangi og í mörg horn að líta hjá þjálfarateymi, leikmönnum ásamt því að starfsfólk Vals og stjórn undirbýr sig af kostgæfni fyrir komandi átök.

Þann 6. maí lýkur hinum eiginlega undirbúningi fyrir keppnistímabilið, þá eru leikmenn búnir að æfa í 26 vikur. Leikmenn hafa æft vel í vetur og við þjálfararnir vitum að liðið mætir vel undirbúið til leiks. Leikmenn hafa æft 5-9 sinnum í viku ásamt því að spila u.þ.b. 20 leiki í Reykjavíkurmótinu og Lengjubikarnum. Við erum ánægðir með þá vinnusemi, vilja og dugnað sem býr í leikmannahópi okkar.

Vissulega er okkar lið ungt að árum. Meðalaldur er 23 ár, það hefur sína kosti og galla, einn af kostunum er sá að leikmenn eru viljugir og hafa líkamlega getu til þess að æfa vel og undir miklu álagi.

En eins og ég sagði hér í upphafi þá er í mörg horn að líta og allir vita að það þarf fleira til en gott líkamlegt atgervi til að ná árangri. Við vinnum mikið með andlega þáttinn með dyggri aðstoð frá valsaranum og sálfræðingnum Hafrúnu Kristjáns.
Ég fullyrði að leikmenn okkar fái framúrskarandi þjálfun í þessum mikilvæga þætti og sennilega eru fá félög sem standast okkur snúning á þessu sviði.

Í undirbúningi okkar eru leikmenn undir stöðugu eftirliti,  frammistaða leikmanna er ekki metinn með huglægum hætti.   Okkar mælingar sína  fram á góðan þroska leikmanna og góða bætingu í líkamlegum þáttum.  Við getum gengið að því vísu að okkar lið mæti vel undirbúið líkamlega og andlega  til leiks í Pepsideildina í ár.

Leikfræðin er búin að vera mótast í vetur, hún hefur gengið vel og frammistaða liðsins í síðustu leikjum hefur verið virkilega góð,  leikmenn eru að tileinka sér nýjar áherslur í varnarleik og sóknarleik.

Mikilvægt er til þess að árangur náist er stemmning og liðsheild en það hafa orðið meiri breytingar á liðinu en þjálfarar hefðu vonast eftir og góðir leikmenn horfið á braut.  Hópurinn hefur blandast vel saman,  leikmenn nýkomnir sem þeir sem fyrir voru hafa stigið upp og samvinna og samheldni eru til fyrirmyndar og eftirbreytni.

Til þess að árangur náist þarf margt að ganga upp og allur undirbúningur þarf að vera  óaðfinnanlegur, menn þurfa að vera samstíga þ.e þjálfarar, leikmenn, stjórn, sjálfboðaliðar og starfsmenn.  Þjálfarateymi og stjórn sátu nýverið á vinnufundi þar sem áherslur og hugmyndir voru settar í góðan farveg. Að baki okkar standa kröftugir einstaklingar sem verður spennandi að vinna með í sumar.

En einn lykilþátturinn til að ná árangri er góður jákvæður andi og dyggir, kraftmiklir stuðningsmenn. Við vonumst til þess að fá alla Valsmenn með okkur í þá baráttu sem framundar er.

Við viljum að fólkið sem skapar stemmninguna í félaginu verði okkur samferða í þeirri vegferð sem bíður okkar.

Valur er ekkert annað en ég og þú…

Áfram, Hærra

Freyr Alexandersson.